fimmtudagur, janúar 31, 2008

Tók 10 km á þægilegum hraða niður í Laugum. Nennti hreinlega ekki að fara að hlaupa úti í frostinu enda þótt ég viti að manni er ekkert kalt þegar á stað er komið. Mánuðurinn slagar hátt í 300 km eins og ætlað var. Allt eftir áætlun.

Hitti Pétur Fransson í búningsklefanum. Hann sagði mér frá því að hann er að leggjast í víking um landið til að boða fagnaðarerindið um hreifingu, skokk og fleira því tengt. Pétur er ekki einhamur við það sem hann tekur sér fyrir hendur. Vonandi gengur þetta vel hjá honum og ég væri meir en til með að leggja honum hendi ef þörf er á og aðstæður leyfa. Svo er vafalaust um fleiri.

Það er fastur liður í tilverunni að á þeim tíma ársins þegar líður að aðalfundum fyrirtækja þá upphefst jarmið í velmenntuðum konum í efri millistétt um kynjahlutfallið í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Í morgun kom auglýsing frá rúmlega 100 konum sem vilja og geta tekið sæti í stjórnum fyrirtækja. Ég efa ekki að það væri auðvelt að safna saman álíka lista yfir 100 karlmenn sem hefðu bæði kunnáttu og vilja til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja en eru óuppgötvaðir á því sviði. Sá er hins vegar munurinn að svona auglýsingar eru af ýmsum taldar konum til framdráttar en karlar sem myndu auglýsa svona væru álitnir fífl. Viðskiptaráðherra stökk fram á sviðið í dag og gaf atvinnulífinu ca tvö ár til að koma hlutfallinu í lag ella yrði kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja bundið í lög. Af hverju er aldrei sagt frá því í fréttum eða fréttaskýringaþáttum að Noregur er eina landið í heiminum sem hefur lögfest þessa hluti. Meðan það fylgir ekki fréttum og umræðu af þessu tagi þá eru á ferðinni grófur hálfsannleikur sem er eins og allir vita ekki betri en hrein lygi.

Ég heyrði í konu í morgunútvarpinu sem lýsti því yfir að "allar rannsóknir sýndu að hagnaður fyrirtækja sem væri með jafnt kynjahlutfall í stjórnum væri meiri en hinna þar sem annað hvort kynið væri í miklum meirihluta í stjórn". Af hverju eru þessar rannsóknir aldrei dregnar fram ef þær eru þá til? Ef þetta er hins vegar rétt þá eru stærstu fyrirtæki landsins í dag einfaldlega í lélegum business. Samt sem áður mokgræða flest stærstu fyrirtæki landsins. Þau myndu sem sagt græða miklu meira ef mark verður tekið á lögbindingarmönnum. Ég veit ekki af hverju það á að bíða í tvö ár fyrst þetta er rakin leið til hagnaðarauka. Ef íslenskir athafnamenn eru svo miklir amatörar að þeir hafa ekki uppgötvað þennan sannleik sem skilar fyrirtækjunum miklum viðbótarábata og viðskiptaráðherra telur sig knúinn til að bæta rekstur þeirra með svo einfaldri aðferð þá er rétt að spyrja hvort hann sé að fara yfir rekstur þeirra að öðru leyti með það fyrir augum að leggja til úrbætur í rekstri og fjárfestingarstefnu. Það hlýtur að vera fyrst þetta er einvörðungu spurning um afkomu og ágóða. Ég veit hins vegar ekki hvað þeim sem kosnir eru á þing til að setja þjóðinni lög kemur það yfir höfuð við hverjir sitja í stjórnum fyrirtækjum á almennum markaði. Þingið getur sett lög um kynjahlutfall í stjórnum ríkisstofnana og fyrirtækja sem ríkið á, sveitarstjórnir geta tekið ákvörðun um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana sem eru á vegum viðkomandi sveitarstjórna en atvinnulífið sem vinnur á hinum frjálsa markaði á einfaldlega að ráða sér sjálft að þessu leyti. Af hverju eru ekki sett lög um kynjahlutfall í öðrum stjórnunarstörfum fyrst það er svo mikilvægt að jafna kynjahlutfallið í þeim störfum sem unnin eru við stjórnun stærstu fyrirtækja landsins? Það má til dæmis nefna skipstjórnendur, stjórnendur vinnuvéla, bifreiðastjóra, skólastjórnendur og ráðherra í ríkisstjórn landsins. Af nógu er að taka.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður ... "jarmið í velmenntuðum konum í efri millistétt" ég hélt ég yrði ekki eldri! hahaha