fimmtudagur, júní 16, 2011

Ég fór til Parísar um daginn sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. París er alvöru stórborg og fer ekki á mili mála að hún hefur verið höfuðborg heimsveldis. Sveitarstjórnarmenn voru hrifnir af Haussmann, fyrrverandi borgarstjóra Parísar. Það var maður sem vissi hvað hann vildi. Á tímum hestvagna lét hann gera 12 breiðstræti í París sem enn standa undir því nafni. Þau koma saman við Sigurbogann. Tilgangur þess að gera þessi breiðstræti var að geta sent riddaraliðið nógu hratt og örugglega á vettvang ef upp komu óeirðir í borginni. Eftir að breiðstrætin voru lögð þá hara ekki orðið uppreisnir í París sem neinu nemur, einhverjar óeirðir en ekkert alvöru. Ég tók góðan hlauparúnt flesta dagana sem leið lá niður á Concordetorgið, á upp að Sigurboganum, síðan niður að Effelturninum, þá yfir að herminjasafninu, yfir Signu og á Concordetorgið aftur og svo upp á hótel. Fínn rúntur. Veðrið var eins og best var á kosið, sól og hiti. Þegar við fórum fór að rigna sem var eins gott því það hafði ekki rignt frá því í aprílbyrjun.

Þegar ég fer í svona ferðir þá tek ég með mér bækur að lesa. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað að lesa á kvöldin og í milliferðum, sérstaklega þar sem maður skilur lítið í sjónvarpinu. Ég tók með mér tvær bækur, önnur var Rosabaugur Björns Bjarnasonar og hin var bókin "Engan þar að öfunda" sem segir frá lífsbaráttu nokkurra einstaklinga í Norður Kóreu á hungurtímanum. Báðar þessar bækur eru eftirminnilegar og betur lesnar en ólesnar. Við lestur á Rosabaugnum áttar maður sig á þvi hvað minnið er svikult. Margt gleymist fljótt þótt að ekki langt um liðið síðan ákveðnir atburðir áttu sér stað. Björn hefur unnið þarft verk við að draga fram og raða saman þeim bitum í púsluspil þeirrar samtímasögu sem er undanfari Baugsréttarhaldanna. Í bókinni kemur fram um hvað þau snerust, umræðuna sem fór fram á meðan á þeim stóð og hvernig þeim lyktaði. Baugur hefur leikið það stórt hlutverk í íslandssögunni á síðustu 20 árum að það er þakkarvert að þessi saga sé skráð. Í upphafi var Bónus og Bónusfeðgarnir í nokkurskonar Hróa Hattar hlutverki. Vinir litla mannsins. Síðan breyttist margt og Rosabaugur fór að myndast yfir Íslandi. Viðskiptasaga Baugs þróaðist út í samsuðu ótrúlegra viðskiptaflækna út og suður um allt samfélagið og langt út fyrir landsssteinana. Markmiðið virtist vera að ná viðskiptalegum og stjórnmálalegum völdum á Íslandi. Býsna langt var seilst í þeim efnum og er varla nein skemmtilesning fyrir marga þá sem tengdust þessari umræðu á sínum tíma að fá söguna framan í sig í samþjöppuðu formi. Niðurstaða þess alls varð aftur á móti hrun Baugssamsteypunnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið allt. Eitt af því sem er áhugavert er að draga fram og setja í samhengi sögunnar hvernig ákveðnir einstaklingar tóku afstöðu við framgöngu málsins alls. Það bítur vafalaust nú fyrir ýmsa að lesa sín eigin skrif um málið þegar viðhorfið er orðið annað. Sá tónn sem birtist í ummælum ýmissa álitsgjafa segir betur en nokkuð annað hvað samtímasagan getur verið bitur þegar hún er leidd fram í dagsljósið. Reynt er að sneiða hjá því sem máli skiptir heldur er seilst í allar áttir til að gera sem minnst úr skrifum Björns. Mikið er gert úr því að tvö eða þrjú atriði í bókinni eru orðuð ónákvæmt og Björn hefur sagt að það verði lagfært við næstu prentun. Eins og segir í vísunni:

Lastaranum ei líkar neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt,
fordæmir hann skóginn.

Af þeim sem ritað hafa um bók Björns er honum gerðar upp þær skoðanir að hann láti stjórnast af hatri á Baugsmönnum við skrif sín. Að mínu mati áttuðu sumir sig fyrr en aðrir á hvað var að gerast og þótti nóg um þrátt fyrir að endalokin hafi orðið hrikalegri en nokkurn mann gat grunað. Birni eru gerðar upp þær skoðanir að hann sé knúinn áfram af birturleika fyrir að hafa ekki orðið flokksformaður og forsætisráðherra eins og faðir hans, Bjarni Benediktsson. Þannig reyna ýmsir að draga úr áhrifum skrifa Björns af fremsta megni með því að renna sér í manninn með tveggja fóta skriðtæklingu beint í legg. Af því fótbolti er sýndur mikið í sjónvarpinu þessa dagana þá er víst að slíkir menn fengju beint rautt ef þeir sýndu álíka hegðan inni á fótboltavellinum eins og þeir hafa sýnt á ritvellinum. Ritstjóra DV heyrði ég segja í útvarpinu að hann vissi hve oft væri minnst á hann í bókinni en hann hefði ekki lesið mikið af þvi. Ég skil hann vel.
Afar áhugavert er að fá yfirlit í samþjöppuðu formi á því hvernig fjölmimðlum var beitt markvisst og miskunnarlaust í þeim tröllaslag öllum sem Baugsréttarhöldin voru. Hverjum manni er hollt að átta sig á samhengi hlutanna hvað það varðar. Eins og öflugir fjölmiðlar eru nauðsynlegir í hverju samfélagi þá eru fjölmiðlar stórhættulegt vopn er þeim er misbeitt markvisst og meðvitað. Ekki fer milli mála að það var gert árum saman hérlendis. Mér finnst mikill fengur að bók Björns, Rosabaugi, og á örugglega eftir að lesa hana aftur og aftur. Í henni er dregið saman það mikið af heimildum sem hverjum manni er hollt að hafa þekkingu á að það er hæpið að maður nái að innbyrða það allt saman við einn yfirlestur.

Engin ummæli: