mánudagur, febrúar 28, 2005

Fór ekkert út í kvöld, maður leyfir sér einstaka sinnum að vera hálf latur. Kvefið er samt sem áður allt á undanhaldi. Reyndi einnig að hjálpa til við heimalærdóminn og fleira. Febrúar er búinn að vera fínn, kláraði vel yfir 300 km í mánuðinum með meðalvegalengd í viku um 80 km. Það er miklu meira en ég hef nokkurntíma hlaupið í febrúar og fer heldur fram úr því plani sem sett var um áramótin. Held að ég hafi einnig sett febrúarmet í fyrra þegar ég fór um 200 km í mánuðinum. Þetta hefur ekki verið minn mánuður til þessa. Vissulega hjálpar það til að geta farið inn þegar veður eru leiðinleg. Nú eru 40% æfingatímans búin en 60% eftir og er það erfiðari hlutinn. Hvað álag varðar er örugglega nær 80% eftir. Ég er búinn að hlaupa um 600 km af þeim ca 2000 sem ég þarf að fara fyrir maílok. Allt árið í fyrra hljóp ég 2800 km. Reyndar var ég ansi latur síðustu fjóra mánuði ársins.

Ég sé að á þeim mánuði sem ég hef verið að leika mér við að skrifa inn á þessa spjallsíðu hafa komið um 1500 heimsóknir. Það er gaman að vita af því að einhverjir hafa áhuga á því sem maður er að brasa. Það heldur manni við efnið og eykur agann.

Í næsta mánuði bíða tvö maraþon sem er góð tilhugsun. Nú þarf maður að fara að lengja. Ég sé á veðurspánni að það á að viðra þokkalega fyrir afmælishlaupið á laugardaginn, alla vega á að vera þokkalega hlýtt en vitanlega getur rignt.

Las áhugaverða frásögn í Vísbendingu. Hún heitir Brotnir gluggar og fjallar um á hvern hátt tókst að gjörbreyta New York og gera glæpatíðni í henni eina þá allægstu sem finnst í stórborg af hennar stærð, en hún var heldur slæm þar áður. Unnið var út frá þeirri hugmyndafræði að ef þú sérð brotinn glugga í húsi sem ekki er gert við, þá berð þú minni virðingu en ella fyrir húsinu. Smám saman brotna fleiri gluggar og innan skamms er húsið alónýtt. Þetta hefur áhrif á næstu hús og svo frv. Borgarstjórnin hófst handa með að berjast gegn veggjakroti í neðanjarðarlestunum og á vögnunum. Stöðugt var málað yfir krotið þar sem það birtist. Það tók 6 ár að ná undirtökunum í þeirri baráttu. Síðan var hafist handa við að uppræta ýmsa aðra ósiði svo sem að míga á almannafæri, heimta greiðslu fyrir að þvo bílglugga á gatnamótum og fleira sem þótti draga úr þeirri borgarmynd sem menn vildu sjá. Þetta vannst þannig stig af stigi og í dag er ástandið gjörbreytt. Örugglega er erfitt að segja að það sé ein absolut lausn en það að gefast aldrei upp og einbeita sér að fáum einföldum hlutum skiptir örugglega gríðarlegu máli í þessu sambandi.

Heyrði í fréttum að Ingibjörg Sólrún kæmist á þing í haust. Hún virtist ansi glöð í sjónvarpinu enda ekki að furða þar sem nú fær hún embætti sem hana hefur langað ákaft í. Líklegt er að heilsufar annarra þingmanna í flokknum fari batnandi úr þessu.

Engin ummæli: