mánudagur, júlí 24, 2006

Fór út í gærmorgun með Vinum Gulli. Heldur voru þeir fámennir en við Biggi vorum þeir einu sem héldu tryggð við þessa ágætu konu þennan morguninn. Við hittum hins vegar fljótlega hlaupahjónin úr Rauðagerðinu og héldum sjó með þeim og Jakobi sem slóst einnig í hópinn. Gauti og Biggi halda uppi góðum hraða svo þetta var fín æfing. Fór bara 16 km því ég þurfti að vera kominn heim um 11.30. María og stöllur hennar spiluðu við Völsung í Víkinni kl. 12.00 og sigruðu þær örugglega með 5 mörkun gegn einu.

Ásgeir var að spyrja hví ég væri að taka hraðaæfingar sérstaklega fyrir núna. Ég gleymdi einu í svarinu. Það er náttúrulega brennsla. Maður brennir mun meir við að hlaupa góða vegalengd hratt heldur en hægt. Ég finn það vel að það gengur heldur vel að ná kílóunum niður. Ég hef lést um 3 kíló í þessum mánuði frá því ég hætti sælgætisáti og minnkaði kolvetnaneyslu verulega. Það er allt á réttri leið og er ekkert erfitt.

Keypti mér nokkra diska úti um daginn. Maður fær góða DVD diska á um 50 kr danskar í Köben. Meðal annars keypti ég einn DVD með Brian Vilson og einn CD með Beach Boys. Ég hef lesið nokkuð sögu þessa mikla meistara á undanförnum árum og náði því áður en umfjöllun um hann fór að vaxa þannig að ég get ekki sagt að ég hafi hrifist með straummnum. Ég vissi að plöturnar sem þeir gáfu út rétt fyrir 1970 voru bölvað drasl vegna gengdarlausrar dópneyslu og geðbilunar hjá Brian. Mig langaði hins vegar til að heyra þetta og keypti því disk sem ég gat búist við að væri skrítinn. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Þvílíkt rusl sem þeir létu frá sér á ákveðnu tímabili. Síðan keypti ég disk með Brian frá fyrsta opinbera konsert sem hann hélt eftir endurreisnina frá því ca 5 árum síðan. Brian, sem samdi öll hin frábæru Beach Boys lög hér í den tíð, vóg á tímabili yfir 180 kíló. Hann lá eitt sinn í rúminu í þrjú ár samfleitt og nærðist fyrst og fremst á bjór, hamborgurum og kókaíni. Sökum sviðsskrekks hætti hann að túra með hljómsveitinni árið 1965. Samkvæmt öllum náttúrulögmálum átti hann að vera löngu dauður en einhverra hluta vegna lifði hann þetta af og svo kom Dr Landy til sögunnar sem kom honum í gegnum endurhæfinguna og andlega og líkamlega uppbyggingu. Það er stórkostlegt að sjá Brian á sviði, umkringdan frábæru tónlistarfólki, geislandi af gleði við að flytja þessi meistaraverk sín. Neil Yong líkir honum við Mozart og Beetoven. Það væri gaman að komast á konsert með honum svo og Stones, en ætli verði af því úr þessu. Hver veit.

Víkingar sigruðu Val í bikarnum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Mikil stemming, frábært veður, fín skemmtun.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur,
Takk fyrir viðbótina á svarinu, þó minnir mig að ég hafi einhverstaðar lesið að það sé nú ekki mikil, ef nokkur munur á brennslu, þ.e. ef maður tekur 10km á 60min eða á 50min, þú ert jú 10min lengur í áreynslu, þó hægar fari, en ég er ekki viss.
Annars er ég sérstaklega ánægður að heyra af Kílóunum sem eru að fara, þetta er nefnilega alsekki svo erfitt, þegar maður er komin á skrið:-)
Bestu Kveðjur,
Ásgeir