þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Það hefur lítið verið skrifað og lítið hlaupið síðustu daga. Á miðvikudaginn ókum við norður að Laugum í Þingeyjarsýslu og tjölduðum þar um kvöldið. Framundan var unglingalandsmót UMFÍ. Í fyrra ákváðum við með stuttum fyrirvara að fara að Vík í Mýrdal og áttum þar góða helgi. Á leiðinni til baka heyrðist úr aftursætinu: "Förum við ekki að Laugum á næsta ári" og nú vorum við þar. Á fimmtudaginn var hið blíðasta veður og við renndum því út að Húsavík og svo austur Tjörnes. Ég hafði ekki ekið Tjörnesið nema í myrkri eftir að nýji vegurinn var lagður og var gaman að sjá þann gríðarlega mun sem hann hefur til bóta á samgöngur austur á við. Ég vann mikið í því ásamt öðrum sveitarstjórnarmönnum í N - Þing á sínum tíma að fá veginn fyrir Tjörnesið inn á vegaáætlun og gekk það eftir. Við stoppuðum í Ásbyrgi og gengum inn að tjörninni. Þar var vel yfir 20 stiga hiti og skartaði byrgið sínu fegursta. Svo ókum við sem leið lá fyrir Melrakkasléttu og yfir að Raufarhöfn. Það er komið bundið sllitlag út fyrir Silfurstjörnu og fann maður vel þennan gríðarlega mun sem verður þegar malarvegurinn tekur við. Þegar ég flutti norður fyrir 12 árum var varla hægt að segja að það væri neitt bundið slitlag fyrir austan Húsavík á þessari leið. Þetta potast aðeins. Það var gaman að koma til Raufarhafnar og heilsa upp á nokkra kunningja. Fólki hefur fækkan verulega frá því við bjuggum þarna eins og víðar í þessm litlu þorpum.

Landsmótið fór vel fram og var gríðarlegur fjöldi gesta á því. Fjöldi keppenda hefur vaxið verulega frá fyrra ári og er ljóst að þetta er að verða eitt af stærstu unglingamótum ársins sem stílað er upp á að mæta á. Öll umgjörð mótsins er mjög formleg og vel unnin og hafa krakkarnir gott af því að kynnast að keppa á alvöru mótum. Móthaldarar töldu vera um níu þúsund manns á staðnum og efa ég ekki að þeir hafi vitað nokkuð hvað þeir sungu í þeim efnum. Mótsgestir voru sjálfum sér til svo mikils sóma að það var varla að fjölmiðlamenn myndu eftir að segja frá samkomunni enda þótt hún væri ein af fjölmennustu samkomum helgarinnar. Það var varla að maður sæi fólk reykja sígarettu. Lögreglu sá ég aldri og maður sá aldrei vín á nokkrum manni, hvað þá annað. Aðstaða á svæðinu var öll hin besta hjá Þingeyingum enda hafa þeir lagt nótt við dag frá maíbyrjun að gera allt klárt. Veðrið var mjög gott á föstudegi, þokkalegt á laugardegi og svo rigndi smávegis eftir hádegi á sunnudegi. Í gær var aftur komin blíða og skruppum við þá upp að Mývatni og tókum hús á jarðböðum Mývetninga áður en haldið var á stað suður. Að ári verður haldið austur að Höfn í Hornafirði.

Engin ummæli: