miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Talandi um næringu þá hef ég hef notað Herbalife í rúmt ár. Ég byrjaði að nota það í fyrra í september. Á því ári sem liðið er síðan hef ég aðallega notað það á tvennan hátt. Í fyrsta lagi nota ég Herbalife fyrir og eftir langar æfingar (20 km +). Ég fæ mér hálfan líter af undanrennu eða djús með tveimur góðum skeiðum af Formúlu 1 áður en ég fer út. Síðan fæ ég mér álíka skammt (tvær skeiðar af Formúlu 1 og eina skeið af Formúlu 3) þegar ég kem inn eftir langt hlaup. Þetta hefur tvennt í för með sér. Ég drekk miklu minna á hlaupum en áður og mér finnst orkubalansinn vera miklu betri. Síðan sem skiptir ekki minna máli er að maður er miklu fljótari að jafna sig eftir löng hlaup (30 km og yfir). Það líður ekki nema svo sem klukkutími eftir að inn er komið að hlaupið sé farið úr fótunum. Þetta hefur í för með sér að maður getur lagt á sig miklu meira æfingaálag. Í fyrra hljóp ég rúmlega 3000 km sem var það mesta fram til þessa. Í ár geri ég ráð fyrir að fara yfir 4500 km og finn ekki fyrir því. Engin meiðsli, engin vandræði. Ég hef hlaupið upp í 200 km á viku sem ég átti aldrei von í að ná fyrir tveimur til þremur árum. Ég hef tekið allt að 15 æfingar á viku án þess að finna fyrir því.
Síðan er hin hliðin á dæminu sem mér finnst ekki síður áhugaverð. Það er hvernig Herbalife dugar í löngum hlaupum eða 8 - 34 klst. Í ár hef ég notað Herbalife sem grunnnæringu í löngum hlaupum. Þar er um að ræða 24 tíma hlaup á Borgundarhólmi, Laugavegurinn + Fimmvörðuháls, 2 x maraþon í RM, Haustlitahlaup fyrir vestan og Spartathlon.
Ég gerði alvöru tilraun í 24 tíma hlaupinu í maí og lagði í raun allt undir með að ákveða að nota Herbalife sem einu næringuna í hlaupinu og hafa ekkert varaplan. Ég fann fljótt út að það leið of langur tími á milli máltíða í hlaupinu ef ég fékk mér 1/2 líter á 5 tíma fresti eins og ég byrjaði með. Þegar þrír tímar liðu á milli þess að ég drakk 1/2 líter af Herbalife blöndu þá fannst mér það virka fínt. Ég borðaði ekkert annað í heilan sólarhring og náði ágætum árangri. Varð í 4. sæti á Danmerkurmeistaramótinu þar sem voru mættir voru margir af bestu 24 tíma hlaupurum Norðurlandanna. Með hliðsjón af þessari reynslu þá ákvað ég að nota Herbalife sem einu næringuna í Spartathlon hlaupinu. Það er erfiðasta ultrahlaup í heimi sem hlaupið er í einum áfanga. Ég setti skammta í plastpoka sem ég dreifði út á drykkjarstöðvarnar. Hafði þannig alltaf nokkra skammta í mittisbeltinu og fékk mér blöndu á 3ja tíma fresti. Teigaði 1/2 líter í einu. Ég fann einnig þar að það passaði vel að fá sér blöndu á þriggja tíma fresti. Ég notaði þann djús sem var til að drykkjarstöðvunum til að blanda duftið í. Það eina sem ég borðaði annað voru tveir melónubitar, nokkur vínber og nokkrir Löparlarssonsbitar. Niðurstaðan var að orkan var í fínu lagi allt hlaupið, maginn var einnig í fínu lagi og aldrei vottur af ógleði. Mjög algengt er að ógleði leggist yfir menn í svona löngum hlaupum. Það er staðreynd að það er mun minna álag fyrir skrokkinn að neyta fljótandi fæðu í svona löngum hlaupum heldur en fastrar fæðu. Þá orku sem sparast við þetta nýtir maður í hlaupið. Vindgangur einnig annað sem getur valdið vandræðum undir þessum kringumstæðum. Hann lét aldrei á sér kræla.

Niðurstaðan eftir þessi tvö mjög löngu keppnishlaup er að Herbalife dugar mjög vel sem grunnorka við mikið álag í einn til einn og hálfan sólarhring. Lengri viðmiðun hef ég ekki. Maginn var í fínu jafnvægi, orkan eins og maður þurfti á að halda. Ég er því ákveðinn að nota Herbalife próteinduft á svipaðan hátt á meðan ég stunda þessi löngu hlaup. Ég veit ekkert hvort Herbalife sé betra eða verra en annað próteinduft en ég sé ekki ástæðu til að breyta því sem dugar vel.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá þetta - ég var nefnilega búin að vera að spá í það alveg frá því þegar þú hljópst Laugaveginn+Fimmvörðuháls hvort þú værir með tilbúið blandað í hlaupinu og í hvað þú blandaðir þetta. Nú er ég komin með svarið. Takk fyrir það.
Jóhanna Hafliðadóttir

Steinn Jóhannsson sagði...

Ég tek undir með þér Gunnlaugur að Herbalife er að virka mjög vel. Ég nota formulu 1 samkvæmt þinni uppskrift og finn mikinn mun á lengri æfingum. Klikkaði á þessu í Franfurt fyrir hlaup og tel að hefði ég fengið mér próteinblönduna um morgunin hefði ástandið á fótunum verið miklu betra í hlaupinu. Einnig skiptir þetta sköpum hvað varðar líðan eftir langar æfingar - maður er allur miklu frískari og auðveldara að æfa 2x á dag.