fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Það eru ýmsir sem þurfa að ná af sér nokkrum kílóum en gengur það misjafnlega. Ég las á dögunum á blogginu kvörtun frá manni sem hafði verið hjá einkaþjálfara og ekki uppskorið sem skyldi í grenningu. Skömmu síðar kom svar frá einkaþjálfaranum þar sem hann svaraði og lagði upp ákveðið prógram, bæði matseðil og æfingar. Þá hætti mér að lítast á. Matseðillinn var svona:

Morgunmatur: 2 sk bláberjaskyr, 1 banani, klaki og ein msk. vanilluprótein.
Morgunkaffi: 1 banani eða annar ávöxtur
Hádegismatur: Hálfur heilsuréttur hjá Nings og smá hrísgrjón með
Kaffi: 1 Smoothy og eitt Hreysti súkkulaði
Kvöldmatur: Grillaður fiskur eða ein og hálf kjúklingabringa. Hrísgrjón með og ein bökuð kartafla
Kvöldkaffi: Ein og hálf matskeið próteinshake.
Síðan skal drekka 3 lítra af vatni á dag.

Þessi matseðill á að gilda sex daga vikunnar og er bannað að borða nokkuð annað.

Ég verð að segja að þetta finnst mér nálgast það að vera algert bull. Að leggja upp með svona naumhyggjumataræði ofan á harðar brennsluæfingar er vísasta leiðin til að fólk springi og gefist upp á öllu saman. Mér finnst að það þurfi að lista upp hvað fólk á ekki að borða. Síðan má fólk borða sig satt af kjöti, fiski, skyri, grænmeti og ávöxtum svo dæmi sé nefnt. Hafa fæðið nógu fjölbreytt og forðast hungrið. Síðan þarf að byrgja sig upp með þolimæði og hreifa sig rólega og auka hana síðan stig af stigi. Hjóla, gang, synda og fara í æfingasal. Það að grenna sig stórlega er ekki átaksverkefni sem byggist upp á því að svelta sig og púla um skamman tíma heldur er það spurning um að breyta um lífsstíl. Það verður ekki gert á einum degi eða viku heldur gerast góðir hlutir hægt í þeim efnum. Með svona uppleggi eins og sett er upp hér að ofan er vafalaust að ná árangri ef planið heldur en ég tel miklu meiri líkur en minni að planið haldi ekki og einstaklingurinn springi á limminu.

Fékk í gær tölvupóst frá Kim Rasmussen þar sem hann sendir mér linka á sjónvarpsupptökur frá Badwater. TV2 í Danmörku fór með honum til Californíu og fylgdi honum eftir í Badwater hlaupinu. Ég verð að segja það að ekki hefur löngunin vaxið að taka þátt í þessu hlaupi eftir að hafa horft á þetta. Klukkutímum saman var Kim á nippunni við að þurfa að hætta vegna þess að maginn var alveg úthverfur. Hann ældi öllu sem hann setti í sig, hvort sem það var matur eða vatn. Hitinn er svakalegur þarna og einhvern veginn læðist sá grunur að mér að hann hafi farið heldur hratt af stað.

Kim skipulagði 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi í vor og hljóp Western States fyrir tveimur árum eins og ég. Lars Skytte,sem fylgdi Kim í hlaupinu ásamt konu Kims, vann 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi í vor. Kim ætlar að leggja út með 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi næsta vor. Skráning hefst þann 1. sept. n.k. Hmmm.

Linkarnir eru hér fyrir áhugasama:

http://www.tv2bornholm.dk/moduler/nyheder/showregvideo.asp?dato=14-08-2007&cID=1&vId=378606

http://www.tv2bornholm.dk/moduler/nyheder/showregvideo.asp?dato=15-08-2007&cID=1&vId=378780

Engin ummæli: