Mér gæti dottið í hug að kaupa mér nýtt einbýlishús. Það gæti kostað á bilinu 100 - 200 milljónir til að gera þetta almennilega. Allir í fjölskyldunni yrðu mjög ánægðir að koma í innflutningsveisluna og myndu hrósa mér fyrir hvað húsið væri flott. Enginn myndi spyrja hvað það hefði kostað til að spilla ekki stemmingunni. Mér væri hrósað fyrir að vera orðinn eigandi að alvöru húsi og vera ekki lengur að kúldrast í einhverri blokkaríbúð eða hvað það nú væri. Það þyrfti hins vegar mikið til að ég myndi ráða við að borga af húsinu en ég segði náttúrulega engum frá því utan fjölskyldunnar til að það félli ekki kusk á stemminguna. Staðan væri hins vegar sú að ég myndi ekki lengur hafa efni á að eiga bíl, það yrði ekki farið í neina sumarleyfisferð næstu 10-15 árin, fjölskyldan yrði að vera í gömlu fötunum dálítið lengur og það yrði aldrei farið út að borða og einungis keypt það ódýrasta í matinnn um óráðna framtíð. Þegar krakkarnir færu að mögla við þessi tíðindi þá myndi ég spyrja hvort það skipti þau engu máli að búa í flottu húsi og síðan myndu þau erfa það þegar ég væri dauður. Að vera ekki ánægður í þessari stöðu væri bara vanþakklæti.
Mér datt þessi samlíking í hug þegar ég heyrði viðtal við Hjálmar Ragnarsson í útvarpinu fyrir skömmu þegar hann spjallaði við fréttamann um Hörpu. Hann er einn af sárafáum sem hefur talað af raunsæi um bygginguna og afleiðingar þeirra ákvarðana að hefja bygginguna og ljúka henni síðan. Hann segir eðlilega að það sé allt útlit fyrir að lista- og menningarlíf fái minni fjármunum úr að spila um ókomna framtíð vegna þess hve Harpa sé dýr. Hann sér ekki fram á að Listaháskóli Íslands fái nýtt húsnæði á næstu árum. Hann sagði einnig að það væri ríkjandi ákveðin þöggun í samfélaginu um þá óskaplegu fjárm uni sem húsið kostar. Svo kostar eitthvað að reka ósköpin. Fyrir þvi er sjaldnast hugsað í upphafi.
Í Hörpu eru tæp 3000 sæti í þremur sölum ef ég hef reiknað rétt. Byggingarkostnaður fyrir hvert sæti eru 10.000.000 krónur - tíu milljónir króna- Áhugafólk um byggingu tónlistarhúss hefur safnað peningum í tæp þrjátíu ár til að fjármagna byggingu svona húss. Á þeim tíma eru þeir búnir að safna peningum sem nemur kostnaði við að byggja yfir 14 sæti. Nú ætla þeir samkvæmt fréttum ekki að leggja þessa peninga sína í bygginguna heldur á að stofna með þeim sjóð til að fjármagna viðburði. Síðan hefur þessi hópur ákveðið að þeir sem hafa sett nokkur hundruð kall á mánuði í byggingu tónlistarhúss eiga að fá frímiða á tvær sýningar á ári án þess að leggja eyrisvirði til byggingarinanr samkvæmt fréttum. Það er ágæt ávöxtun fjármuna fyrir áhugafólk um fagra tónlist.
Á vef arkitektafélags Íslands er að finna vægast sagt hrollvekjandi frásögn varðandi byggingarfræðileg efni. Á þeim bæ hafa ýmsir miklar áhyggjur að ryðgun járngrindarinnar sem heldur glerinu uppi en það er ógalvaniserað. Það vita allir sem vilja vita að ógalvaniserað jánr ryðgar og tærist. Umverfið við sjóinn er ekki heilnæmasta umhverfið fyrir óvarið járn. Þetta er skelfilegt ef rétt reynist. Byggingarmeistari sem þekkir glerísetningar mjög vel hefur áhyggjur af því að líming glersins á ryðskellótta og ryðslegna fletina yrði mjög erfið ef hún myndi nokkuð heppnast. Ryk og salt eru ekki beint góðir faktorar þegar viðloðun þarf að vera góð. Ég heyrði viðtal við tvo arkitekta í útvarpinu fyrir skömmu. Þeir sögðust þora að segja sína skoðun á byggingunni þar sem þeir væru komnir á eftirlaun og væru því engum háðir. Þeir sem þurfa að harka út verkefni þora ekki að láta í sér heyra fyrir nokkurn mun.
Það er ekkert gott að vera svartsýnn en það er nauðsynlegt að vera raunsær.
miðvikudagur, maí 18, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli