sunnudagur, maí 01, 2011

Ýmislegt hefur gert það að verkum að það hefur lítið verið bloggað að undanförnu. Það er eins og gengur að stundum er maður ekki í stemmingu til að setjast niður og skrifa og það er bara eins og það er. Svona skrif eiga ekki að vera kvöð heldur eitthvað sem maður hefur gaman af og langar til að gera.

Við Sigrún vorum uppi á Hótel Hamri um helgina. Þar var 40 ára reunion hjá búfræðingum sem útskrifuðust frá Hvanneyri vorið 1971. Það var góð mæting eða rúmlega 30 manns. Góð stemming var í hópnum og suma var maður að sjá í fyrsta sinn eftir þennan tíma. Aðra hafði ég séð einu sinni en aðra oftar eins og gengur. Flestir komu á föstudagskvöldið og það var setið og spjallað fram á nótt. Eftir hádegi var farið upp að Hvanneyri með Sæmundi hinum eina sanna sem keyrði okkur marga ferðina um héraðið fyrir 40 árum. Þá hefur hann verið ungur maður á fertugsaldri þótt okkur þætti hann vera ansi fullorðinn. Haukur bróðir tók á móti okkur á
Hvanneyri en hann er einn þriggja sem eru búsettir þar sem voru okkur samtíða í námi eða störfum. Hann leiddi okkur um staðinn og svo var drukkið kaffi og smá gjöf afhent. Það kakkaði snjó niður um nóttina og morguninn. Ég hafði hugsað mér að nota tækifærið og hlaupa Hvanneyrarhringinn þ.e.a.s. frá Hamri upp að vegamótum. síðan sem leið liggur eftir gamla veginum yfir Hvítárvallabrúna, heim undir stað og síðan yfir Andakílsárbrúna, fram hjá Skeljabrekku og svo sem leið liggur niður í Borgarnes og upp að Hamri. Ég lagði því af stað um kl. 6:00 um morguninn í slydduníði en það kom út á eitt, hringurinn skyldi farinn. Einu sinni á Hvanneyrarárunum hafði mér dvalist í Borgarnesi eftir ball og en lagði þó af stað upp að Hvanneyri síðla nætur og ætlaði að húkka mér far uppeftir. Það fór hins vegar svo að það stoppaði enginn bíll fyrir einmana göngumanni. Þegar nokkuð var orðið áliðið var ég orðinn fúll, hætti að veifa og gekk það sem eftir var og kom uppeftir undir morgun. Þetta þótti fáheyrt afrek að ganga alla leið neðan úr Borgarnesi. Nú skokkaði maður þetta í rólegheitum og túrinn upp að Hvanneyri tók ekki nema rúmlega einn og hálfan tíma. Það sem kom mér mest á óvart hvað þetta er stutt!! Alls var ég um 3 klst. að fara hringinn allann.
Í gærkvöldi var síðan fínn kvöldverður í hótelinu. Þar voru rifjaðar upp gamlar og góðar minningar sem margar voru gleymdar. T.d. var það rifjað upp þegar Varmalandsstelpurnar voru einu sinni sem oftar í heimsókn og rafmagnið fór allt í einu á miðju ballinu. Því var bjargað einhvern veginn og daginn eftir var farið að skoða hvað olli. Þá hafði köttur komist inn í spennistöðina, leitt á milli og stiknað en um leið sló út. Þegar ástæða rafmagnsleysisins var kunn þá létti þungu fargi af einum skólapilta því honum hafði verið mál á miðju balli og ætlað að fara á klósett niðri. Þau voru öll full svo hann fann afdrep þar sem rafmagnstaflan var og létti á sér þar úti í horni. Þegar bunan rann sem best fór rafmagnið. Hann vissi ekki annað en að sökin á útslættinum væri hans og létti því mikið þegar kötturinn fannst.
Fjórir félaganna eru dánir og er það nokkuð stór hluti úr ekki stærri hóp. Þetta var góður hópur sem hefur skilað af sér öflugum einstaklingum almennum búskap, í félagsmálum, í hestamennsku og hrossarækt, í verslun og viðskiptum, leiðbeiningaþjónustu og í fræðastörfum o.s.frv. o.s.frv. Það er síðan ekki sjálfgefið að fólk hafi gaman af því að hittast eftir svona samveru. Ég heyrði nýlega af því að árgangurinn sem var á undan okkur á Hvanneyri hafi einu sinni gert tilraun til að hittast en þá komu fáir og það hefur ekki verið reynt síðan.
Ég tók saman nokkrar myndir frá vetrinum og setti á Powerpoint show. Við fórum yfir þær síðla kvölds í gærkvöldi. Þótt myndirnar séu ekki eftir ströngustu kröfum dagsins í dag þá var mikið hlegið þegar þær vöktu upp ýmsar gleymdar en góðar minningar. Við renndum svo í bæinn undir hádegi eftir góða helgi í efra.

Engin ummæli: