laugardagur, maí 02, 2009

Mér finnst öll umræða og viðbrögð vegna Heiðmerkurmálsins vera mjög merkileg. Skólastjóri skólans sem stelpuhrottarnir eru í segir að málið sé ekki á sínu borði. Þær hafi ekki verið í skólanum þegar þær brutu af sér og brotið beindist ekki gegn nemenda skólans. Nú má þetta vera rétt en ef stelpan sem ráðist var á er í 10 bekk og hefur gert ráð fyrir að fara í sama skóla og hrottarnir eru í næsta haust, hvað þá? Mér kæmi ekki á óvart að hana myndi ekki hlakka neitt sérstaklega til að þurfa að vera í sama skóla og ofbeldisliðið næstu árin. Andlegu sárin eru líklega lengur að gróa en beinbrot. Verður niðurstaðan þá ekki eins og svo oft áður að fjölskylda fórnarlambsins verður að lúffa og flytja burt því ofbeldisliðið er friðhelgt. Ég sá í fréttum í dag að strákur var rekinn úr skóla í Bandaríkjunum fyrir að hafa skrifað lista yfir þá sem hann ætlaði að hefna sín á.

Það er sagt að samkvæmt laganna bókstaf séu 17 ára stelpur börn og því verði þeim ekki refað nema með skilorðsbundnum dóm, í mesta lagi. Sautján ára unglingar eru engin börn hvað sem sjálfræðismörkum viðkemur. Þau eiga og verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Annað gengur ekki. Það er óþolandi að einhver illa hugsaður lagabókstafur verndi svona hrotta.

Líklegt er talið að foreldrarnir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hugsanleg sekt eða skaðabótaskylda falli á þau, heldur muni ríkið hlaupa undir bakka ef fórnarlambinu eru dæmdar miskabætur. Ef unglingar eru dæmdir ósakhæfir vegena ungs aldurs þá bera foreldrarnir ábyrgð á þeim og eiga að standa ábyrgir fyrir hugsanlegum skaðabótum.

Mér finnast skilaboðin vera alveg svakaleg sem hafa verið send út í samfélagið af svokölluðum sérfræðingum í þerri umræðu sem hefur skapast eftir að árásin átti sér stað. Hrottarnir eru friðhelgir, þeir bera enga ábyrgð. Það er slegin skjaldborg um þá. Fórnarlambið og fjölskylda þess þurfa til viðbótar við það að hafa bæði þurft að þola árásina og afleiðingar hennar beint og óbeint þá standa þau frammi fyrir því að samfélagið snýr við þeim bakinu. Þetta er alla vega svona ef eitthvað er að marka hina svokölluðu sérfræðinga. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Búum við í réttarríki eða einhverju barbaristasamfélagi?

Svona lagað fær mann til að hugsa um hvernig maður myndi bregðast við ef maður lenti í þeim sporum að fá stelpuna sína heim lúbarða eftir einhverja stelpufanta. Það er alveg á hreinu hvernig ég myndi bregðast við.

Mér finnst umræðan um mögulega aðils Íslands að Evrópusambandinu vera alltof einfeldningsleg. Það á að bjarga öllu að margra mati ef við göngum í ESB. Því munu vafalaust fylgja kostir en einnig gallar. Nú heyrist ekki minnst á matvælaverð í ESB. Það skyldi þó ekki vera svo að samanbururinn væri óhagstæður um þessar mundir. Af hverju má það ekki koma opinberlega fram? Það vantaði ekki að það væri tuggið afturábak og áfram hvað matvælaverð væri miklu lægra innan ESB meðan gengi krónunnar var mjög sterkt. Ég er alveg sammála Ástþóri Magnússyni um að staða krónunnar er mælikvarði á stjórnun efnahagsmála. Hún fær ekki fallega einkunn. Ef við tækjum upp Evru í dag þá ætti fólk að prófa að deila í launin sín með 170 og reyna að átta sig á hvernig kaupmátturinn yrði á Evrusvæðinu. Maður heyrir í fréttum að erlent ferðafólk kaupir miklu meira hérlendis en áður vegna þess hve gengið er hagstætt fyrir það. Staðan er akkúrat öfug fyrir okkur hvað kaupmáttinn varðar. Atvinnuleysi á Evrusvæðinu er að jafnaði hærra en hérlendis. Það er ekki flóknara en svo.

Ég hljóp ekkert í dag og hvíli einnig á morgun. Fékk smá tognun í hnéð í gær út af engu. Það er réttast að hafa vaðið fyrir neðan sig og ná þessu góðu. Ég skrapp út á Álftanes í dag og myndaði margæsirnar. Þær eru að fita sig fyrir flugið til Grænlands. Krían er komin á nesið. Toppendurnar voru á svipum stað og síðast en það var alltof hvasst til að hægt væri að eiga við þær. Það hefur verið leiðinlegt að skoða fugla undanfarna daga vegna rigningar. Það birtir vonandi um næstu helgi. Þá förum við austur í Friðland í Flóa með Jóhanni Óla. Það verður spennandi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur
og takk sömuleiðis fyrir samskiptin þó skammvinn væru.
Um þetta blogg: Ég hefði getað skrifað þarna hvert orð frá eigin brjósti -- nema um hlaupin. Ég er því miður lélegur í þeim. Líka í öðru hnénu, líklega til að tryggja að ég fari ekki að reyna mig neitt á hlaupum.
Góð kveðja
Sig. Hr.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir kveðjuna Sigurður. Gaman að heyra frá þér.
Mbk
Gunnlaugur