sunnudagur, febrúar 20, 2005

Fór niður í Laugardalslaug í morgun. Þaðan lá leiðin hefðbundinn hring vestur í bæ og beygjan tekin á gamlárshlaupsleiðinni. Guðmann tók lengri leið vestur fyrir Gróttu og náði okkur síðan aftur við Nauthól. Hann er svakalega harður og léttur á fæti. Hann reiknar með að toppa eftir um 5 vikur en hann stefnir á London maraþon. Alls urðu þetta um 23 km hjá mér eins og ætlað var. Ég held að kvefið sé heldur á undanhaldi. Það er hollt að svitna þegar maður er kvefaður ef maður gætir þess að láta ekki slá að sér. Mikill er munurinn að hlaupa á auðum stígum í hlýju og logni eins og var bæði í gær og dag í stað þess að hlaupa í frosti, ófærð og vindi. Síðasta vika var milli 80 og 90 km eins og planið hefur hljóðað upp á þannig að allt er eins og stefnt var að. Gleymdi einu í gær. Svanur Bragason, Del Passatore kappi frá því sl. vor, varð sextugur í gær. Það sýnir manni að það geta verið mörg og góð ár eftir ef skynsamlega er á málum haldið.

Var að horfa á fréttirnar á Stöð 2. Þar var sagt frá því að búið væri að setja á netið myndir úr eftirlitsmyndavél frá því að ísfirskur strákur var myrtur á viðurstyggilegan hátt í Hafnarstræti fyrir um þremur árum. Þetta er þvílíkur subbuskapur að það er með ólíkindum að þetta skuli eiga sér stað. Talið er víst að myndbandið komi annað hvort frá verjanda morðingjanna eða þeim sjálfum en líklegt er að þeir séu sloppnir út. Þeir voru dæmdir í 3ja og 6 ára fangelsi og miðað við dómapraxís hérlendis er líklegt að hið hið dulda dómskerfi þegar stytt dvölina í steininum um ca helming. Mig hefur lengi undrað þetta að dómstólar kveði upp ákveðna niðurstöðu í sakamálum en síðan sé til eitthvað apparat sem heitir náðunarnefnd sem taki aðrar ákvarðanir og stytti dóma og felli þannig niður refsingu glæpamanna. Þó eru undantekningar þar á því þeir sem settir eru inn fyrir fjárglæfri eiga enga möguleika á náðun. Þeir eru greinilega álitnir þjóðfélaginu hættulegri en morðingjar, ofbeldismenn og dópsalar.

Engin ummæli: