fimmtudagur, febrúar 10, 2005

DNF; Aldrei!!

Hefðbundinn túr í kvöld í heldur leiðinlegu færi. Ekki sérstaklega spennandi að hlaupa eftir mikla snjókomu þegar gangstéttir hafa ekki verið ruddar, heldur rutt upp á þær af götunni. Þá verður maður bara að taka það rólega og nudda áfram. Þegar ég hleyp einn tek ég hlaupin eins og hverja aðra vinnu. Þá fer ég helst alltaf sömu leiðirnar sem ég þekki út og inn og veit nákvæmlega hve mikið er búið og hve mikið er eftir. Þegar maður fer það langt í þessum túrum að maður þarf að hafa drykk með sér (yfir 15 km) þá drekk ég helst alltaf á sömu stöðunum, til að mynda þegar ég fer Poweratehringinn með slaufu upp í Hattinn og lykkju út á Grensásveg. Þá er drukkið við Breiðholtsbrúna og síðan aftur við undirgöngin í Elliðaárdalnum. Kosturinn við að hafa svona reglu á hlaupunum og eins að hafa frí á föstudögum og mánudögum er að þá hefur maður reglubundin frí og getur síður slegið slöku við þegar planið kveður á um hlaup. Nú hef ég heldur enga afsökun að halda mig inni vegna veðurs eftir að kortið er klárt í stöðinni.

Næst er langt hlaup á laugardaginn. Spáin er þokkaleg. Við Halldór og Pétur Reimars hittumst um kl. 9.00 við göngubrúna í Fossvogsbotninum. Það passar fyrir okkur alla að fara af stað um kl. 8.30. Í janúar hittumst við kl. 9.30 en förum fyrr af stað eftir því sem við förum lengri túra til að vera komnir heim á guðlegum tíma. Nú í febrúar stefnum við að því að fara um 35 km þrjá laugardaga með hæfilegri blöndu af brekkum. Þá erum við komnir heim um kl. 12.00. Ein vika verður síðan rólegri. Hvíldin er nefnilega nauðsynlegur þáttur í prógramminu. Í mars verður enn lengt á því og farið enn fyrr af stað og svo koll af kolli. Í næsta mánuði bíða t.d. tvö maraþon ef allt gengur að óskum.

Það er gaman að lesa frásagnir úr þessum löngu og erfiðu hlaupum sem 100 M fjallahlaup eru. Það er greinilegt hve andlega hliðin skiptir miklu máli þegar á reynir. Ég las nýlega um reyndan hlaupara sem hafði hlaupið nokkuð mörg 100 mílna hlaup. Þegar hann fór WS100 eitt sinn var hann venju fremur illa fyrir kallaður og hlaupið reyndist honum erfitt. Konan hans beið á hverri drykkjarstöð honum til aðstoðar og uppörfunar eins og hún hafði gert um áraraðir. Þegar voru um 9 mílur voru eftir kom hann að drykkjarstöð ásamt meðhlaupara þar sem konan hans beið. Dagurinn hafði verið mjög erfiður og honum leið svo illa þegar hann kom inn á stöðina að tárin runnu niður kinnarnar á honum þegar hann skjögraði síðustu metrana. Konan hans sá hvað honum leið og spurði full hluttekningar: Viltu ekki bara hætta góði minn? Hann bálreiddist við spurninguna; Hætta í hlaupinu og fá á sig DNF (Did Not Finish). Aldrei!!! og rauk af stað í illsku. Meðhlauparinn þurfti að hraða sér á eftir honum með áfyllta brúsa og aðrar nauðsynjar. Eftir nokkurn tíma náði hann félaganum og þá var allt orðið í besta lagi með skapið og þeir skokkuðu saman í besta skapi það sem eftir var leiðarinnar. Í markinu bað hann konuna sína afsökunar á bráðlætinu en það þurfti að hleypa í hann illsku með spurningunni hvort ekki væri best fyrir hann að hætta til að þreytan og eymslin hyrfu fyrir ánægjunni að klára hlaupið. DNF, aldrei.

Engin ummæli: