fimmtudagur, maí 15, 2008

Nú eru rólegheit, ætla að fara svona 60 km í þessari viku svona til að halda mér mjúkum. Allt í fínu lagi. Eini óvissuþátturinn á Borgundarhólmi verður veðrið.

Sá áhugavert efni á norska ultravefnum í dag. (www.kondis.no/ultra). Í fyrsta lagi hafa þeir útbúið sérstakan kynningarbækling yfir norsk ultrahlaup. Fyrir nokkrum árum var einungis eitt ultrahlaup haldið í Noregi en nú eru þau orðin sjö af ýmsum tegundum. Þar eru fjallahlaup á tveimur dögum, sex tíma hlaup, 12 og 24 tíma hlaup innandyra, 100 km hlaup á hlaupabraut og síðast en ekki síst skemmtileg útfærsla á 80 km hlaupi. Það er hlaupið innandyra og hlaupnir eru átta 10 kílómetra leggir. Ræst er með þriggja tíma millibili svo hlaupið stendur yfir í einn sólarhring. Sá sem hleypur hraðast fær mesta hvíld milli hlaupa. Heildartími ræður um úrslit. Þessi hlaup öll sömul kynna þeir síðan í einum bæklingi.

Hérlendis hafa verið haldin tvö ultrahlaup á ári, Laugavegurinn og sex tíma hlaupið (Jónshlaup). 100 km hlaup verður haldið í fyrsta sinn hérlendis í næsta mánuði. Líkur benda til að Hamfarahlaupið bætist við á næsta ári sem er 206 km og verður það líklega hlaupið á þremur dögum. Þá er þetta nú orðið þó nokkuð. Þingvallavatnshlaupið (65 - 70 km) og Þingstaðahlaupið (55 km) eru yfirleitt hlaupin árlega þó það sé ekki alveg árvisst. Það þarf ekki mikla viðbót í vinnuframlagi frá því sem nú er að breyta þeim í keppnishlaup og formleg ultrahlaup. Það er nefnilega alveg hellingur að gerast og fer vaxandi. Ég hef trú á að þátttaka í ultrahlaupum vaxi verulega á næstu árum. Hjá mjög mörgum er þetta fyrst og fremst spurning um að taka skrefið og láta slag standa. Sá fjöldi góðra maraþonhlaupara sem er til staðar hér hefur alla möguleika á að gera sig gildandi í alvöru hlaupum.

Fín viðtöl í blöðunum í dag við Sigga Gunnsteins og Soffíu Gísla. Þetta sýnir að viðhorfið er að breytast gagnvart þessari merku íþróttagrein sem er þeim eiginleikum búin að það geta ekki allir stundað hana. Fréttir af þessum hlaupum þóttu vart fréttaefni í árdaga þegar okkar fyrstu menn voru að hlaupa 100 km hlaup. Nú er þetta frekar algengt umfjöllunarefni í fjölmiðlum. Dropinn holar steininn.

Norðmenn hafa einnig tekið upp aðra nýjung sem er kynnt í bæklingnum góða. Þeir veita ultrahlaupurum brons - silfur og gull styttu fyrir að ná ákveðnum heildarkílómetrafjölda í viðurkenndum ultrahlaupum. Bronsstyttan er veitt fyrir að hlaupa samanlagt 1.000 km í viðurkenndum hlaupum, silfurstyttan er veitt fyrir 5.000 km samtals og gullstyttan er veitt fyrir samtals 10.000 km hlaupna í viðurkenndum hlaupum. Það er ekki heiglum hent að ná silfri og gulli. Við þurfum að taka þetta upp hérlendis. Þetta eru skemmtilegar viðurkenningar fyrir þá sem leggja þetta fyrir sig öðru frekar.

P.S. Kona sem heitir Helga sendi mér skeyti um Laugaveginn á Hlaupadagbókinni. Ég eyddi því af klaufaskap áður en ég gat lesið það. Endilega að senda það aftur. Þá verð ég varkárari áður en ég les það.

Engin ummæli: