föstudagur, maí 29, 2009

Ég er að vera fínn í hlaupasettinu. Ég er mest ánægður með að allt sem máli skiptir hélt 100%, vöðvar, sinar, liðamót og fótleggir. Hnáeymslin sem voru að plaga mig í maíbyrjun eru alveg horfin. Engin eymsli eða eftirköst í öklum eða hnjám. Engir strengir í vöðvum. Maður þarf að læra aðeins betur hvernig á að hantera blöðrur. Ég las hjá evrópuhlaupurunum að svíinn Andreas Falk hafði stúderað sérstaklega á netinu hvernig ætti að taka á þeim ef og þegar þær láta sjá sig.

Það virkar mjög yfirdrifið að hlaupa á kílómeters hring í tvo sólarhringa en það er með þetta eins og svo margt annað, þetta er bara verkefni. Maður skipuleggur það út í ystu æsar, hlutar það sundur í undirverkefni og lætur það þróast eftir ákveðinni áætlun. Það er ákveðinn stígandi í sumum þáttum en dregið úr öðrum eftir því sem tíminn líður. Næringin er tekin inn eftir ákveðnu kerfi og hvíldin er einnig sett upp í kerfi. Maður hefur fata- og skóskipti eftir ákveðnu kerfi. Þannig mætti áfram telja. Þetta er lykillinn að því að láta svona hluti ganga þokkalega upp.

Ég held að þessi vegalengd sem ég náði að fara væri næstlengsta 48 tíma hlaup gegnum tíðina í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég veit ekki alveg hve langt finnarnir hafa hlaupið í svona hlaupi. Í fyrra hefði ég endað í 14 sæti á heimslistanum af þeim ca 230 hlaupurum sem hlupu svona hlaup á árinu 2008 og í efsta sæti í aldursflokknum 55 ára og eldri.

Kærar þakkir aftur fyrir allar góðar kveður. Það er gaman að finna að það er lifandi áhugi fyrir svona hlutum sem vonandi hvetur fólk til dáða á ýmsan hátt.

Engin ummæli: