föstudagur, júní 17, 2011

Í gær sat ég nefndarfund niður í iðnaðarráðuneyti. Ég hef hlaupið í skarðið sem varamaður í umræðu um atvinnumál. Það skal ekki fjölyrt um umræður í nefndinni en eitt situr þó í mér. Ein af þeim tillögum sem lagðar voru fram í vinnuskjali var að auka mætti samband bænda og neytenda með að blndur færu að selja "Beint frá býli". Þetta þekkist víða erlendis að slík viðskipti eru hluti af ferðamennsku og gera sitt til þess að auka tengsl milli ferðamannsins og framleiðendans. Sem sagt hið besta mál. Ég sagði að þrátt fyrir að þetta væri fínt mál per ce þá þýrfti nú líklega að huga að regluverkinu því það ég þekkti til þá vissi ég að það væri ekki sérstaklega vinsamlegt slíkum smáiðnaði. Gerðar eru gríðarlegar kröfur um vottun á öllum sköpuðum hlutum af heilbrigðiseftirlitinu svo dæmi séu nefnd. Frægt dæmi er þegar staðarhaldarar í Sænautaseli á Jökuldalsheiðinni fóru að selja ferðamönnum nývolga spenmjólk á staðnum. Heilbrigðiseftirlitið bannaði slíka verslun þar sem mjólkin væri ekki gerilsneidd. Það mátti hins vegar selja glösin og gefa mjólkina. Fulltrúi ráðuneytisins sem þarna var á nefndarfuninum taldi að íslenskar reglur væru í góðri harmóníu við það sem gilti í öðrum Evrópskum löndum. Fundarmenn töldu svo ekki vera og nefndu ýmis dæmi þar að lútandi. Ef svo væri þá væru íslendingar þeir einu sem færu eftir reglunum. Í kvöldfréttunum var síðan sagt frá því að skátar á Egilsstöðum hefðu ætlað að selja kökur til fjáröflunar í dag á 17. júní skemmtun í bænum. Heilbrigðiseftirlitið bannaði það þar sem kökurnar hefðu ekki verið hrærðar og bakaðar í löggiltu eldhúsi. Því máttu foreldrar skátanna slá í nýja lögun og fina eldhús sem hefur einn vask á hverja þrjá sem vinna í því eða hvernig sem þetta er. Í Víkinni er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur. Þá koma foreldrar krakkanna sem æfa hjá félaginu með kökur og leggja með sér á kökuhlaðborð, sem yfirleitt er hið glæsilegasta. Ekki hafa verið gerðar kröfur til að lagt hafi verið fram sérstakt heilbrigðisvottorð fyrir eldhúsin sem þær eru bakaðar í. Uppákoman á Egilsstöðum sýndi nákvæmlega það sem ég vissi að myndi gerast ef einhver "Beint frá býli" þróun færi að gerast í vaxandi mæli. Regluverkskröfurnar yrðu svo yfirdrifnar að þetta myndi i á engan hátt borga sig.
Í gærkvöldi var síðan sýndur þáttur úr danska sjónvarðinu sem heitir Annemad. Dönsk kona er þar með afar skemmtilega matreiðlsluþætti. Nú er hún á Spáni. Töluverður hluti af hráefninu sem hún notar keypti hún á markaðnum. Þar var meðal annars hrátt kjöt og pylsur af ýmsum toga. Pylsurnar voru heimagerðar einhversstaðar. Ég þori að éta hattinn minn upp á að pylsurnar eru ekki gerðar í steriliseruðum atvinnumannaeldhúsum heldur hjá einhevrju fólki sem er lagið við að gera pylsur og hefur af því smá tekjur ef þær smakkast vel og þykja góðar.

Það var svakaleg frásögnin úr kaþólska samfélaginu í Fréttatímaanum í morgun. Það er óhugguleg tilfinning að pedófílar og og önnur skítmenni skuli hafa hreiðrað um sig í barnastarfi hérlendis og ekki síst þar sem síst var búist við slíku, innan kirkjunnar. Verst að þetta lið skuli vera dautt. Það er tvennt hægt að gera strax, hjálpa þessum einstaklingum eftir megni og síðan á forsetaembættið að gefa út formlega yfirlýsingu þess efni s að gerendurnir hafi verið óverðugir fálkaorðunnar. Sama gildir um biskupsskollann fyrrverandi. Betra seint en aldrei.

Ég tók langan túr í morgun, hljóp upp að Esju, gekk upp að Steini og hljóp svo heim. Var heldur fljótari heim en uppeftir. Það tók mig 44 mínútur að ganga upp að Steini. Flýtti mér ekki. Mér finnst gróðurinn á bílaplaninu hafa vaxið verulega síðan í hitteðfyrra. Það rifjaðist upp að ég fór aldrei á Esjuna í fyrra.

Engin ummæli: