miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Það var skemmtileg bíómynd í sjónvarpinu á föstudaginn. Hún hét Langhlauparinn og fjallaði um fyrstu Suður Afrísku konuna sem vann Comerades hlaupið. Comerades er eitt af þekktari Ultrahlaupum í heiminum og vafalaust það stærsta. Það er um 90 km og er hlaupið annað árið "up hills" og hitt árið "down hills". Um 15.000 manns þreyta hlaupið ár hvert. Ástæðan fyrir þessum mikla fjölda er m.a. sú að á þeim tíma þegar Suður Afríka var stjórnmálalega einangruð þá fengu íþróttamenn þaðan ekki að keppa á alþjóðlegum mótum. Því sinntu fjölmiðlar innlendum mótum þeim mun betur og sköpuðu stemmingu fyrir þeim. Það byggði upp þessa gríðarlegu stemmingu fyrir Comerades ásamt fleiru. Keppendur fá hámarkstíma til að ljúka hlaupinu eins og allstaðar í ultrahlaupum. Hvort að það sé satt eða ekki þá hef ég heyrt það að þegar tíminn rennur út þá sé ekki flautað eins og t.d. í Western States heldur er járnhliði rennt yfir brautina. Það er vafalaust gert vegna hins mikla fjölda. Sá keppandi sem fær járnhliðið á nefið þ.e.a.s. er sá fyrsti sem er undir tilskyldum tíma fær mikla athygli, sjónvarpsviðtöl og er á nokkurn hátt hetja dagsins eins og sigurvegarinn.

Þegar landamæri Suður Afríku opnuðust fyrir íþróttafólk þá uppgötvuðu menn annarsstaðar í heiminum þetta gríðarlega ultrahlaup. Ég varð var við það á helginni að þessi mynd hafði komið á stað fiðringi hjá ýmsum. Hver veit hvað gerist. Þrír Íslendingar hafa hlaupið Comerades. Eiður Sigmar (tvisvar), Erla Bolladóttir og Ágúst Kvaran. Slóðin er www.comerades.com og þar er hægt að slá upp tímum íslendinganna (nota fornöfnin).

Fór á Esjuna í gær eftir vinnu. Það var bálhvasst á móti upp og maður fauk til baka niður hlíðina. Hljóp við fót eins langt upp og ég gat. Náði nær því upp að fyrstu litlu brúnni. Þetta kemur. Ég ætlaði tvisvar en hundskaðist heim eftir fyrstu ferðina því mér var orðið hálf kalt enda ekki nógu vel búinn fyrir svona tæting.

Það var skrítið fréttamatið hjá Kastljósi sjónvarpsins nýlega. Einhver stelpa sem hafði verið dæmd fyrir ólöglegt athæfi við vinnubúðir Alcoa á Reyðarfirði vildi heldur sitja inni í fjóra daga en borga 50 þúsund kall í sekt. Sýndur var mikill langhundur um hennar hlið málsins í Kastljósi eins og hún væri einhver píslarvottur og hinar ólöglegu gerðir hennar rétlættar eins og hægt var. Í myndskeiðum sem tekin voru var m.a. reynt að lítillækka lögregluna og gera hana tortryggilega. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem sjónvarpið er á þeim nótum. Mega allri þeir sem dæmdir verða fyrir ólöglegt athæfi í þjóðfélaginu búast við að sjónvarpið veiti þeim slíkan stuðning eða hvað er þetta eiginlega. Er sjónvarpið komið í krossferð í þessum málum?

Engin ummæli: