miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Nú er að hefjast árleg umræða um launamuninn í landinu eftir að skattskráin hefur verið lögð fram. Þá byrjar þessi venjubundna yfirdrifna popúlistaumræða. Menn (sem vlja láta taka sig alvarlega) láta hafa eftir sér að Íslands sé að verða eitt stéttskiptasta land í Evrópu og stéttskiptingin sé með því mesta sem gerist í álfunni. Þetta er náttúrulega þvílíkt bull að það tekur ekki nokkru tali. Ég er ekki að halda því fram að hér á landi sé eitthvað Eldoradó þar sem endanleg hamingja hefur náðst fyrir alla þegna landsins, slíkt gerist vitaskuld aldrei. Á hinn bóginn eru allar forsendur fyrir íbúa landsins að hafa það gott hérlendis og þarf ekki að fara langt út í Evrópu til að finna lakari lífsskilyrði. Hvað ætli íbúar Austur Evrópuríkjanna segðu við þessum málflutningi að stéttamunur sé minni þar heldur en á Íslandi? Hvers vegna er mannsal svo stórt vandamál í þessum ríkjum sme raun ber vitni? Hvers vegna flæðir fólk úr þessum löndum vestur á bóginn og sættir sig við að vinna og búa þvílíkar skítaaðstæður að maður getur varla ímyndað sér þær? Það gerist einfaldlega vegna þess að það er enginn möguleiki heima fyrir. Ég horfði á mynd frá Kamtsjatka í gærkvöldi. Hvað ætli hirðingjarnir á skaganum eigi sameiginlegt með Abramovich Chelsea eiganda annað en að tala rússnesku? Alla vega ekki fjármálin?. Ég held að mönnum væri hollt að líta nokkra áratugi afturábak hérlendis og átta sig á hvernig staða þessara mála var hérlendis. Að Ísland hafi áður einkennst af jöfnuðu og stéttleysi er beinlínis rangt. Það var gríðarleg stéttskiptin hérlendis. Í kreppunni á þriðja áratug síðustu aldar fólst stéttamunurinn t.d. í því hvort menn hefðu fasta vinnu eða ekki. Embættismenn voru t.d. yfirstétt á þessum tímum. Verkamenn og fátækir bændur voru lágstétt. Síðar fólst stéttamunurinn í því hvort menn hefðu pólitísk sambönd eða ekki. Spillingin tröllreið t.d. samfélaginu á verðbólguárunum. Nú hafa allir vinnu sem vilja og geta unnið og samfélagið og stjórnkerfið er orðið opnara. Það er einnig athyglisvert að sjá að allir þeir sem athyglin beinist að vegna hárra launa er venjulegt fólk komið úr venjulegum fjölskyldum sem hefur ekki haft neitt forskot á aðra vegna ætternis eða annarra aðstæðna. Þetta er sem sagt ekki gullskeiðalið heldur hefur þetta fólk menntað sig vel, komið auga á tækifæri og nýtt sér þau. Hér erfist ekki þjóðfélagsstaða og meðfylgjandi aðgangur að auði en það gerist víða í evrópskum löndum. Það er stéttskipting. Það virðist oft vera svo að ýmsir stjórnmálamenn kunna sér ekki hóf í lýsingarorðunum þegar þeir þykjast hafa komið auga á eitthvað sem getur beint athyglinni að þeim og málflutningi þeirra. Í því sambandi má minna á söguna Úlfur Úlfur, það hætta nefnilega flestir að hlusta um síðir á slíkan málflutning. Í gömlu kommúnistaríkjunum átti ekki að ríkja nein stéttskipting, þar voru flestir jafnaumir. Að vísu voru sumir jafnari en aðrir en að er önnur saga.

Frábær mynd frá Kamtsjatkaskaganum í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Hún rifjaði upp gamlar minningar frá þeim tíma sem ég bjó í Petropavlovsk í tæpt ár fyrir um 10 árum síðan. Svakalega væri gaman að ferðast um þetta land. Það er svo ógreiðfært að það er ekki gert á venjulegan hátt heldur eru helekopterar besta aðferðin. Ég man eftir að hafa heyrt talað um hveradalina sem sýnt var frá en þeir lágu það langt frá Petro að við komumst ekki þangað. Ég hef aldrei séð aðra eins litadýrð í steinum eins og í geologiska institutinu þar í landi. Hún var hreint ólýsanleg. Árið 1991 kom ég fyrst til skagans. Við íslendingarnir vorum þá með fyrstu útlendingunum sem fengu leyfi til að koma þangað. Á pössunum voru skráð einhevr rússnesk nöfn til öryggis. Við komum t.d. á geysistórt samyrkjubú þar sem ráðamenn þess sögðu okkur að við værum fyrstu erlendu landbúnaðarvísindamenn sem hefðpu komið þangað síðan fyrir byltingu!! Skaginn var svo lokaður undir Sovéttímanum vegna hernaðarmikilvægs. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sem var vel þekktur elfjallajarðfræðingur víða um heim neitaði ætíð að þiggja boð Sovétríkjanna um að koma þangað á jarðfræðiráðstefnur nema að hann fengji að koma til Kamtsjatka. Sovétmenn neituðu ætíð og Sigurður fór aldrei til Sovétríkjanna eða Kamtsjatka. Dapurlegt var innslagið um örlög prestssonarins frá Klitskov sem var undir eftirliti stjórnalda allt sitt líf og átti aldrei möguleika fyrir það eitt að vera prestssonur. Dæmigert fyrir glæpamennina sem stjórnuðu Sovétríkjunum.

Gaman að lesa fréttir í morgun um mikla aðsókna að Reykjavíkurmaraþoninu. Mér finnst aðkoma Glitnis vera flott. Það hafa einhverjir verið að hnýta í þetta en það er bara staðreynd að til að ná athygli þurfa menn peninga. Umræða um hlaup hefur einnig verið mjög mikil undanfarna mánuði. Það lítur út fyrir að þáttaka í heilu maraþoni verði meiri en nokkru sinni. Glæsilegt. Það hafa ýmsir verið að tala um það gegnum árin að það væri hægt að gera miklu meira úr RM en gert var til skamms tíma. Nú virðist það vera að koma á daginn að þetta var rétt mat. Einnig er gott að hafa sérstakt hlaup fyrir litlu krakkana. Þetta er t.d. gert í Boston maraþoninu. Það er hluti af því að ala upp hlaupara. Því miður get ég ekki verið með í RM í ár og sér þess stað í æfingum. Þegar ekkert sérstakt er bak við hólinn vantar eitthvað sem dregur.

Engin ummæli: