laugardagur, janúar 26, 2008

Tók 20 km í morgun með Jóa og Stebba. ekki eins langt og ætlað var en samt ágætt. Heyrði gott viðtal við Öggu í útvarpinu í dag. Fín yfirferð og vonandi að það hafi skilið eftir fræ í hugum einhverra.

Spjallaði við gamlan félaga í gær. Hann er að verða fimmtugur í ár og er nýlega farinn að hreyfa sig reglubundið. Hann er búnn að setja sér það markmið að vera í betra formi á fimmtugsafmælinu (sem er í ár) heldur en hann var á fertugsafmælinu. Þetta er fínt markmið. Þegar því hefur verið náð þá kemur næsta markmið og svo koll af kolli. Meginmálið er að setja sér markmið. Vita hvert maður er að fara. Annars er þetta ferð án fyrirheits. Skrokkurinn er eitt af því dýrmætasta sem maður á og það er eðlilegt að hann fái smá sinningu. Ég las einhversstaðar að það væri eitt að mikilvægustu atriðunum í öldrun hvernig skrokknum væri sinnt á árunum milli fimmtugs og sextugs. Það er ekki órökrétt. Þegar maður er yngri er álagið á skrokkinn oft verulegt bæði vegna vinnu og annarra hluta. Þá er endurnýjunargeta hans mikil og hann stendur ýmislegt af sér. Þegar endurnýjunargetan minnkar þá lætur eitthvað undan ef álagið er óbreytt frá fyrri árum. Því skiptir máli að fara að hugsa meir um líkama og sál þegar árin telja. Reglubundin hreyfing er einn þáttur í þessu ferli.

Það hefur ýmislegt gengið á að undanförnu hjá borginni. Við sem vinnum hjá Sambandi sveitarfélaga erum passífir áhorfendur enda þótt það komi fram ýmsar skoðanir á kaffistofunni. Ég verð þó að segja að vitleysisgangurinn á áhorfendapöllunum á miðvikudaginn fór úr böndunum og gekk alltof langt. Í hugum margra sem ég hef heyrt í virkaði þetta í andhverfu sína. Það er merkilegt hve umræðan er komin út og suður. Fólk sem er virkt í stjónmálum er farið að tala um að það þurfi að beita 26. grein svetiarstjórnarlaga þar sem sveitarstjórn getur óskað eftir því að sveitarstjórn nágrannasveitarfélags taki yfir stjórnsýsluna í Reykjavík. Þessi möguleiki er einungis hugsaður í þeim tilvikum sem náttúruhamfarir hafa leikið einhvert sveitarfélag það grátt að sjórnsýslan er óstarfhæf. Menn verða aðeins að anda með nefinu og telja upp að tuttugu. Einhver talaði um að þarna væri lýðræðið í framkvæmd þegar ekki væri hægt að halda áfram formlegri dagskrá vegna hávaða og öskra. Það er ekki lýðræði ef óskipulagður múgur gerir stjórnkerfið óstarfhæfrt heldur anarkismi. Lýðræði er að starfa eftir þeim reglum sem lýðræðisþjóðfélag byggir á. Það er ekki lýðræði ef einhver örlítill hávær hópur gerir stjórnsýsluna óstarfhæfa.

Ólætin áttu uppruna sinn í því að starfandi meirihluti sprakk og annar meirihluti var myndaður. Ég ætla ekki að blanda mér í umræðu um hvernig það bar að en svona gerast kaupin á eyrinni. Hvaða einstaklingur sem hefur hlotið kosningu til Alþingis eða sveitarstjórna getur tekið sjálfstæða ákvörðun sem þessa. Það er hinsvegar óvanalegt enda betra að þetta sé undantekning frekar en regla þegar skilvirkni stjórnsýslunnar er tekin inn í myndina.

Ég þekki persónulega hvernig er að lenda í þessari stöðu. Ég starfaði sem svetiarstjóri á Raufarhöfn á árunum 1994 - 1999. Framan af sem ráðinn sveitarstjóri en við kosningarnar 1998 tók ég í 3ja sæti G listans sem var hreinn Alþýðubandalagslisti. Þriðja sætið var baráttusætið í kosningunum. Tveir listar voru í framboði svo það var kosið um hreinar línur. Við unnum með eins atkvæðis meirihluta og var það einsdæmi á landinu fyrr og síðar utan Neskaupstaðar að hreinn Alþýðubandalagslisti næði meirihluta í kosningum til sveitarstjórnar. Ég starfaði sem sveitarstjóri áfram en var einnig orðinn virkur sveitarstjórnarmaður. Þegar um ár var liðið af kjörtímabilinu tilkynntu félagar mínir tveir í meirihlutanum að nú væri samstarfinu slitið og þeir höfðu myndað nýjan meirihluta með einum af hinum listanum. Þannig var það. Ég var þarna án fyrirvara orðinn atvinnulaus og einnig hafði þetta í för með sér brottflutning af staðnum. Mér datt hinsvegar ekki í hug að ausa fyrrum félaga mína fáryrðum með ásökunum um óheilindi eða undirferli. Þetta var bara svona, leiðir höfðu skilið og við því var ekkert að gera. Samstarf í stjórnmálum byggir á heilindum og vilja til samstarfs. Ef þær aðstæður eru ekki fyrir hendi þá skilja leiðir. Flóknara er það ekki. Enda þótt það sé munur á stærð Reykjavíkur og Raufarhöfn hvað íbúafjölda varðar þá er það með þessi sveitarfélög eins og með fíl og mús, kerfið byggir á sömu principum.

Mótmæli gagnvart ákvörðunum stjórnmálamanna eru eðlileg og sjálfsögð. Þau verða hins vegar að fara eftir settum lýðræðislegum reglum. Ef það er ekki gert er vegið að grunni lýðræðisins. Slík skref er best að taka af íhygli.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kvitta fyrir lesturinn. Ingibjörg ;-)