fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ég keypti dálítið af diskum með Johnny Cash úti í London. Það er mjög gaman að koma í búðir þar sem ALLT er til. Þá verða freistingarnar oft skynseminni yfirsterkari. Ég er að láta DVD disk rúlla í gegn frá konsertinum í San Quentin fangelsinu árið 1969. Ég á plötuna frá þessum fræga konsert en hef ekki átt DVD diskinn fyrr. Fékk konsertinn komplett á tveimur CD diskum með DVD aukadisk á ca 10 pund sterling. Myndin "Syndir feðranna" kemur upp í hugann þegar Johnny Cash syngur lagið San Quentin lagið. "San Quentin you've been a living hell to me" og "San Quentin, I hate every inch of you". Þetta er lagt í munn fanganna í fangelsinu en er eins og mælt úr munni þeirra sem rifjuðu upp tímann í Breiðuvík hér á árum áður. Sá er hins vegar munurinn að í San Quentin fangelsinu sátu fullorðnir menn en í Breiðuvík voru vistaðir unglingar og allt niður í smábörn. Það eina sem þarf að gera er að skipta út San Quentin og setja Breiðavík í staðinn þá smellur allt saman við íslenskan veruleika eins og hann var.

Fréttamatið er oft furðulegt og á í raun oft ekki neitt skylt við fréttir en flokkast miklu frekar undir uppfylliefni. Skilgreining á hvað er frétt og hvað er ekki frétt virðist stundum mjög óljós. Fréttatímar virðast oft fylltir upp af einhverju sem hefur ekki neitt einasta fréttagildi. Manni dettur stundum í hug að fréttastefna DV sáluga (Finniði einhverjar fokking fréttir) sé víðar við gildi en á þeim bænum.

Hvaða fréttagildi er í því að einhver alþingismaður segir að trúverðugleiki Ingimundar Sigurpálssonar stjórnarformanns SA hafi rýrnað við dóminn sem féll á Eimskip sáluga? Ekki kýs alþingismaðurinn í stjórn SA? Honum kemur þetta í raun ekki meir við en mér og mitt álit á þessu skiptir ekki nokkru máli í þessu sambandi. Ef eigendur stærstu fyrirtækjanna sem standa að SA hefðu tjáð sig í þessa átt þá var það frétt en það er alger ekki frétt þótt einhver alþingismaður sé eitthvað að blása um það sem honum kemur ekki við.

Það var skilgreind frétt í útvarpinu fyrir skömmu að einhver sjálfskipaður álitsgjafi sagði það skoðun sína að forsetinn ætti ekki að sitja fjögur kjörtímabil. Hvaða frétt er þetta? Væri það frétt er ég hringdi niður í útvarp og segði það skoðun mína að forsetinn ætti að sita a.m.k. fjögur kjörtímabil. Ég held ekki. Það er hins vegar frétt ef forsætisráðherra teldi það skoðun sína að þrjú kjörtímabil væru nóg og hann teldi þingmeirihluta fyrir lagasetningu í þá veru. Það væri líka frétt ef undirskriftasöfnun væri hafin fyrir einhverju í þessa átt.

Í kvöld var í sjónvarpinu enn ein fréttin um hvert er kynjahlutfallið er í fyrirtækjum á verðbréfaþingi. Nú voru Glitnir og Kaupþing tekin sérstaklega fyrir. Það er greinilegt að það á að staglast á þessu þar til veiklunda stjórnmálamenn láta undan og setja lög um kynjahlutfall í fyrirtækjum á verðbréfaþingi, nokkuð sem öðrum en hluthöfum kemur ekki hið minnsta við. Hvað ætli sé stórt hlutfall karlmanna sem situr ekki í neinu einustu stjórn fyrirtækis eða opinberrar stofnunar? Ætli það séu ekki rúm 95%. Af hverju er aldrei talað um þessa hraklega stöðu mikils meirihluta karlmanna hvað varðar stjórnarsetu í samfélaginu. Ekki sit ég í neinni einustu stjórn fyrirtækis en tel mig hins vera ágætlega hæfan til þess á ýmsan hátt!! Greinilega eru þeir sem hagsmuna hafa að gæta og skipa eða kjósa í stjórnir fyrirtækja í landinu á annari skoðun. Á ég að fara að berjast fyrir því að það verði sett lög um að ég og aðrir karlar sem ekki eru í neinni stjórn verði kosnir í stjórn einhversstaðar. Ég geri ráð fyrir því að ég væri álitinn endanlega vitlaus ef ég færi að hreyfa þessu í fullri alvöru. Kannski yrði ég að endingu settur í einhverja skítastjórn einhversstaðar af tómri aumingjagæsku svo ég myndi hætta að grenja.

Ef ég á hinn bóginn hefði mikinn áhuga á að komast í stjórn einhversstaðar þá ætti ég að byrja á að setja mig inn í rekstur viðkomandi fyrirtækis, leita að veikleikum í ákvörðunum núverandi stjórnarmanna, flytja mál mitt í ræðu og riti og leggja til ný og betri vinnubrögð sem stefndu til úrbóta og sannfæra þannig hlutaðeigandi hagsmunaaðila um að ég væri betur fallinn en aðrir til að breyta um stefnu og framfylgja nýrri stefnu. Af hverju geta þær konur sem hafa brennandi löngun til að komast í stjórnir stórra fyrirtækja ekki unnið svona? Ég hlýt að draga þá ályktun að þær konur sem eru að berjast fyrir ákveðnum kynjahlutföllum í stjórnum fyrirtækja á verðbráfaþingi telji að konur hvorki nenni eða vilji berjast fyrir því á eigin spýtur að komast í þessar stjórnir og því verði að leggja spýtu yfir lækinn og setja lög. Það er svo óumræðilega einfalt, þægilegt og átakalaust. Engu að síður er Noregur eina landið í heiminum sem hefur lagt út á þessa vitlausu braut. Á það minnast fréttamenn aldrei og því er rétt að draga það fram hvar sem mögulegt er.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heill og sæll Gunnlaugur

Vil byrja á að þakka þér fyrir skemmtileg skrif sem og að óska þér gleðilegs nýs árs.

Hvað jafnréttisumræðuna varðar er ljóst að hún er oft á villigötum og einkennist af öfgakenndum skoðunum ákveðinna feminísta. Varast ber þó að falla í sömu gryfju og þær í málflutningi þó á hinn veginn sé.
Held að flestir íslendingar séu jafnréttissinnar en menn mega þó ekki gleyma að kynin eru ekki eins og verða það seint. Hið fullkomna jafnrétti mun því seint verða til.
Heilt yfir tel ég stöðu þessara mála vera til fyrirmyndar hér á landi þó að sjálfsögðu megi bæta eitt og eitt atriði.

Það sem mér finnst því miður oft gleymast er staða karlmanna á ákveðnum sviðum í samfélaginu. Má þar til dæmis nefna sameiginlegt forræði yfir börnum, brottfall ungra drengja úr skólum og fleira. Slík mál vilja því miður detta út úr umræðunni, þó þau séu talsvert mikilvægari en hvort eigendur fyrirtækja velji konur í stjórn eða ekki.

Kv,
Silli

Nafnlaus sagði...

Sæll frændi.
Tek fyllilega undir með þér hvað varðar stöðu karlmanna á ákveðnum sviðum varðar en á þetta er hins vegar aldrei (afar sjaldan) minnst af jafnréttispáfunum. Það pirrar mig verulega þegar það virðist vera það sem mestu máli skiptir í hinni svokölluðu jafnréttisbaráttu að reikna út kynjahlutfallið í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi. Ég hélt að jafnréttisiðnaðurinn hefði einhverju mikilvægara að sinna en að þjóna gríðarlegri löngun vel menntaðra kvenna úr efri millistétt til að komast inn í stjórnir stórfyrirtækja. Að mínu mati geta þær konur sem brenna af slíkri löngun einfaldlega barist fyrir því sjálfar sem einstaklingar og gangi þeim bara vel. Mér líst hins vegar ekki á þá þróun sem er að eiga sér stað þegar þjóðfélagsumræðan er farin að snúast upp í nokkursskonar stéttastríð milli kynjanna. Það er ekki farsæl leið til framfara.
G.