sunnudagur, maí 15, 2011

Það var haldinn fínn fundur í 100 km félaginu á fimmtudagskvöldið. Sjö nýir félagar voru teknir inn þannig að nú eru það samtals 35 sem hafa hlaupið 100 km eða lengra. Það eru tæp sjö ár síðan við Ágúst, Siggi Gunnsteins, Svanur og Pétur Reimars stofnuðum félagið í Vesturbæjarlauginni. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið gerst í þessum málum. Alls eru 20 hlauparar skráðir í 100 km hlaupið sem fer fram þann 11. júní n.k. Margir þeirra tóku síðustu löngu æfinguna í kringum Þingvallavatn á laugardaginn og er það mál manna að staðan sé mjög góð hjá hópnum. Það verður spennendi að sjá hernig útkoman verður og vonandi verður veðrið ásættanlegt. Það skiptir miklu málið varðandi framkvæmd hlaupsins, líðan hlaupara og árangur.

Ég fór norður í Þingeyjarsýslu á föstudaginn og kom til baka í gær. Það er gaman að fyljgast með fuglalífinu í grennd við veginn. Svo merkilegt sem það er þá finnst mér vera munur á því í Borgarfirði og Vestur Hún annars vegar og Austur Hún, Skagafirði, Eyjafirði og Suður Þingeyjarsýslu hins vegar. Maður sér varla fugl við veginn fyrr en komið er austur fyrir Blönduós. Það má vera að það sé tilviljun en minkurinn getur svo sem einnig skipt máli. Bóndi í Þingeyrjarsveit sagði mér að þeir hefðu gert sérstakt átak í minkaveiði fyrir nokkrum árum síðan og teldu sig hartnær hafa útrýmt minknum úr sýslunni. Vetrarveiðin skipti mestu máli í þessu sambandi. Hann sagði að þeir sæu mikinn mun á hve fluglalífið hefði tekið miklum framförum við þessa aðgerð. Svo mikið er víst að ég sá flórgoðapar í vatninu í Ljósavatnsskarði en það hef ég aldrei séð áður þar. Á ég þó ófáar ferðirnar þar um. Einnig sá ég flórgoðapar í langadalnum í Austur Hún. Það hef ég heldur aldrei séð áður. Á föstudaginn skrapp ég upp að Mývatni og snuddaði þar um með myndavél í nokkra stund. Það er alltaf jafngaman að koma þangað á þessum tíma. Ég ætlaði að vera lengur en veðrið var leiðinlegt á laugardaginn, kuldarigning og vindur, svo ég lét mig hafa að fara suður fyrr en ég ætlaði.

Mér finnst ánægjulegt að heyra að einstaka maður heur tilfinningu fyrir þeim óhemju kostnaði sem lagður hefur verið í tónlistarhúsið Hörpu. Það setur hlutina svolítið í samhengi að áhugamenn um byggingu tónlistarhúss hafa safnað peningum í 28 ár. Þeir hafa náð að nurla saman 140 milljónum eða um 5 m.kr. á ári. Einungis hjúpurinn utan um húsið kostaði 20 sinnum meira. Þessi hópur hefði sem sagt verið um 600 ár að safna fyrir glerhjúpnum og þá voru einungis 10% kostnaðar komin. Það hefði tekið hópinn 6000 ár að safna fyrir húsinu öllu. Snobbið í kringum þetta er síðan eins og við er að búast, boðslistar leyndarmál, o.s.frv.

Það er að sýna sig eins og margir þóttust vita að í stefndi að þróun glæpahópa er að renna í nákvæmlega sömu átt hérlendis og hefur gert í öðrum norrænum ríkjum. Lögreglan í nágrannalöndum okkar er vopnuð. Hér ber lögreglan einungis kylfur. Þegar Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra vakti máls á því að láta lögregluna fá rafbyssur þá ætlaði meðvitaða liðið vitlaust að verða. Hvað á að bíða lengi eftir því að bregðast við eins og ástæða er til? Þarf að drepa lögreglumann svo menn horfist í augu við raunveruleikann. Það er verið að tala um átök milli Hells Angles og Outlaws. Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn á árunum 1980-1983 þá voru þar tvö mótorhjólamannasamtök, Hells Angles og Bullshit. Bullshittarnir voru úti í Kristianíu en englarnir á Nörrebro. Milli þeirra voru sífelldar erjur og átök. Svo fór að foringi Bullshitt var skotinn af engli sem flúði síðan úr landi. Hann gaf sig svo fram, sat inni nokkur ár og er nú foringi englanna. Stríðinu lauk svo með því að Hells Angles drápu því sem næst alla Bullshittana og þurrkuðu flokkinn út.

Ég hljóp góðan túr í morgun fyrir Gróttu í góðu veðri. Eftir hádegi fórum við Jói í fuglaskoðunarferð með Fuglavernd um land Elliðavatnsbæjarins. Það var gaman að kynnast nýjum skoðunarslóðum því nú er allt að gerast í fuglalífinu. Við sáum meðal annars Glókoll en hann hef ég ekki séð áður. Þaðrf að fara aftur þarna uppeftir til að reyna að ná mynd af honum í bjartara veðri.

Engin ummæli: