mánudagur, maí 09, 2011

Að undanförnu hafa samtök sem segjast berjast fyrir velferð dýra haft sig nokkuð í frammi. Talsmenn þess hafa meðal annars haft á orði að öll dýr sem alin eru til manneldis eigi að hafa möguleika á að komast undir bert loft. Í þessu sambandi er talað um haughænsni og frjáls svín. Nú ætla ég þessu fólki ekki annað en að því gangi gott ett til og ekki skyldi maður draga úr gildi dýraverndar og nauðsyn þess að farið sé vel með dýr. Það verður þó að hafa skynsemi í umræðunni ef menn áannað borð ala dýr til manneldis en fáir valkostir virðast vera til í stöðunni hvað það varðar. Þegar ég var að alast upp þá voru egg munaðarvarningur. Það voru til nokkrar hænur á öllum bæjum í sveitinni. Ég minnist þess að fólk á Patró voru í áskrift að eggjum og fengu sent box með mjólkurbílnum annað slagið. Það var almennur eggjaskortur í samfélaginu. Þegar farið var til Reykjavíkur þá var gjarna tekið eggjabox með til fjölskyldunnar sem gist var hjá . Það var varla hægt að færa fólki betri gjöf en egg til að geta bakað úr. Þetta breyttist allt þegar farið var að setja upp fjöldaframleiðslu á eggjum að erlendri fyrirmynd. Þá varð allt í einu til nóg af eggjum og egg lækkuðu mikið í verði. Þau urðu ódýr dagvara í stað dýrrar munaðarvöru. þegar fólke rað tala um að það eigi öll hænsni að geta farið út undir bert loft þá er það að segja að það eigi að hverfa aftur til þeirra tíma sem ég var að lýsa. Ef einhver efast þá er hægast að horfa á myndina Dalalíf eftir hinn stóryrta kvikmyndagerðarmann Þráinn Bertelsson.
Á þessum sama tíma var svínakjöt varla til. Skinka og hamborgarahryggir voru fyrst og fremst til á borðum þeirra sem höfðu aðgang að sjómönnum sem sigldu til útlanda. Sama má segja um kjúklinga. Þetta breyttist einnig með innleiðingu stórframleiðslu í alifugla- og svínarækt. Ef á að gera það að skilyrði að þessar skepnur eigi að geta farið út undir bert loft dag hvern þá er það bein ávísun á matarskort í mörgum löndum. það er ekki hægt að hleypa þessum skepnum út undir bert loft nema á mjög litlum búum. Slík bú munu aldrei geta fullnægt fæðuþörfinni. Draumórar geta verið falleg framtíðarsýn en veruleikinn er oft barskur þegar staðið er frammi fyrir honum. Það er á hinn bóginn pirandi að þessari umrælðu skuli vera hleypt gagnrýnislaust í fjölmiðla þar sem fimbulfambað er aftur á bak og áfram án nokkurrar þekkingar á því sem verið er að tala um.

Ég sé af og til í fjölmiðlum annarra norrænna síkja að þar er af og til verið að handtaka glæpamenn sem hafa fengið hæli sem pólitískir flóttamenn í þessum löndum undir fölsku flaggi. Gjarna er þarna um að ræða einstaklinga frá Rúanda og Balkanlöndunum. Ef upp um slíka kóna kemst þá eru þeir látnir mæta réttvísinni því fortíðin verður ekki af þeim þvegin. Hérlendis hafa fréttir af írana nokkrum ratað í fjölmiðla af og til á undanförnum misserum sem var ósáttur við þá afgreislu sem mál hans fékk í kerfinu. Hann fór síðan óvarlega með bensínbrúsa á dögunum og spratt af því nokkur fjölmiðlaumræða enn á ný. Ýmsir halda því fram að það sé einvörðungu að kenna vanhæfni og stirðbusaskap íslenskra stjórnvalda og tilheyrandi stofnana að þessi maður skuli ekki hafa verið borinn á gullstól inn í íslenskt samfélag og hafa haft stór orð þar um. Ég les í fjölmiðlum að hann hafi unnið sem hlerari hjá írönsku leyniþjónustunni í hartnær 20 ár. Til hvers er íranska leyniþjónustan að hlera síma? Ég efa að það sé gert í álíka tilgangi eins og var gert í sveitinni fyrir daga sjálfvirka símans þegar menn lyftu gjarna tóli til að kanna hvað nágranninn var að bjástra ef hann talaði við einhvern annan. Íranska leyniþjónustan er að láta hlera síma til að komast að því hverjir eru hættulegir öryggi ríkisins. Ef grunur fellur á einhvern á þeim nótum þá er látið til skarar skríða. Það væri fróðlegt að vita hve marga þessi maður hefur böstað með símhlerunum á nær 20 ára tímabili. Þegar ég bjó í Uppsölum í Svíþjóð þá kynntist ég mörgum írönum sem voru á flótta undan leyniþjónustunni í heimalandi sínu. Ætli það hafi verið vegna þess að kollegar þessa manns hafi heyrt eitthvað misjafnt í símum þeirra og gert hlutaðeigandi yfirvöldum viðvart. Svo gerir þessi náungi einhver mistök og er þá böstaður sjálfur af leyniþjónustunni sem hann vann fyrir. Þá á allt í einu að fara að meðhöndla hann sem fórnarlamb í öðrum löndum. Þetta er allt saman hið versta mál og ég skil vel að hlutaðeigandi stofnun hafi ekki séð ástæðu til að veita honum dvalarleyfi sem pólitískum flóttamanni. Það er síðan stóralvarlegt mál ef á að fara að taka þessi mál einhverjum öðrum tökum en gert er í nágrannalöndum okkar eins og margir virðast vilja. Það er með þetta eins og vatnið, það leitar alltaf þangað sem fyrirstaðan er minnst.

Engin ummæli: