sunnudagur, nóvember 30, 2008

Ég er að hlusta á Guðmund Ólafsson og Sigurð G. Tómasson á Útvarpi Sögu eins og oftari. Þeir eru að ræða um verðtryggingu. Að undanförnu hafa margir komið fram að það eigi að afnema verðtryggingu og það sé eins og það komi ekkert í staðinn. Þetta er náttúrulega eins og hvert annað bull. Ef verðtryggingin væri afnumin þá myndu nafnvextir hækka að sama skapi og væru að öllum líkindum hærri en sem nemur verðtryggingu og raunvöxtum samanlagt því lánarinn vill hafa ákveðið öryggi um að hann fái lánið til baka með rentum. Guðmundur er harður á því að ef maður fær lánaðan kaffipakka þá eigi maður að skila kaffipakka till baka. Það sé ekki hægt að koma með pakkann og segja að kíló af kaffi í gær jafngildi pundi af kaffi í dag. Þetta er laukrétt. Stóra spurningin í þessu sambandi er hvernig verðtryggingin er reiknuð út. Grunnur verðtryggingar er tvennt. Það magn sem fólk kaupir af mismunandi vörum (neyslumunstur) og það sem varan kostar hverju sinni. Svo er þetta borðið saman milli tímabila. Það sem skiptir því höfuðmáli í þessu sambandi er tvennt:
Í fyrsta lagi: Hvað er í vísitölugrunninum svokallaða?
Í öðru lagi: Hversu gamall er vísitölugrunnurinn? Endurspeglar hann raunverulegt neyslumunstur þjóðarinnar?

Eitt af því sem er verulega gagnrýnivert og í raun alveg kolgalið að húsnæði skuli hafa verið inni í neysluvísitölugrunninum. Húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi vegna þess að það var rutt peningum inn á markaðinn. Verð á húsnæði skrúfaðist upp úr öllu valdi án þess að nokkur raunveruleg framleiðniaukning væri til staðar í samfélaginu. Dæmigerð innistæðulaus verðbóla. Þannig skrúfaðist verðbólgan miklu hraðar upp en ef húsnæði hefði ekki verið með í vísitölugrunninum. Vextir voru síðan hækkaðir upp úr öllu valdi til að berja niður verðbólguna. Háir vextir soguðu erlent fjármagn til landsins. Það styrkit krónuna gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Það var meðal annars ástæða fyrir gríðarlegum innflutningi og miklum viðskiptahalla og þandi húsnæðisbóluna enn frekar út. Þetta varð því að einum herjans vítahring sem sprakk með hvelli.

Það er miklu frekar regla erlendis í sambærilegum útreikningum að húsnæði sé ekki talið með. Húsnæði er ekki neysluvara. Það er fjárfesting. Í rekstri fyrirtækja er skilið á milli útlagðs kostnaðar sem fellur undir daglegan rekstur og kostnaðar sem fellur undir fjárfestingu. Það sem fellur undir afskriftareglur er ekki metið sem útlagður kostnaður á rekstrarreikningi. Á sama hátt er snargalið að taka verð á húsnæði með í mælingu á neysluverðsvísitölu. Þessi kerfisvilla hefur haft veruleg áhrif á vísitöluútreikninga á undanförnum árum. En eftir að farið er að villast eftir mýrarljósi þá er rangt að afnema þetta í miðjum klíðum. Gera má ráð fyrir að verð húsnæðis lækki um tugi próssenta á komandi misserum. Þá mun húsnæðisverð hafa áhrif til að vísitala neysluverð lækki mun hraðar en ella. Þegar komið er ákveðið jafnvægi á ástandið þá á skilyrðislaust að kippa húsnæðiskostnaði út úr vísitölunni.

Þá komum við að seinna atriðinu. Hve gamall er vísitölugrunnurinn? Það er mjög rangt að nota þriggja eða fjögurra ára gamlar upplýsingar um neyslusamsetningu þjóðarinnar við mælingu verðbólgu eins og ástandið er í dag. Neysla breytist í kreppuástandi og neysla dregst saman. Því er afar mikilvægt að það neyslukönnun sé gerð sem fyrst og henni haldið reglulega við til að sá grunnur sem útreikningar verðtryggingar byggir á endurspegli raunverulega neyslu þjóðarinnar. Eitthvað reiknilíkan má ekki taka völdin og hafa afdrifarík áhrif á afkomu einstaklinga og fyrirtækja á eins örlagaríkum tímum eins og við lifum í dag.

Er sjávarútvegurinn gjaldþrota? Það væri uppvænleg niðurstaða og full ástæða til að þar komi öll kurl til grafar. Verður ríkið(skattreiðendur) að færa gríðarlega fjármuni til greinarinnar til að forða henni frá hruni. Þá væru skattgreiðendur að færa greininni aftur hluta þeirra fjármuna sem sægreifarnir hafa tekið út úr henni á liðnum áratugum. Þá fer nú fyrst að færast fjör í leikinn.

Ég tók daginn snemma í morgun og fór út kl. 8.30. Það var myrkur og allt að -10°C þegar ég kom út en birti smám saman. Ég fór Poweratehringinn og síðan niður í Laugar. Þar hitti ég vini Gullu og við fórum niður í bæ, svo Suðurgötuna niður á stíginn og síðan austur með Fossvoginum, inn í Elliðaárdal og heim. Alls lágu 27 km. Það var logn svo þetta var hið besta hlaupaveður þrátt fyrir kuldann. Kuldi er miklu viðráðanlegri en hiti. Í kulda er þetta bara spurning um föt.

Orwell ætlar að vigta sig á morgun. Hann fékk ráð um mataræði hjá mér í byrjun nóvember og hefur haldið áætlun síðan. Nú borðar hann fyrst og fremst kjöt, fisk, grænmeti og ávexti og mikið af því. Sveltistefna er stórvarasöm og bara til hins verra. Drasl á diskinn heyrir hins vegar sögunni til. Hann segist finna mikinn mun á sér og bíður spenntur eftir morgundeginum. Við tókum fína spretti sem hann sagðist alls ekki hafa getað haldið út fyrr í haust.

Engin ummæli: