Það hefur mikið verið rætt um ísbirni að undanförnu og ekki að ósekju. Það vekur alltaf athygli þegar greyin þvælast hingað upp. Áður voru þeir drepnir hratt og örugglega en nú hefur meðvitaða liðið náð ákveðnum undirtökum í umræðunni. Það á að fanga ísbirni lifandi og flytja þá aftur til Grænlands að margra mati eða þá alla vega setja þá í dýragarð ef allt annað er útilokað. Loks datt þó einhverjum hjá RÚV að hringja til Grænlands og spyrja þarlenda hvernig þeir tæku í að fá týndu birnina heim aftur. Þeir höfðu eðlilega aldrei heyrt aðra eina þvælu og létu hafa það eftir sér að vitaskuld ætti að skjóta þá strax áður en þeir yllu tjóni. Verulegar líkur væru á því að þetta væru dýr sem væru hálfgerðir útlagar og ein líkegt væri að þeir yrðu drepnir þegar þeir kæmu í flokkinn aftur. Síðan er hinn hlið málsins sem ekki er hægt að útiloka en það er sjúkdómahættan. Ísbjörn sem væri fluttur heim gæti flutt með sér sjúkdóma sem ísbjarnarstofninn væri veikur fyrir. Á slíku er ekki tekin nein áhætta. Verst af öllu er þó að setja þessi grey í dýragarð. Maður sér varla ömurlegri sjón er ísbjörn í dýragarði. Þá er nú betra að vera skotinn á staðnum.
Harpan er vígð í dag og mikið um dýrðir. 28 milljarða kostar dæmið. Þar af lentu rúmir 10 ma. kr. á erlendum lánardrottnum við bankahrunið en nóg er nú samt. Ríki og borg þurfa að greiða 800 miljónir króna á ári næstu 30 árin, einungis vegna hússins. Eitthvað ætti nú að vera hægt að fá fyrir öll þessi ósköp og skyldi engan furða þótt húsið væri sæmilega úr garði gert. Stór hluti vinnulaunanna við húsbygginguna hefur reyndar farið lóðbeint til Kína. Síðan er að reka ósköpin. Það verður þrautin þyngri. Í Fréttablaðinu í dag var gerður athyglisverður samanburður á stærð óperu- og tónlistarhúsa á Norðurlöndunum. Það er athyglisverður samanburður. Þar kemur náttúrulega í ljós að fámennasta landið reisir stærsta húsið. Í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi búa svona 1,0 milljón manns. Með nærsveitum er hægt að segja að upptökusvæði sé um 1,5 milljónir manna. Í Osló og Helsinki búa 5-600 þúsund manns og með nærsveitum fer upptökusvæðið upp í 1,0 milljón manna. Í Reykjavík búa 120 þúsund manns og með nærsveitum fer talan upp í 160-180 þúsund manns. Engu að síður er hér byggt stærsta húsið. Er það skrýtið að efnahagsmálin séu eins og þau eru?
Víkingur vann Þór í Víkinni í gærkvöldi. Fínt að vinna fyrsta leik. Það gefur tóninn á ákveðinn hátt inn í sumarið. Það væri gaman ef liðið spryngi út í sumar.
miðvikudagur, maí 04, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli