sunnudagur, janúar 20, 2008

Það hefur verið lítið hlaupið og enn minna skrifað í vikunni. Sumir dagar eru þannig að það er annað sem gengur fyrir. Stundum koma þeir margir í röð. Ég var að stússast í að koma jeppanum í gegnum skoðun í síðustu viku. Fullnaðarskoðun fékkst á hann fyrir 09 á fimmtudaginn þannig að nú getur maður um frjálst höfuð strokið með hann í nær tvö ár.

Tók gott hlaup með Neil, Jóa og Stebba á laugardaginn. Fór út um kl. 7.00 og fór fyrst Poweratehringinn og hitti þá við brúna um kl. 8.30. Fórum Eiðistorgshringinn og það passar að þá er maður kominn 30 km við göngubrúna hér fyrir neðan.

María var að keppa á ÍR mótinu á laugardag og sunnudag. Henni gekk vel og náði nokkrum verðlaunasætum. Þetta er allt á réttu róli eins og vera ber.

Sambandið hélt stjórnarfund á Egilsstöðum á föstudaginn. Á leiðinni austur fékk vélin á sig snarpan hnút þega rkomið var yfir Héraðið eins og komið hefur fram í fréttum. Ég hef nokkuð oft verið í flugvél sem hefur fengið á sig hnút en þessi var sá snarpasti sem ég hef fundið. Það var eins og sparkað hefði verið að miklu afli í vélina og maður hékk í beltinu. Það munaði litlu að Svandís borgarfulltrúi slasaðist alvarlega þegar hún hentist upp í loft sökum þess að sætið sem hún sat í var laklega fest niður. Hún vankaðist við höggið en náði sér fljótt. Engu að síður þótti tryggara að hún færi undir læknishendur enda eðlilegt að það sé skoðað til hlýtar hvort skaði hafi hlotist af þessu áfalli. Á vef flugfélagsins sá maður að flugstjórinn hafi farið yfir málin með farþegunum. Ég veit ekki hvað maður á að kalla það en hann sagði í kallkerfið að það kæmu oft svona hnútar á þessu svæði. Síðan sagði hann vonast eftir að ferðin hefði að öðru leyti verið ánægjuleg. Í blöðum sá maður haft eftir framkvæmdastjóra Flugfélagsins að öllum farþegum hefði verið boðin eða veitt áfallahjálp. Ég veit ekki um aðra farþega en ég heyrði alrei minnst á neina áfallahjálp né að öðrum hefði verið boðin hún.

Ég heyrði sagt frá því á fundi á mánudaginn þegar flugvélin þurfti að snúa frá Keflavík eftir að hafa reynt tvisvar að lenda þar og sneri til Egilsstaða. Það hefur verið mjög dramatísk ferð því þegar hún sneri frá Keflavík eftir seinni tilraunina þá fékk hún vindhnút á sig í uppkeyrslunni og virtist hrapa niður. Það voru vafalaust mjög erfið augnablik, fólk ældi og margir héldu að vélin væri að fara niður. Hún nötraði enda á milli í átökunum en allt hafðist þetta. Það sem kom mjög illa við marga þegar lent var fyrir austan að þá tók enginn við stjórninni. Fólk þurfti að sjá um sig sjálft sem margt var gjörsamlega þrotið að andlegum kröftum. Reyndar komu einhverjir og seldu farþegunum samlokur en annað var það ekki. Fréttin snerist hins vegar um að farþegum hefði verið veitt áfallahjálp sem voru í flugvél sem lenti á Egilsstöðum eftir að hafa þurft að snúa frá lendingu í Keflavík.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur, gott að ekki fór verr í flugferð ykkar til Egilsstaða. Ég hringdi í Magnús á föstudagskvöld og fékk lýsingar á flugferðinni frá honum. Hann tók undir með þér og minntist ekki á neina áfallahjálp.
En ég fór inná bloggið þitt til að heyra eitthvað af Framsóknarflokknum! Eru engin tíðindi þaðan? Mér hefur ítrekað verið hugsað til þín í dag, sérstaklega þegar Guðjón Ólafur nefndi nöfn Jónínu Bjartmarz, Árna Magnússonar og Önnu Kristinsdóttur. Eins skil ég ekki af hverju ekki hefur verið haft samband við fyrrfyrrverandi formann flokksins, Halldór Ásgrímsson, vegna þessa máls. Var Bingi ekki hans hægri hönd og helsti stuðningsmaður?
Sjáumst! Ingibjörg

Nafnlaus sagði...

Nú er ég ekki lengur félagi í Framsóknarflokknum þannig að ég veit ekki meir en þú. Desværre!!