laugardagur, júní 11, 2011

Félag 100 km hlaupara stóð fyrir þriðja 100 km hlaupinu á Íslandi í dag. Þátttakendur sem lögðu út voru alls 17. Það er fínn fjöldi miðað við þátttöku í 100 km hlaupum í okkar nágrannalöndum. Við mættum út í Nauthólsvík um kl. 6:00 í morgun. veðurútlitið var svolítið krítiskt, strekkingsvindur og dimmur til suðursins. Það gat rignt. Við drifum í að gera klárt, bæði í Nauthól og eins út á snúningspunkti sem var úti við Suðurgötu. Mældur hafði verið 2,5 km leggur sem skyldi hlaupinn 20 sinnum fram og til baka. Það voru nokkur tímamót með þessu hlaupi þar sem Frjálsíþróttasamband Íslands viðurkenndi hlaupið formlega sem íslandsmeistaramót. Það er góður áfangi í þeirri vegferð að koma ofurhlaupum á kortið hérlendis sem viðurkenndri íþróttagrein sem þau vitaskuld eru. Tregðulögmálið hefur hins vegar verið til staðar á þessu sviði eins og víða annarsstaðar en þetta er allt að koma. Hlaupararnir voru ræstir kl. 7:15 eða þar um bil. Sigurjón tók forystuna strax en Trausti, Jóhann og Gunnar fylgdu hinum eftir. Fljótlega eftir að ræst var þyngdi upp og það fór að rigna ofan í allstífan vind. Okkur leist ekki á blikuna ef það ætti eftir að ganga á með slagviðri. Maður var vongóður þegar sást að skúrin náði rétt inn yfir Reykjavík og vonaði það besta. Svo stytti upp en svo fór aftur að rigna. Þá báðum við Jóa að koma með tjaldið og skelltum því upp og settum dót keppenda þar inn. Það stóð á endum að þegar tjaldið var komið upp þá hætti að rigna og það fór vel með veður. Það lægði heldur þegar kom fram undir hádegi og varð þegar upp var staðið hið bærilegasta veður. Undir lokin var komið logn og hlýviðri. Trausti og Kalli Gísla hættu um mitt hlaup. Trausti var ekki búinn að ná sér af flensu sem hann fékk nýlega og Kalli hafði orðið fyrir meiðslum sem hrjáðu hann. Við fylgdum eftir stífum reglum um að það mætti ekki aðstoða hlauparana í brautinni. Það tókst vel og er alveg nauðsynlegt. Þessar reglur eru fyrst og fremst settar vegna hlauparanna sjálfra. Það er ekki gaman að hafa náð góðum árangri en hafa á bakinu skvaldrið um að viðkomandi hafi verið hjálpað með aðstoð í brautinni umfram það sem aðrir hlauparar fengu. Reglur þess efnis hreinsa allt slíkt út. Sigurjón lauk hlaupinu á frábærum tíma eða 7.59.01. Hann hafði sett sér það markmið að ná undir átta klst og gerði það glæsilega. Þessi árangur er frábær á tvennan hátt. Bæði er tíminn mjög góður miðað við að aðstæður voru svo sem ekkert sérstakar framan af hlaupinu, strekkingsvindur hjálpar aldrei til þegar hann er á móti. Síðan er Sigurjón ekkert unglamb en hann er 55 ára gamall. Þessi tími setur hann 77. sæti á heimslista það sem af er árinu. Einungis einn maður sem er á sama aldri og Sigurjón eða eldri hefur hlaupið á betri tíma á þessu ári en það er rúmlega sextugur þjóðverji. Síðan er farið að aldursleiðrétta árangur í stöðluðum ofurhlaupum. Þegar það hefur verið gert er árangur Sigurjóns örugglega meðal tíu bestu ef ekki meðal fimm bestu það sem af er árinu. Það kemur í ljós þegar síðuhaldarar hafa fengið árangur í hlaupinu í hendur. Slóðin á þessa afrekaskrá er á síðunni minni. Árangur hans er sjötti besti árangur allra á Norðurlöndum á árinu. Gunnar Ármannsson varð síðan annar á fínum tíma eða á 8.52.40 og Jóhann Gylfason örskammt á eftir á tímanum 8.56.35.
Sæbjörg Logadóttir sló rækilega í gegn þegar hún lauk hlaupinu á 9.12.42 í sínu fyrsta 100 km hlaupi utanhúss. Hún hafði áður hlaupið 100 km á bretti fyrir einu og hálfu ári. Tími Sæbjargar er 35. besti árangur kvenna í 100 km hlaupi í heimi á árinu og fjórði besti árangur kvenna á Norðurlöndum. Elín Reed var önnur á 9.44.51 sem er mikil bæting hjá henni. Þessi árangur sýnir hvað við eigum mikið afreksfólk í ofurhlaupum hérlendis. Árangur hefur batnað mikið og breiddin aukist. Þeir sem síðar komu luku hlaupinu á góðum tímum og í góðum gír. Dagurinn var fínn þegar upp var staðið, góður árangur og fín framkvæmd. Gísli aðalritari sat í framsætinu á bíl sínum allan daginn, skráði tíma og setti á vefinn. Það er frábært að geta útvarpað því sem framvindur samstundis. Teljarar sýndu að var vel fylgst með hlaupinu yfir daginn en yfir 10.000 flettingar komu inn á fréttir af því. Íslendingar hafa áhuga á ofurhlaupum. Öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd hlaupsins skal þökkuð öll aðstoðin svo og hlaupurunum sem hafa lagt sig fram um æfingar og uppskáru nú ríkulega.

Engin ummæli: