sunnudagur, júní 12, 2011

Ég er ánægður með ýmislegt í kringum 100 km hlaupið í gær fyrir utan hinn frábæra árangur sem náðist í hlaupinu. Hann sýnir fyrst og fremst hvaða framfarir eru að eiga sér stað í þjálfun og reynslu í ofurhlaupum. Okkar fólk stendur kollegum sínum í öðrum norrænum ríkjum fyllilega á sporði í þessum efnum. Síðan er hægt að tiltaka eitt og annað í umgjörð hlaupsins sem er rétt að halda til haga. FRÍ stóð fyrir námskeiði í vegalengdarmælingu götuhlaupa um miðjan maí. Þeir Stefán Örn, Kristján Ágústsson og Guðmundur Magni sóttu námskeiðið með fleirum. Stefán og Guðmundur mældu vegalengdina fyrir hlaupið eftir kúnstarinnar reglum. Nú er enginn vafi á að hún er löglega mæld. Það er ein forsenda þess að FRÍ leggur blessun sína yfir að hlaupið sé formlegt íslandsmót í 100 km hlaupi.
Annar hlutur sem ég er ánægður með er hvað mikil samstaða var í stjórn 100 km félagsins um að fara eftir almennt gildandi reglum um framkvæmd slíkra hlaupa og hætta þessari séríslensku "svona nokkurnvegin" framkvæmd. Sú umræða hefur skotið upp kollinum af og til á undanförnum árum að hlaup séu ekki síður skipulögð fyrir þá sem ekki taka þátt í þeim heldur en fyrir hlauparana sjálfa. Of margir hafa átt erfitt með að skilja að það sé í trássi við almenna framkvæmd hlaupa að utanaðkomandi aðilar hlaupi með hlaupurum í keppni og aðstoði þá á brautinni eftir fremsta megni. Þá er átt við að halda á eða hjóla með drykki og vistir þeim við hlið, hlaupa með þeim og hvetja þá til dáða eða brjóta vind. Rökin hafa m.a. verið þau að þetta sé svo gaman að það eigi að láta ánægjuna vera í fyrirúmi frekar en formfestu og reglur. Í ákveðnum tilvikum hefur þetta leitt af sér leiðindi og pirring. Við í stjórn félagsins vorum sammála um að vísa öllum slíkum órum út í hafsauga og hafa framkvæmdina klára og kvitta, öll aðstoð við hlauparana í brautinni væri óheimil. Skipti þá ekki máli hverju hún nefndist eða í hvaða formi hún væri. Vitaskuld eru hlauparar aðstoðaðir ef við liggur öryggi þeirra eða heilsa en þeir detta þá sjálfkrafa út úr hlaupinu. Þegar upp er staðið eftir hlaupið sést glöggt hvílíkt lán það var að við tókum þessa ákvörðun sem vitaskuld er sjálfsögð og eðlileg í flestra huga. Sigurjón smeygði sér undir 8 klst og hefur af því mikinn sóma. Það er hægt að ímynda sér hvernig umræðan væri ef hann einn hlaupara hefði fengið aðstoð í brautinni af félögum sínum utan hlaupsins sem hefðu brotið fyrir hann vindinn svo dæmi sé nefnt. Þá væri náttúrulega farin af stað umræða um að tíminn væri ekki marktækur vegna þess að honum hefði verið hjálpað og svo framvegis. Nú á hann þennan árangur alveg einn og skuldlaust. Eins má taka dæmi af Gunnari og Jóhanni Gylfa. Ef Gunnar hefði fengið mikla aðstoð í hlaupinu af utanaðkomandi aðilum við að brjóta vindinn en Jóhann mátt strita einn og óstuddur þá veit maður nákvæmlega hvernig væri talað. Vitaskuld er það ekki jöfn keppni ef einn fær aðstoð í brautinni frá utanaðkomandi aðilum en annar ekki. Sama gildir hvar í röðinni menn eru. Nú er allt á hreinu, reglur voru skírar og hver og einn getur glaðst yfir unnu afreki sem hann á algerlega skuldlaust. Slíkar reglur eru nefnilega notaðar fyrst og fremst hlauparanna vegna svo þeir losni við alla eftirmála og leiðindi vegna lausataka í framkvæmd hlaupa.
Að lokum er það staðsetningin. Vitakskuld má alltaf finna að öllum hlutum og ég veit að brautin út með flugvellinum og Ægissíðu getur verið vindasöm. Hins vegar er ekki auðvelt að finna braut sem hentar okkur fullkomlega undir svona hlaup. Kostir við að halda hlaupið á þessum stað eru hins vegar ýmsir. Afar gott er að geta fengið kafarahúsið til að nota sem meginbækistöð. Þar er allt til alls og hægt að hantera hluti eftir þörfum. Við erum laus við alla bílaumferð sem er kostur. Að lokum er enn eitt sem ég áttaði mig ekki á fyrr en í gær. Það kom miklu fleira fólk sem horfði á hlaupið og hvatti hlauparana en ég hafði búist við. Þegar Sigurjón lauk hlaupinu var hellingur af fólki á staðnum sem fagnaði honum á lokasprettinum. Sama var þegar næstu menn komu í mark. Slíkt setur mjög skemmtilegan svip á alla umgjörð hlaupsins og gerir það eftirminnilegra og ánægjulegra fyrir þá sem eru að ljúka vel unnu dagsverki. Þessir hlutir skipta nefnilega máli líka.

3 ummæli:

Eva sagði...

Ánægð með ykkur :)

Nafnlaus sagði...

Ég held að þetta sé hárrétt ákvörðun hjá ykkur. Þegar menn gefa eftir í reglunum er hættan alltaf að mönnum finnist gefið eftir í afrekunum.

Sennilega var staðsetningin ekki svo vitlaus. Ég náði alla vega að líta við þó ég væri á hraðferð seinni partinn. Gaman að sjá að það var nokkur hópur þarna.

Brynjólfur Þór

Starri Heiðmarsson sagði...

Sæll Gunnlaugur og takk fyrir frábæra umgjörð um hlaupið.
Ég veit ekki um aðra þátttakendur en mér fannst brautin góð fyrir þetta hlaup. Það var auðvelt að sjá fyrir endann á hverjum legg og þó að 20 hringir séu nokkuð margir þá er það lítið mál sé miðað við að hlaupa t.d. hálft maraþon á braut sem ég hef einu sinni gert í æfingaskyni til að hækka hjá mér leiðindaþröskulinn;-)
Veðrið slapp nú furðanlega til og þar er víst aldrei á vísan að róa hérlendis.