föstudagur, maí 09, 2008

Ég sá á blogginu hjá Evu vídeoklipp þar sem var verið að tala um maraþonhlaup og ýmislegt í sambandi við þá miklu þolraun. Í enda vídeósins kemur þetta statement fyrir svona næstum því orðrétt:

When you cross that finish line, no matter how slow or how fast you run, it will change your life forever.

Það er óhætt að segja út frá mínum bæjarhóli séð að þarna er hvert orð öðru sannara. Maður fær gæsahúð af því að renna huganum yfir þau ár sem eru liðin síðan í ágúst 2000 þegar maður taldi sér trú um að maður væri loks fær um að hlaupa maraþon. Það hafði átt sér nokkurra ára aðdraganda þar sem fetað var úr skemmtiskokki í 10 km, svo í hálfmaraþon og síðan var látið vaða. Það var mikill áfangi að klára maraþon. Það voru endimörk hins mannlega í mínum huga. Síðan kom í ljós að það var ýmislegt beyond maraþon. Margt annað hefur fylgt í kjölfarið. Allt það fólk sem maður hefur kynnst í tengslum við hlaupin, bæði innanlands og utan, ferðalög og keppnir innanlands og utan, nýjar víddir í mataræði og heilsurækt, ný og ný markmið í hlaupum, uppskera sem eykst með auknu erfiði og svo framvegis og svo framvegis. Það er eiginlega bara tíminn og peningar sem setja takmörkin. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður væri staddur ef maður hefði ekki látið sig hafa það að hlaupa skemmtiskokkið góða hér um árið á illa reimuðum skóm með fötin í annarri hendi og Jóa í hinni. Ég ætla ekki að hugsa þá hugsun til enda.

Engin ummæli: