Tók síðustu löngu æfinguna fyrir Borgundarhólm á sunnudaginn. Það var leiðindarigning um morguninn svo ég fór niður í Laugar og tók skammt dagsins á brettinu. 30 km voru verkefni dagsins og það var lengra en ég hafði nokkurn tíma hlaupið á bretti. Aðferðin að gleypa fílinn ekki í einum bita heldur í mörgum smáum gekk fullkomlega upp. Ég skipulagði þessa þrjátíu km á brettinu sem hlaup í Elliðaárdalnum. Það eru um tólf hringir. Því voru hverjir 2.5 km sem einn hringur í dalnum. Svo var talið niður. Þetta gekk mjög vel, maður hlutaði vegalengdina niður í litla parta út frá hringjunum í dalnum og þannig leið þetta hraðar en hratt. Var um 2 klst og 50 mínútur að klára dæmið.
Næstu tíu dagar verða rólegir, ætla að taka svona 60 km í þessari viku og eitthvað minna í næstu viku.
Það eru víða að finna forarvilpurnar þessa dagana. Mér sýnist UMFÍ vera að byltast um í einni slíkri. Ég verð nú að segja að ég skil ekki alveg hugsunina bak við það að byggja yfir sundlaug í ætluðum höfuðstöðvum hreyfingarinnar í miðbænum, hvað þá að fjárfesta í sal til skákiðkunar og klifurvegg!! Er ekki nóg til af sundlaugum víðsvegar um bæinn? Er Skáksamband Íslands ekki með aðstöðu í Faxafeninu? Eru ekki margir grunnskólar á fullu við iðkan skáklistarinnar? Hvernig átti að standa undir kostnaði við öll herlegheitin sem kynnt voru fyrir borginni þegar lóðinni var úthlutað? Þarf UMFÍ á meira húsnæði að halda en skrifstofuplássi fyrir starfsfólkið og góðan fundarsal. Slíkt húsnæði er á lausu út um allan bæ. Þarna er eitthvað málum blandið.
Víkingar léku fyrsta heimaleik sinn í Víkinni á mánudagskvöldið. Þeim tókst að tapa fyrir Selfyssingum sem voru baráttuglaðir og áttu sigurinn skilið. Stelpurnar í HK/Víking uppskáru meir í gærkvöldi þegar þær gerðu jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik sínum í efstu deild. Þær börðust eins og ljón allan leikinn og skiluðu stigi í hús.
miðvikudagur, maí 14, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli