fimmtudagur, apríl 06, 2006

Ég veit ekki hvort forgangsröðunin er önnur nú en í fyrra en allavega hefur það komið nokkuð oft fyrir að undanförnu að kvöldin eru frátekin í annað en að hlaupa.

Í gærkvöldi var ég á ágætum fundi í Þjóðmálafélaginu Akur á Kornhlöðuloftinu þar sem staða miðflokka var rædd. Ólafur Harðarson og Jónína Bjartmarz höfðu framsögu og síðan var óformlegt spjall um efnið fram á kvöldið. Fundir um pólitík án þess að andrúmsloftið sé lævi blandið af ýmsum neðanjarðarstraumum er góð tilbreyting.

Maður veltir stundum fyrir sér starfi stjórnmálaflokka og hvers vegna fólk kýs að ganga í stjórnmálaflokk. Flestir ganga í stjórnmálaflokk af ákveðinni hugsjón og vilja leggja sitt litla lóð á vogarskálina í þeim tilgangi að ná fram ákveðnum markmiðum um mótun samfélagsins. Það sameinar þá sem sagt meir en skilur þá að. Aðrir líta á inngöngu í stjórnmálaflokk sem handhæga vinnumiðlun. Eftir að hafa mætt á fundi og unnið fyrir flokkinn um árabil telja þeir sig eiga rétt á einhverri vegtyllu. Röðin sé komin að þeim. Einstaka maður telur sig síðan hafa mjög stuttan tíma til stefnu og ryðst yfir allt og alla til að ná persónulegum markmiðum. Skítt með stefnu og markmið.

Samkvæmt eðli máls eru ekki allri þeir sem ganga í stjórnmálaflokka sammála um alla hluti. Það er einkenni stórra flokka að innan þeirra er umburðarlyndi fyrir fjölþættum og fjölbreytilegum skoðunum. Það er styrkur flokksins að innan hans rúmist mörg sjónarmið og ólíkar skoðanir sem geta laðað fólk með ólíkar skoðanir að flokknum. Það virðist síðan vera svo að eftir því sem þetta umburðarlyndi er minna þeim mun minni verða flokkarnir. Það er í sjálfu sér eðlilegt því þá sameinast menn um afmarkaðri og þrengri skoðanir og takmarkaðri viðhorf. Þegar staðan er aftur á móti orðin þannig að ef einhver leyfir sér að viðra skoðun sem fellur ekki öllum í geð þá vilji hinir sömu helst velta viðkomandi upp úr tjöru og fiðri og reka hann úr flokknum, þá er staðan orðin alvarleg. Slíkur hugsunaháttur minnir helst á stæka sértrúarsöfnuði eða harðar lokaðar klíkur en ekki víðsýna stjórnmálaflokka sem vilja byggja upp fjöldafylgi. Þegar litið er yfir höfuð á gagnrýnar raddir sem skemmd epli í flokksstarfinu þá er eðlilegt að spurt sé hver sé í hlutverki skemmda eplisins þegar upp er staðið.

Fer austur að Selfossi í kvöld til að fylgjast með Jóa og félögum spila við Selfosspilta. Ef þeir vinna leikinn þá vinna þeir deildina og komast beint í úrslitakeppnina í 3ja flokki.

Engin ummæli: