laugardagur, maí 09, 2009

Það fer fátt meira í taugarnar á mér en einfeldingslegur sjálfbirgingsháttur þar sem menn rugla eitthvað út og suður um hvað viðkomandi séu frábærir. Íslenskir fatahönnuðir halda annað árið í röð!! sýningu í Hafnarhúsinu sem heitir "Showroom Reykjavík" Ég heyrði viðtal við einhver aðstandenda sýningarinnar í útvarpinu í vikunni þar sem sagt var frá því að útflutingstekjur Íslands vegna fatahönnunar væru um 3 milljarðar króna. So far so good. Síðan sagði viðkomandi að Danir hefðu um 10 sinnum meiri tekjur pr. einstakling af fatahönnun en íslendingar. Ekki var farið nánar út í að skýra hvers vegna munurinn væri svo mikill. Ég las svo frétt í Mogganum í dag frá formanni Fatahönnunarfélags Íslands. Hann segir um þann hóp sem að sýningunni standa: "Hópurinn er svo svakalega ólíkur. Íslensk hönnun er almennt mjög lítið markaðstengd og það er bæði gaman og ruglingslegt. Hönnuðir vinna á eigin forsendum og eru svolítið eins og óþekkir krakkar sem kunna ekki að haga sér sem gerir þetta miklu skemmtilegra og kraftmeira." Ég sé ekki betur en í orðum og afstöðu formannsins sé komin skýringin á því hvers vegna íslendingar standa dönum svo langt að baki í því að koma framleiðslu sinni á framfæri við umheiminn.

Blaðamennskan hér ríður ekki við einteyming. Um daginn birti DV frétt á forsíðu um einhvern fréttamann sem fór að væla heima hjá sér yfir því að kærastan hans hefði dömpað honum. Hverjum er ekki sama um það yfir hverju og hvenær hann vælir. Í gær birti DV forsíðufrétt um að miðaldra leikkona væri orðin skotin í einhverjum karli. So. Í dag hlakkar í DV yfir því að það hafi verið logið í Morgunblaðið að ísbjörn hefði gengið á land við Hofsós. Hvaða fréttamennska er þetta eiginlega?

Fyndnu mennirnir fyrir norðan sem tóku myndir af uppstoppuðum ísbirni í vegkanti og lugu því blygðunarlaust í fjölmiðla að ísbjörn væri genginn á land verða að átta sig á því að þetta er ekkert grín. Það er alvöruhlutur að senda út falskar fréttir um aðsteðjandi ógn eða vandræði og hreint ekki fyndið. Þeir ættu að rifja upp söguna "Úlfur Úlfur" áður en þeir fara að grínast svona aftur.

Ég fékk sent skilaboð út af því sem ég skrifaði um bók Ólafs Arnarsonar. Þar var því haldið fram að bókin hefði verið rifin í tætlur af félaga Bjarna Harðarsyni bóksala. Í umsögn Bjarna og skilaboðunum sem ég fékk er því haldið fram að útrásarliðið beri alla sök á hruni hagkerfisins hér. Auðvitað mega menn hafa þessa skoðun og hafa ákveðin rök fyrir henni. En af því fótboltavertíðin er að byrja þá langar mig að taka viðmiðun úr fótboltanum. Í fótboltaleik leika leikmennirnir eins fast og dómarinn leyfir. Góður dómari heldur ákveðinni línu í dómgæslunni, gefur áminningar til þeirra sem ekki fylgja henni og sendir þá af velli við ítrekuð gróf brot sem láta sér ekki segjast. Ef leikurinn fer úr böndunum og leikmenn tuuddast hömlulaust hverjum er þá um að kenna. Dómaranum og engum öðrum. Úrslitum í leik sem vinnst á dæmalausum tuddahætti og jafnvel á svindli er ekki breytt en dómarinn getur misst dómaraskírteinið að eilífu. Sama gildir með spilið á íslenska fjármálamarkaðnum á undanförnum árum. Dómaraparið sem átti að gæta þess að farið væri eftir lögum og reglum og hafa hagsmuni samfélagsins í fyrirrúmi brást hrapalega. Óprúttnir aðilar notfærðu sér það blygðunarlaust. Niðurstaðan var eins og allir vita.

Við getum nefnt örfá en mjög afdrifarík atriði:
1. Sala bankanna var diskútabel svo ekki sé meira sagt. Steingrímur Ari Arason sagði sig úr Einkavæðngarnefnd í mótmælaskyni við vinnubrögðin vegna þess að hann er principmaður. Bankarnir voru t.d. seldir mönnum sem höfðu aldrei komið nálægt bankarekstri.
2. Bindiskylda bankanna var lækkuð verulega sem þýddi hömlulaust aðgengi þeirra að erlendu lánsfé sem var mokað hindrunarlaust inn í landið.
3. Óheftur aðgangur bankanna að ódýru lánsfé leiddi til þess að fjármagni var haldið að almenningi og fyrirtækjum sem aldrei fyrr sem leiddi til verðbólu á fasteignamarkaði með hörmulegum afleiðingum. Lántaka í erlendri mynt þótti jafn sjálfsögð og að kaupa sér ís í sunnudagsbíltúr.
4. Einblínt var af hálfu Seðlabankans á að halda verðbólgunni niðri með því að hækka stýrivexti sem jók eftirspurn eftir Jöklabréfunum gríðarlega sem aftur á móti leiddi til þess að gengi krónunnar styrktist upp úr öllu valdi. Þessi aðferðafræði gat ekki endað með öðru en ósköpum því það var ljóst að gengi krónunnar myndi falla gríðarlega þegar Jöklabréfin tækju til fótanna.
5. Þrátt fyrir að yfirvofandi vandræði væru orðin ljós þá var bönkunum bannað að gera upp í erlendri mynt. Fyrir þeirri ákvörðun hef ég ekki séð nein rök. Bankarnir voru því neyddir til að taka stöðu á móti krónunni til að verja hagsmuni sína.
6. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um vinnubrögðin við yfirtöku Glitnis. Á það má þó benda að efnahagsráðgjafi forsætisráðherra varaði sterklega við þeirri aðferðafræði sem var viðhöfð með þeim rökum að hún myndi koma af stað atburðarás sem ekki sæi fyrir endann á. Ástæða þess var meðal annars sú að gríðarlegt verðfall á hlutabréfum í fyrirtæki eins og Glitni myndi hafa í för með sér að hlutabréf í öðrum fyrirtækjum myndi hrynja í framhaldinu. Efnahagsráðgjafinn sagði starfi sínu lausu skömmu síðar.

Mér finnast bækur eins og Ólafur Arnarson skrifaði svo og bókin sem Óli Björn Kárason skrifaði um Stoðir vera betur skrifaðar en ekki. Þær draga saman yfirlit um afdrifaríka atburðarás á einn stað. Slíkar bækur eru partur af samtímasögunni. Ef menn eru ósammála þeim efnistökum sem beitt er við ritun þeirra þá skrifa þeir bara aðrar bækur þar sem málin eru skoðuð frá öðrum sjónarhóli. Það er hið besta mál. Einhliða fordæmingar eru hins vegar ekki burðugt innlegg í svona umræðu.

Áður en Ólafur Örn og félagar lögðu á Grænlandsjökul hér um árið þá þurftu þeir að kaupa sér tryggingu fyrir þó nokkra fjárhæð til að greiða kostnaðinn við hugsanlega björgun ofan af jöklinum. Grænlendingar tóku það ekki í mál að eiga það á hættu að bjarga þeim eða öðrum ofan af jöklinum á eigin kostnað. Þeir voru búnir að fá nóg af því. Hérlendis æða menn út og suður uppi á hálendinu og ef allt fer í steik þá er bara hringt í björgunarsveitina. Hún rýkur af stað og reddar hlutunum fyrir ekki neitt. En hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Það er næsta víst að fjárhagur björgunarsveita muni versna á komandi árum. Kreppan kemur við þær eins og aðra. Það er alls ekki sjálfgefið að ókeypis björgunaraðgerðir verði til reiðu fyrir alla alltaf í náinni framtíð. Því verður að gera kröfu til þess að fyrirtæki sem selja hálendisferðir að vetrarlagi kaupi sér tryggingar ef til björgunar muni komi. Svona útnesjamennska eins og viðgengist hefur hér árum saman verður að taka enda.

Við Jói, Sigurjón og Stebbi tókum fínar túr í morgun. Vindsperringurinn var að ganga niður svo túrinn var fínn. Allt í lagi með hnéð. Fór tæpa 30 km.

Engin ummæli: