sunnudagur, ágúst 12, 2007

Það er dálítið athyglisverð staða í tveimur þéttbýlisstöðum í Eyjafirði þessa dagana. Á sama tíma og nokkrir Akureyringar reikna út þessa dagana hve þeir töpuðu miklum peningum vegna þess að færri unglingar komu á drykkjuhátíðina Ein með öllu en fyrri ár þá hafa Dalvíkingar aldrei tekið á móti álíka fjölda á Fiskideginum mikla þegar þeir opna hús sín fyrir aðkomufólki og bjóða gestum og gangandi upp á ókeypis fiskafurðir og fiskisúpu. Það hlýtur að vera magnað að fá 30 þúsund gesti (+/-) á sama tíma inn í ekki stærra þorp en Dalvík er. Það er í sjálfu sér ótrúlegt að þeir ráði við að taka á móti öllum þessum fjölda, hvað þá að gefa öllum frítt að borða. Góð hugmynd hjá ritaranum um að Akureyringar slái í hamborgaradaginn mikla til að koma út borgurunum sem þeir sitja uppi með frá verslunarmannahelginni. Það er bara að vona að veðrið haldist bærilegt.

Fór á smá ráðstefnu hjá Herbalife i dag á Grand hotel. Hef trú á að Herbalife vörurnar séu góðar um margt. Þarna flutti meðal annars sænskur þríþrautarmaður erindi um veg sinn til árangurs í Ironman með stuðningi Herbalife. Það hefði verið gaman að heyra Ásgeirana, Höskuld og Bibbu flytja erindi um hið sama, veg sinn til Ironman. Við eigum líka frábært fólk á þessum vettvangi sem hefur hvert þeirra farið sína leið að þessu sama marki. Á hinn bóginn má einnig segja að lengi má gott bæta. Mér fannst eitt svolítið sérstakt. Það virðist vera vani á svona fundum að fundarmenn standi upp og hylli ræðumann eftir að hann hefur lokið máli sínu. Þetta er týpisk bandarísk aðferðafræði. Mér finnst allt í lagi að standa upp og hylla ræðumenn við sérstök tækifæri en ef þetta er gert við hvern og einn þá hættir það að hafa tilætluð áhrif. Ég er ekki í vafa um að regla og skipulag á mataræði hefur mikil áhrif á ástandið á skrokknum og hve hægt er að ná miklu út úr honum. Hvort Herbalife sé besta aðferðin skal ég ekki segja til um en efa ekki að hún sé ágæt. Mörgum hentar þetta vafalaust mjög vel. Sumir þurfa að búa við ákveðið skipulag til að koma hlutunum í lag og þá er þetta án efa ágætt. Skoða þetta betur.

Helgin var góð. Fjörutíu km lágu í gær en styttra var farið í góðviðrinu í morgun.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aðalástæðan fyrir því að ég hef ekki verið að taka inn Herballife vítamínblöndurnar er að ég hef ekki fundið innihaldslýsingar fyrir þessar vörur og mér er eitthvað illa við að taka inn eitthvað sem ég veit ekki nákvæmlega hvað er í.
Ég hef líka trú á að venjuleg vítamín og holl fæða geri sama gagn að sumu leyti og Herbalife vörurnar. Helsti munurinn er ábyggilega eins og þú segir skipulagið. Það er líklega einfaldara að vera með hylki / pakka / duft og leiðbeiningar en hrúgu af vítamínboxum og höfuðverkinn um hvort maður eigi núna að sjóða fisk eða steikja kjúlla :)
En ef mitt líkamlega ástand væri hinsvegar eins og sumt af þessu fólki hefur haft reynslu af þá væri mér alveg sama hvað ég væri að taka inn svo framarlega sem það gerði gagn og Herballife hefur sannarlega hjálpað mörgum að ná tökum á lífi sínu og vaxtarlagi.
Ég hafði mjög gaman af þessari ráðstefnu í dag.
Bibba