mánudagur, janúar 28, 2008

Mér leist ekkert á veðrið í gærmorgun, rok og skítaveður, svo ég fór niður í Laugar á brettið. Kláraði 20 km sem er það lengsta sem ég hef tekið á bretti. Það hefði ekki verið neitt mál að halda áfram en ég va rorðinn tímabundinn upp úr kl. 11.00. Geri það síðar. Þetta venst ágætlega ef maður hefur eitthvað til að hlusta á og líður tiltölulega hratt. Manni finnast fyrstu kílómetrarnir vera langir því þá er svo mikið eftir en svo fer þetta að líða hraðar. Það er hins vegar mikill munur á að hlupa inni eða úti því úti er alltaf eitthvað sem ber fyrir augu og dreifir huganum.

Ágætt viðtal við Öggu á laugardaginn á Rás 1. Það er gaman að finna það að hlauparar eru að fá meiri athygli. Það er örugglega svo að þetta sáir fræjum hjá einhverjum sem fer að hugsa; "Ef hann/hún getur þetta þá hlýt ég einnig að geta það."

Annar fl. Víkinga keppti í handbolta við Selfyssinga fyrir austan í gærkvöldi. Við fórum Þrengslin því það var enn skítaveður á heiðinni. Strákarnir stóðu sig vel og rúlluðu yfir austanmenn í fyrri hálfleik. Heldur dró af þeim í seinni hálfleik en þeir innbyrtu engu að síður öruggan og sætan sigur og eru þar með komnir í undanúrslit í bikarkeppninni.

Enda þótt ég hafi ekki alltaf verið sammála Merði Árnasyni í pólitík þá er ég mjög ánægður með að hann hafi tekið kjördæmaskipanina til Alþingiskosninga í Reykjavík upp á þinginu. Hann hefr lagt fram frumvarp þess efnis að Reykjavík verði eitt kjördæmi. Að kljúfa borgina upp eftir Hringbraut og Miklubraut í kosningum til Alþingis er rökleysa að mínu mati. Borgin er eitt hagsmuna-og áhrifasvæði og á að hafa stöðu sem slíka í Alþingiskosningum. Eitt af því sem ég og fleiri beittum okkur sérstaklega fyrir innan Framsóknarflokksins á sínum tíma meðan maður starfaði þar var að sameina félagsstarfið innan borgarinnar. Framsókn tók það óheillaskref við kjördæmabreytinguna að kljúfa allt félagsstarf í borginni upp eftir kjördæmaskipan til Alþingis. Við komum nokkur saman lagabreytingartillögu þessa efnis gegnum landsþing flokksins fyrir þremur árum með örfárra atkvæða mun í auknum meirihluta gegn massívri andstöðu þ.m.t. frá forystu flokksins. Ég skildi aldrei hvaða hvatir lágu að baki þessari andstöðu frekar en ýmislegt annað. Nú er hins vegar búið að sameina flokkstarfið í Reykjavik og allir sammála um að það sé eina vitið. Vona að Mörður fái stuðning við þetta frumvarp sitt.

Engin ummæli: