mánudagur, apríl 03, 2006

Það var tölverður snjór á Egilsstöðum þegar við lentum þar upp úr kl. 10.00 í gærmorgun. Það muggaði dálítið en ekki til vandræða. Við ókum sem leið lá upp inn Jökuldal og upp á öræfi þar til við komum að afleggjaranum niður á Vopnafjörð. Svolítill snjór var á vegi en ekki sem máli skipti. Það rak yfir dimmt él á meðan við stoppuðum í sjoppunni á Vopnafirði og keyptum okkur næringu. Á Bakkafjörð komum við rétt fyrir kl. 13.00 en þá skyldi hefjast fundur um sameingarmál nágrannasvetiarfélaganna Skeggjastaðahreps og Þórshafnarhrepps. Sveitarstjórnir hreppanna hafa verið að ræða sameiningu sveitarfélaganna en kosið verður þann 8. apr. n.k. Sveitarstjóri Þórshafnarhrepps skýrði út tillögur sameiningarnefnar og þar næst flutti Jón Kristjánsson ávarp. Síðan var setið fyrir svörum og reynt að leysa úr spurningum og vangaveltum heimanmanna. Skoðanir eru eðlilega skiptar, menn vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Eftir góðan klukkutímafund þá var haldið af stað til Þórshafnar og farið yfir sömu hluti á fundi með Þórshafnarbúum. Veðrið var orðið mjög gott, sólskin, logn og frekar hlýtt. Um kl. 18.00 lögðum við af stað frá Þórshöf áleiðis til Raufarhafnar. Við hringdum í Ella á Hótel Norðurljós og báðum um eitthvað að borða því maginn vill sitt á langri leið. Ég hef einungis einu sinni komið til Raufarhafnar eftir að ég flutti þaðan seint á árinu 1999 þótt skömm sé frá að segja. Ég labbaði því aðeins niður á bryggju til að taka myndir og rifja upp gamlar minningar. Það eru fá skip í höfn og ekki mikið umleikis. Þó kom einn bátur til hafnar á meðan ég var niður á bryggju, Jóhannes og Einar sonur hans höfðu verið á sjó um daginn.
Frá Rauðarhöfn fórum við um kl. 7.30 og vorum komnir í Skúlagarð í Kelduhverfi um kl. 21.30 en þar var sameiningarnefnd Húsavíkurbæjar, Kelduhverfis, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnar að funda. Við sátum með þeim í um það bil klukkutíma og fórum yfir málin með þeim. Síðan ókum við sem æleið lá til Akureyrar og vorum okmnir í hlað á Hótel Kea um kl. 23.00. Það hefur snjóað töluvert á norðausturhorninu undanfarna viku en það verður fljótt að fara þegar hlýnar. Það var gaman að fara þarna um og hitta gamla og góða kunningja og fara yfir með þeim hvað verið er að fást við. Þróun mála hefur á margan hátt verið þessu landssvæði erfið á undanförnum árum, atvinnutækifærum hefur fækkað og þar með fólkinu. Hins vegar hafa samgöngur batnað gríðarlega frá þvi ég flutti norður fyrir um 11 árum og mikið er á döfinni. Í því felast ýmis sóknarfæri þó þau fylli tæplega upp í þau skörð sem samdráttur í sjávarútvegnum hefur skilið eftir sig.

Engin ummæli: