Ég skrapp vestur á Rauðasand um síðustu helgi. Ferðafélag Íslands var með gönguferð um hluta hreppsins undir nafninu "Björg og bú". Gísli Már prófessor var leiðsögumaður en hann er Látramaður og gjörkunnugur öllum hlutum þar vestra. Ég keyrði vestur á fimmtudagskvöldið en þann dag fór hópurinn inn á hlíðar og inn í námur í blíðuveðri. Ég hitti hópinn í Kirkjuhvammi. þar stendur yfir bygging íbúðarhúss fyrir staðarhaldara í Saubæ. Byggingin hafði tafist um nær því ár m.a. vegna vinnu ofanflóðanefndar sem taldi mikla snjóflóðahættu á túninu í Kirkjuhvammi. Dagurinn hófst síðan í kirkjunni í Saurbæ. Að því loknu var haldið út að Lambavatni, gengið þaðan út að Brekku og svo áfram út í Keflavík. Þar voru borðuð bjargfuglsegg og flatkökur til að draga úr líkum á sjóveiki. Björgunarsveitin beið þar með gúmmíbáta og deginum var lokað með siglingu undir Látrabjarg og endað á Látrum. Ég hafði aldrei gengið út Látrabjarg og hvað þá siglt undir bjargið svo þetta var mikil upplifun. Það var rjómablíða og við sigldum upp í harðaland hér og hvar, inn í skúta og göt á klettunum sem er víða að finna. Mikið var af fugli á sjónum og töldu heimamenn að ekki væri mikill munur á eggjum í bjarginu frá fyrri árum. Daginn eftir fórum við á bílum yfir í Geldingsskorardal. Niðurundan honum strandaði togarinn Dhoon í desember 1947. Heimamenn úr hreppnum unnu eitt frækilegasta björgunarafrek allra tíma hérlendis þegar þeir sigu niður í fjöru í háskammdeginu, björguðu mönnunum til lands og drógu þá síðan upp á bjargbrún. Alls tók björgunin þrjá sólarhringa. Það getur enginn ímyndað sér þær aðstæður sem fólkið vann við og sigraðist á.
Svo var gengið út bjargbrúnina og Gísli og Valur Helgason sem er Látramaður fræddu hópinn um aðstæður í bjarginu, sigstaði og fleira og fleira. Þetta var mjög skemmtilegur dagur í góðu veðri. Ég lagði gleraugun frá mér uppi á bjargi þegar við vorum að kíkja á fugla og áttaði mig ekki á því fyrr en komið var niður að vita. Ég mátti því skondrast uppeftir aftur og leita að þeim. Ég var mest hræddur um að hrafninn hefði gripið þau en mikið er að hrafni við bjargið. Ég fann gleraugun eftir nokkra leit og var á undan hrafninum. Um kvöldið var grillveisla í gamla fjósinu í Heimabæ. Síðasta daginn var gengið út undir Bjarnarnúp, farið í safnið á Hnjóti og horft þar á myndina um björgunarafrekið og ferðin endaði síðan í kirkjunni í Sauðlauksdal. Þetta var fín ferð sem stóð fyllilega undir væntingum. Ég ók svo suður um kvöldið.
Mér finnst ég ekki hafa hlaupið neitt sérstaklega mikið í vetur. Ég hvíldi mig vel í janúar og tók svo nokkurra vikna hlé í febrúar þegar smá vöðvaþráður slitnaði í öðrum kálfanum. Svo hef ég ekki verið að stressa mig yfir þótt nokkrir dagar hafi dottið úr hér og þar. Engu að síður er ég búinn að hlaupa því sem næst álíka mikið og þegar ég var að búa mig undir Western States hér um árið. Svona er allt afstætt.
Fréttamennskan í fjölmiðlum lætur ekki að sér hæða. Um daginn var mælst til þess að fólk léti hundana sína vera heima á 17. júní en tæki þá ekki með sér niður í bæ. Ýmsir hundar stressast upp í þrengslum og geta brugðist illa við ef ókunnugir krakkar eru að klappa þeim. Því voru þetta mjög eðlileg tilmæli. Einhverjum manni líkaði þetta ekki og gat ekki hugsað sér að taka tillit til svona tilmæla. Hann ætlaði ekki að láta einhverja andskota stjórna sér og sínum hundi. Það birtist viðtal við hann í Mogganum þar sem hann sagðist ætla að hunsa tilmælin og fara með hundinn í bæinn. Líklega hefur hann hringt í Moggann og Moggamenn náttúrulega hlaupið upp til handa og fóta eins og gert er þegar einhver er að mótmæla. Síðan birtist svo mynd af viðkomandi hundaeiganda á 17. júní niður í bæ þar sem þeir voru hinir roggnustu. Það stjórnar okkur enginn, sko. Reyndar voru þrengslin í bænum ekki svo mikil, bílastæðasjóður og lögreglan sáu til þess.
Umræða hefur skapast um þá ákvörðun að meintur barnaníðingur í Vestmannaeyjum skuli ekki hafa verið settur í gæsluvarðhald þegar í haust. Margir hafa skammast út í sýslumanninn á Selfossi fyrir að hafa ekki stungið manninum í gæsluvarðhald á síðasta ári. Í vefútgáfu DV mátti lesa nýlega í þessu sambandi: "Illugi vill að sýslumaðurinn segi af sér." Ég fór að velta fyrir mér hver þessi Illugi væri. Er þetta einhver "SúperIllugi" sem liggur undir feldi og kemur svo fram og segir álit sitt þegar hann hefur hugsað hlutina til enda. Er hann það mikið gáfaðri og skarpskyggnari en annað fólk að það þyki sérstakt uppsláttarefni í fjölmiðlum ef hann hefur hugsað eitthvað mál til enda? Skyldi sýslumaðurinn á Selfossi hafa hugsað ef hann hefur lesið uppslátt DV: "Jæja, nú er rétt að fara að pakka niður, Illugi er búinn að hugsa málið og niðurstaðan liggur fyrir. Ég hef ekkert hér að gera lengur". Ég bara spyr.
fimmtudagur, júní 30, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli