fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var í dag. Þetta er stærsta fjármálaráðstefnan til þessa og einnig sú sem hefur verið best setin. Sveitarstjórnarmenn eru áhyggjufullir um hvernig mál munu þróast. þeir eru í sömu óvissunni og allur almenningur en bera engu að síður ábyrgð á allri nærþjónustu við íbúa landsins sem heitið getur. Sigurbjörg Árnadóttir hélt síðasta erindið í dag og ræddi um reynslu sína af kreppunni í Finnlandi á árunum 1992 - 1999. Að sumu leyti er fólkið ekki laust út úr henni ennþá og sumir losna aldrei við kreppuna. Sigurbjörg lýsti ástandinu í Finnlandi tæpitungulaust og hvaða afleiðingar aðgerðaleysi stjórnvalda á árunum 1992 - 1995 hafði. Stjórn Centerpartisins og hægriflokksins var gersamlega ráðalaus að sögn Sigurbjargar og hafði þá sýn eina að fólk ætti að spara sig út úr kreppunni. Það hafði í för með sér að fólk eyddi engu nema því allra nauðsynlegasta. Það hafði aftur í för með sér að blóðið í finnska þjóðarlíkamanum hætti því sem næst að renna. Finnsk stjórnvöld mögnuðu þannig upp áhrif kreppunnar heima fyrir fyrstu árin. Það var svo ekki fyrr en árið 1995 að stjórnvöld breyttu um stefnu og fóru að hugsa um að styrkja atvinnulíf innanlands. Laggja fjármagn í viðhald, menntun, sprotafyrirtæki og forða algeru hruni búsetu á vissum stöðum á landsbyggðinni. Íslendingar hafa mjög gott að heyra hvaða hlutir geta gerst ef duglaus og hugmyndasnauð stjórnvöld ráða ferðinni.

Maður er stundum pirraður út í fréttamenn en stundum er maður ánægður. Mér fannst það fínt hjá Fréttastofu RÚV að gægjast aðeins bak við tjöldin á útgjöldum utanríkisráðuneytisins. Sá sparnaður í rekstri ráðuneytisins sem kynntur hefur verið er einungis þannig til kominn að sú aukning sem búið var að ákveða í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 er dregin til baka. Gert var ráð fyrir að útgjöd ráðuenytisins yrðu um 11 milljaarðar króna en sparnaðartillögurnar gera ráð fyrir að fjárframlög verða lækkuð niður í það sem þau eru á þessu ári eða um 9 milljarðar. Æ, er það von að manni blöskri? Got dæmi um silkihúfustaflann þarna innan dyra er að sex sendiherrar hætta á næsta ári og ekki er gert ráð fyrir að ráða í þeirra stað. Til hvers hefur sendiráð verið í Pretoríu eða Róm? Flottræfilsháttur íslendinga er næstum því takmarkalaus. Maður gæti ýmyndað sér hvernig staðan væri er Ísland hefði fengið kosningu í Öryggisráðið. Þjóð sem er á forsíðum blaða um allan heim vegna hruns efnahagskerfisins vegna rangra ákvarðana og ákvarðana sem ekki voru teknar. Það kemur sjálfsagt aldrei upp á yfirborðið hvað framboð til öryggisráðið hefur kostað en eitt er víst að það er allt of mikið. Vitaskuld á utanríkisþjónustan að vera undir smásjánni eins og allt annað.

Fór bæði í morgunhlaup og kvöldhlaup. Það er varla hægt annað á meðan veðrið er svona gott.
Víkingur spilaði við Val í kvöld í handboltanum. Þeir stóðu sig vel í þrjú korter en fjórða korterið var skelfing svo 9 marka tap var staðreynd.

Engin ummæli: