föstudagur, ágúst 10, 2007

Ég var ekki alveg viss um hvort ég væri að gera rétta hluti þegar ég fór í ATC á Grænlandi með tilliti til Spartathlon hlaupsins í endaðan september. Spurning var hvort svona mikil áreynsla myndi sitja í skrokknum. Ég reyndi að haga mér skynsamlega, borðaði alltaf vel og gekk ekki nær mér umfram það sem nauðsynlegt var. Eftir að heim var komið hvíldi ég vel og fór ekki að hreyfa mig fyrr af neinu viti en bjúgurinn var farinn úr fótunum. Hann var dálítið mikill. Ég var tæp 90 kíló við heimkomuna en nú er ég um 81 kíló. Hef ekki verið léttari um árabil. Mér finnst síðan þegar ég er farinn að hlaupa af einhverju viti aftur að ég sé sterkari í brekkunum en fyrir ATC. Líklega kemur ferðin út þegar upp er staðið sem hörku æfingabúðir sem skila sér í auknum styrk og bættu þoli. Nú verða næstu 40 dagar álagsdagar. Hlaupið verður eftir stífri áætlun. Ég ætla að reyna að hlaupa maraþonvegalengd einum fimm sinnum á þessum tíma og taka brekkuálagsæfingar eftir þörfum. Nú verður að leggja allt undir. Kim Rasmussen hefur verið að gefa mér góð ráð samkvæmt reynslu sinni frá því fyrir tveimur árum. Hann segir þetta hlaup vera sína stærstu upplifun á ferlinum til þessa og hefur hann þó reynt sitt af hvoru.

Daníel Smári er með útsölu í verslun sinni Afreksvörur í Síðumúlanum. Mæli með að áhugasamir kíki við.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gulli, gott að sjá að þú sérð ekki eftir þáttöku í Grænlandsævintýrinu, (sem ég "gabbaði" þig í). Ég er sjálfur léttari en mörg síðustu ár; 76-77 kg. Var um 80 kg fyrir og fyrst eftir Grænland - þó ekki hafi ég séð neinn bjúg. Líklega er brennslan há margar vikur eftir svona puð! bmk, Trausti

Nafnlaus sagði...

Ertu með einhver plön til að venja þig við hitann? Verður þú með einhvern með þér þarna úti?

Nafnlaus sagði...

Ég hef ósköp lítil plön um að venja mig við hitann. Maður getur reynt að hlaupa dúðaður hér heima á heitum dögum. Maður verður að vona hið besta um að hann verði ekki svakalegur. Geri ráð fyrir að koma þremur dögum áður en hlaupið byrjar. Verð fylgdarmannslaus. Það kallar á öðruvísi plön.

Nafnlaus sagði...

Hvað heitir verslunin hans Daniels?

Nafnlaus sagði...

Hún heitir Afreksvörur og er innarlega í Ármúlanum. Endilega að kíkja við.

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Hún heitir Afreksvörur og er innarlega í SÍÐUMÚLANUM, nær því innundir Fellsmúla