miðvikudagur, maí 13, 2009

Ég sá nýlega andlátsfregn manns sem ég þekkti svolítið fyrir margt löngu fyrir vestan. Hann var nokkrum árum yngri en ég. Hann glataði 35 árum æfi sinnar vegna þess að hann verslaði við sölumenn dauðans. Þegar sölumennirnir eða flutningamenn eru staðnir að verki og byrja að væla þá eru það aðrir en ég sem vorkenni þeim. Jafnvel þótt þeir séu að eigin mati ekki þær týpur sem eiga að sitja í steininum.

Umræðan um tannvernd er dálítið athyglisverð. Tannlæknar höfðu í annað skipti á skömmum tíma ókeypis móttöku fyrir krakka og unglinga. Sú sjón sem mætti tannlæknunum var skelfileg. Skemmdar og brunnar tennur út um allt. En hvernig er umræðan. Jú, hún byrjar náttúrulega strax að snúast um að hið opinbera geri of lítið. Ábyrgðinni er skellt á ríkið. Af hverju er ekki rætt við foreldrana um sykurátið og gosdrykkjaþambið? Af hverju er ekki rætt við foreldrana um hvort þeir hafi ekki heyrt minnst á tannbursta? Það skal enginn segja mér að það sé svo dýrt að fara með krakkana í skoðun hjá tannlækni einu sinni til tvisvar á aári að fólk hafi ekkie fni á því. Það er náttúrulega dýrt þegar allt er komið í steik, það er allt annað mál. En hvers vegna fer allt í steik? Er það hugsunarleysi, vankunnátta, kæruleysi eða sofandaháttur? Það er alla vega ekki normalt að láta hlutina fara á þann veg sem myndir eru sýndar af hjá ungum krökkum. Mér finnst tannhirða hjá börnum vera nokkursskonar mælikvarði á ákveðinn menningarstandard. Ég er ekkert að draga úr því að ríkið komi inn í greiðslu á tannlæknakostnaði hjá börnum og unglingum en það er ekki hægt að láta alla ábyrgðina á þessum málum hvíla á herðum þess.

Þegar maður var að alast upp úti á landi fyrir nokkrum áratugum voru aðstæður allt aðrar. Það kom kannski tannlæknir í plássin einu sinni á ári og gerði við. Eftir því sem tannlæknar segja mér þá voru þessir farandverkamenn oft þeir sem áttu erfitt í samkeppninni á höfuðborgarvæðínu ýmissa hluta vegna. Þeir fóru hins vegar um landið og sinntu ákveðinni bráðaþjónustu. Mín reynsla af þeim var að handverkið var lélegt. Ég kynntist ekki almennilegum tannlæknum fyrr en ég flutti til Svíþjóðar um 1980. Þá áttaði maður sig líka á samanburðinum. Hann var íslendingum ekki í hag.

Þetta er nú eitthvað dúbúíus með Alsírbúann sem er í hungurverkfallinu. Maður les í blöðum að hann sé búinn að svelta í 21 dag. Maður væri nú orðinn ansi framlágur eftir þann tíma, trúi ég. Fréttir berast reglulega af því að líffæri séu farin að skemmast og ég veit ekki hvað. Hjartað sendi að sögn frá sér aðvörunarmerki nýlega svo hann var fluttur á spítala. Læknirinn sagði hins vegar að hann væri í fínu standi og sendi hann heim aftur. Ætli hann fái sér snarl á nóttunni?

Fréttir berast einnig af því að aðrir hælisleitendur ætli að fara í hóphungurverkfall. Hvað þýðir það? Á að stroka allar reglur út eftir ca 20 daga svelti og skrifa upp á það sem beið er um? Það er í sjálfu sér einfaldur prócess. Eiga stjórnvöld að segja reglur eru reglur og láta þá bara svelta? Hvernig mun slíkt enda? Hver ræður og hver ber ábyrgðina í þessum tilvikum? Að mínu mati er alla vega ljóst að við gegtutm ekki verið að búa til okkar eigin reglur sem eru byggðar á einhverri stundarmeðaumkun.

Ég er mjög hugsi yfir fyrningarleiðinni í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa boðað. Ég trúi vel að það þurfi að skerpa á ýmsum hlutum og laga kerfið en að kollvarpa því frá grunni er annað mál. Hvert er lánstraust fyrirtækja sem búist er við að tapi um 5% af sóknarfæri sínu árlega? Munu þau fá eðlilega lánafyrirgreiðslu? Munu þau standast það að þurfa að kaupa kvótann aftur sem þau eru búin að kaupa einu sinni og fengið skerðingar á hann? Fá þau lán til að kaupa kvótann? Fá þau bætur frá ríkinu fyrir þann kvóta sem verður gerður upptækur? Hvernig geta þau staðið undir skuldunum með síminnkandi veiðiheimildum? Það er mögum spurningum ósvarað í þessu sambandi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú segir:
"Þetta er nú eitthvað dúbúíus með Alsírbúann sem er í hungurverkfallinu. Maður les í blöðum að hann sé búinn að svelta í 21 dag. Maður væri nú orðinn ansi framlágur eftir þann tíma, trúi ég. Fréttir berast reglulega af því að líffæri séu farin að skemmast og ég veit ekki hvað. Hjartað sendi að sögn frá sér aðvörunarmerki nýlega svo hann var fluttur á spítala. Læknirinn sagði hins vegar að hann væri í fínu standi og sendi hann heim aftur. Ætli hann fái sér snarl á nóttunni?"

Málið er það að fasta eða "hungurverkfall" er ekki eins slæm og margir halda. Umræðan um þetta lýsir ákveðinni vanþekkingu. Mér finnst hann bara nokkuð góður að halda út svona lengi, og það er spurning hvort hann nái ekki að fara 30-40 daga. Þá væri hann flottur. Ég er ekki að segja að ég styðji hann í að þrýsta á íslensk stjórnvöld, alls ekki. Finnst reyndar að það eigi að vísa honum úr landi. En það þarf ákveðinn sjálfsaga til að halda út 21 dag í föstu og fyrir það dáist ég að þessum gaur.

Það sem fólk segir um þetta er svona álíka og menn segja um últrahlaup. Þú segist mundu vera orðinn "ansi framlágur eftir þann tíma", þ.e. fastandi í 21 dag. Er þetta ekki það sama sem menn segja um að hlaupa í 5-6 klst, tala nú ekki um lengra?

Málið er að ef maður hefur ekki prófað það þá veit maður ekki um hvað maður er að tala um, eins og nánast allir sem hafa tjáð sig um þetta hungurverkfall. (Og margir sem tjá sig um últrahlaupin).

Það er töluverður hópur sem fastar reglulega, þ.e. borðar ekkert og drekkur bara vatn og verður ekki meint af. Heldur þvert á móti gera sér þetta til heilsubótar. Sjá t.d. þessar síður:
http://naturalhygienesociety.org/articles/fasting1.html
http://www.gaianstudies.org/articles4.htm
http://drbass.com/firstfast.html

Að drekka mikið vatn er mikilvægt, en fasta án vatns dregur þig til dauða á nokkrum dögum. En ef þú ert með vatn þá getur þú haldið út alveg 30 daga léttilega án fastrar fæðu. Það er að segja ef þú ert ekki með einhvern sjúkdóm eða galla sem kallar fram vandamál. Það að líffæri skemmist og hjartað bili er bara vitleysa. Ekki á svona stuttri föstu, held menn þurfi að halda þessu úti mun lengur en 21 dag til þess.

Að menn séu hálfmeðvitundarlausir, drulluslappir, og eigi í vandræðum með jafnvægið er bara bull. Leikaraskapur og uppgerð. Einn sem ég þekki og fastaði í rúmlega 10 daga fór í ræktina og hljóp daglega á meðan á þessu stóð og fór létt með.

Ég prófaði þetta í viku. Fyrstu 2 dagarnir voru bara fínir, en svo leið manni bara vel það sem eftir var. Einstök vellíðunartillfinning. Fór í vinnunna eins og ekkert væri, gerði allt sem ég annars hefði gert nema ég sleppti úr máltíðum og slakaði á í líkamsrækt. Tók eftir því að skynfærin voru miklu öflugri, þefskyn, sjón, heyrn ofl batnaði. (Náttúruleg viðbrögð til að leita að fæðu líklega). Almennt leið mér alveg rosalega vel. Dagarnir liðu hægt og mér fannst tíminn standa í stað og allt vera miklu rólegra.

En ég spyr, er það manninum eðlilegt að borða 3-4 máltíðir á dag? Hvernig borðaði fornmaðurinn? Borðaði hann ekki óreglulega og kannski ekkert í nokkra daga milli þess sem eitthvað veiddist? Og hvað gera dýrin þegar þau veikjast? Hætta þau ekki að borða?

Sumir fasta sér til heilsubótar og telja að þetta sé einhverskonar "detox". Aðrir trúa því að með því að fasta þá hjálpi þeir líkamanum að takast á við sjúkdóma, sbr. dýrin hér að ofan. Þeir vilja meina að líkaminn lækni sig betur ef hann getur eytt allri orkunni í að takast á við sjúkdóminn heldur en að nota orku í meltingarkerfið. Enn aðrir fasta bara af því þeim líður vel á meðan því stendur.

Ástæða þess að ég prófaði þetta var einskær forvitni, sjá hvort ég gæti það, hvernig mér liði, er þetta hægt? osfrv.

Þannig að ég segi og skrifa að þetta hungurverkfall er ekki eins slæmt eins og margir halda að það sé. Trikkið er bara að drekka mjög mikið vatn.

Nafnlaus sagði...

Tek undir það sem þú segir. Svili minn sagði mér í kvöld að hann hefði fastað í 19 daga í haust. Til að halda jafnvægi er að drekka vel og drekka kannski dálítið af orku og steinefnum með. Þetta virkar allt dálítið yfirdrifið. Ég hef hins vegar aldrei farið í sveltikúr svo ég þekki hann ekki.