föstudagur, júlí 21, 2006

Notaði góða veðrið í gær og fór með Sveini tengdapabba upp í Borgarfjörð. Þar gengum við á Skessuhorn en við höfum talað um það í nokkur ár að gaman væri að skreppa þ.angað upp. Ég gekk á Skessuhorn í apríl 1975 en síðan hefur ekki gefist tækifæri til þess fyrr en nú. Veðrið var eins og best gat verið, sól, hiti og smá gola. Við vorum þrjá klukkuíma upp frá afleggjaranum að Horni og um tvo klukkutíma niður. Fundum einn gaffal og eina karbínu á leiðinni. Gangan upp á sjálft hornið er auðveldari en ég hélt en þegar ég fór þetta á skólaarum á Hvanneyri þá var gengið eftir snjó alla leiðina. Útsýnið er mikið til allra átta, vestur á Nes, norður á jökla og til Reykjavíkur. Sveinn er orðinn 74 ára gamall en stikaði upp léttur eins og fjallageit.

Fór í tíma nr. 2 til Halldóru í morgun. Þessi lota var ekki eins erfið eins og hin fyrsta. Hún verður endurtekin á mánudagsmorgun og þá fer niðurstaðan að liggja fyrir. Maður verður að gefa allt á mánudaginn.

Nú eru sjálfskipaðir náttúrverndarmenn orðnir vitlausir yfir nauðsynlegum aðgerðum borgarinnar í því ófremdarástandi sem mávagerið í borginni er orðið. Dýraverndarfélag Íslands heimtaði að mávamorðin yrðu stöðvuð. Þetta er nú ekki alveg í lagi með þetta fólk. Máfagerin í borginni eru orðin svoleiðis að á stundum finnst manni að maður sé kominn inn í mynd Hitchcoks The Birds. Það vita allir sem fylgjast með fuglum að sílamáfurinn er einn sá versti ungadrápari sem fyrir finnst og er þá mikli til jafnað. Hann er sá versti vargur sem æðarbændur fá í æðarvarpið því hann er hreinlega eins og ryksuga í að tína upp ungana. Í Kaupmannahöfn sá maður fólk vera að gefa öndunum á Vötnunum í rólegheitum án þess að hundruð vitlausra máva væru mættir á svæðið. Það er enginn að tala um að útrýma þessum fuglum heldur að fækka þeim og fæla þá burt úr borginni. Fyrir nokkrum árum gerði fiskútflutningsfyrirtæki myndband um íslenskar fiskafurðir vegna útflutnings til Bandaríkjanna. Í upprunalegu myndbandi komu fyrir máar á flugi. Bandaríkjamenn dæmdu það umsvifalaust ónothæft þar sem það væri litið á máva sem fljúgandi rottur þarlendis. Því mætti ekki blanda saman fiski og mávum í markaðssetningu á fiski.

Ég tek því ágæta blaði Útiveru yfirleitt fangandi því það er bæði fjölbreitt og skemmtilegt aflestrar. Hinn ágæti ritstjóri þess hefði að mínu mati þó mátt láta forystugreinina í síðasta blaði liggja aðeins í salti áður en hann sendi hana frá sér. Þar skrifar hann um sílamáva og tófur og er að andmæla því að þessum dýrum sé fargað sem lið í að halda stofnstærð þeirra í jafnvægi. Á Hornströndum hefur verið bannað að veiða tófur á anan áratug. Tófum þar hefur fjölgað gríðarlega og þær dreifast þaðan út um alla Vestfirði. Á Hornströndum er enginn mófugl lengur. Ég gekk um allar Hornstrandir á tímabilinu 1994 - 1999 en fyrst fór ég í gönguferð um þessar slóðir árið 1976 þannig að ég veit svolítið hvað ég er um að tala. Þeir sem þekkja björgin vel segja að refurinn sé búinn að eyða fugli úr stórum hluta bjarganna þar sem hann kemst um. Vitaskuld þarf refurinn að éta og ekki rær hann til fiskjar. Það má vel vera að mönnum þyki þetta í lagi en þá á bara að segja það, ekki vera með neinn feluleik. Árum saman þrætt náttúruvísindamenn og heimamenn fyrir vestan um útbreiðslurefsins frá Hornströndum. Náttúruvísindamenn stóðu á því fastar en fótunum að hann væri mjög staðbundinn og færi ekki út fyrir takmarkað svæði á meðan bændur sögðu að ref á Vestfjörðum hefði fjölgað gríðarlega og hann kæmi fyrst og fremst norðan af ströndum. Það kom svo í ljós þegar sett voru staðsetningartæki á refi a Hornströndum að þeir fara gríðarlegar vegnalengdir og suður um alla firði. Eitt vorið sagði Ragnar í Reykjafirði mér að hann hefði skotið um 30 refi af tröppunum hjá sér en hann var þá slæmur í fæti og fór lítið út fyrir túnið. Refurinn er vargur í rjúpunni og öðrum mófuglum. Eðlilega, hann þarf að éta eins og önnur dýr. Refaveiðar ganga ekki út á að útrýma ref heldur að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Ég þekki það frá fyrri árum hvað refnum fjölgaði mikið heima í tvö ár þegar einhverra hluta vegna var ekki gengið á greni þau vorin. Mér finnst það firra að halda því fram að allt leiti jafnvægis þegar einni tegund fjölgar gríðarlega á kostnað annara. Það á bæði við um refi og sílamáf. Vitaskuld verður að halda fjölgun þessara tegunda undir ákveðnum mörkum ef hún á ekki að leiða til annarra og verri hluta. Því vona ég að það verði skotið sem mest af sílamáv í borginni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já ég er svo sannarlega sammála þér um sílamáfinn, þessi kvikindi eru hreint um allt, það má farga þeim.
Mér finnst það undarlegt að fimmtugir og eldri einstaklingar með íþróttasögu megi ekki fara í mjólkursýrumælingu, það viðhorf er gamaldags.
kv Jón Kr