þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Hitti í gær fólk sem var að vinna við Reykvíkurmaraþonið. Þá er gjarna farið yfir hlaupið og það sem sem vel gekk og það sem betur mátti fara. Það skemmtilega var hinn gríðarlegi fjöldi sem tók þátt í hlaupinu sem sýnir að með mikilli umfjöllun og góðum undirbúningi er hægt að gera Reykjavíkurmaraþonið að mjög stórri fjölskylduhátíð. Nokkiur atriði stóðu þó upp úr sem betur þurfa að fara. Markmiðið á náttúrulega að vera að framkvæmdin gangi smurt fyrir sig og allt sé í lagi. Maður sér framkvæmd hlaupa með 35 þúsund manns ganga fyrir sig eins og vel smurða vél og því þá ekki hér.

Þessi atriði stóðu meðal annars upp úr þar sem betur mátti fara að þeirra mati:

1. Bolir kláruðust. Það er ekki nógu gott því það borga allir sömu upphæð og því eiga allir að fá sömu þjónustu. Hægt er að komast hjá þessu með því að hafa bolina ótímasetta og hafa þannig nóg af þeim. Bolurinn sem maður fékk í í pokanum í London maraþoninu var ótímasettur en hins vegar voru bolirnir sem maður keypti með ártali.
2. Það er erfitt að hafa skráningu í hlaup fram á síðustu stundu. Það eykur hættu á ruglingi og getur sett af stað eitthvað kaosástand. Spurning hvort eigi ekki að loka fyrir skráningu kvöldið áður og kynna það vel. Menn geta skoðað veðurfréttirnar þá þannig að það eigi ekkert að koma á óart í þeim efnum. Með reglum byggist upp agi og formfesta sem allir vita af.
3. Latabæjarhlaupið var góð hugmynd en það var ekki pláss fyrir hinn mikla mannfjölda sem tók þátt í því ásamt öðrum hlaupurum í Lækjargötunni. Þegar hinir fyrstu voru búnir að hlaupa sína 1,5 km voru hinir síðustu ekki komnir af stað vegna þrengsla. Þarna þarf að skipuleggja hlutina betur. Einnig var misbrestur á að það fengju allir sömu vörur í pokunum sem börnin fengu í Latabæjarhlaupinu því Glitnir var að rugla í þeim hlutum fram á síðustu stundu. Lykilatriði er að það fái allir alltaf það sama því annars skapast óánægja og pirringur.
4. Aðkoma Glitnis var mjög góð og gerði það að verkum að hlaupið fékk miklu meiri athygli og þátttöku en ella. Aðkoma slíkra stuðningsaðila var hlaupinu tvímælalaust til góða. Á hinn bóginn mega menn vara sig á því að selja stuðningsaðilum sálu sína í slíkum samningum. Það er náttúrulega óþolandi að hafa markaðsstjóra Glitnis eins og óða manneskju á marklínunni í maraþoninu og gera starfsfólki erfitt fyrir um að vinna vinnuna sína vegna þess að öll athygli hjá markaðsstjóranum snerist um starfsfólk Glitnis og að beina athygli fjölmiðla að því þegar forstjóri Glitnis kom í mark. Vinna við hlaupið og framganga þess verður að hafa forgangi þannig að ekki sé hætta á ruglingi á ráslínu. Skaðinn af slíkri uppákomu getur verið mjög slæmur.


Gott viðtal við Ásgeir í Fréttablaðinu í morgun. Sérstaklega gaman að lesa hvað það var sem gaf honum spark í rassinn svo hann fór að aka sjálfum sér tak. Þetta minnti mig á frásögn Ólafs Arnar þingmanns sem var þegar hann gafst upp í göngu á Hvannadalshnjúk innan við fertugt sökum innanfitu og hreyfingarleysis. Á næstu árum átti hann hins vegar bæði eftir að ganga yfir Grænlandsjökul og á Suðurskautið því í kjölfar uppgjafarinnar í hlíðum Hvannadalshnjúks skipti hann um gír.

Sá einnig í Fréttablaðinu í morgun að það hafi verið allt vitlaust á sýningu Chiperdales strákanna á Broadway í gærkvöldi. Uppselt var á sýninguna og gríðarleg stemming. Ég sakna þess að talskona Feminstafélagsins hafi ekki tjáð sig um sýninguna og þá staðalímyndarstefnu sem svona sýningar hljóta að hafa í för með sér. Maður getur rétt ímyndað sér hvaða augum konurnar sem skemmtu sér svo vel á Broadway í gærkvöldi líta kallinn sinn þegar heim er komið. Kannski er talskonan bara ekki vöknuð enn eftir vel heppnaða skemmtun í gærkvöldi, eða hvað veit ég!!

2 ummæli:

kókó sagði...

Æi Gunnlaugur ekki þú líka...
Talskona femínistafélagsins OG karlarnir í karlahópi femínistafélagsins komu í ýmsa fjölmiðla þó, mest ljósvakamiðla, og þó þú hafir ekki heyrt það er það ekki það sama og það hafi ekki verið.
Plísssss, vanda sig.

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Því miður gat ég ekki horft á ljósvakamiðlana yfir helgina svo viðtölin hafa farið fram hjá mér en mér kemr ekki á óvart að forsjárhyggjuliðið hafi ekki getað unnt einhverjum hópi kvenna að skemmta sér kvöldstund á Broadway án þess að þyrfa að láta ljós sitt skína. Hvað skyldi þeim koma þetta við? Ég bara spyr.