fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Jæja loksins. Dró fram skóna og fór 8 km hringi í hverfinu í kvöld. Mér fannst ég vera ótrúlega léttur og frískur enda vel út hvíldur og veðrið eins og ég veit ekki hvað. Kvefið er að mestu leyti farið og ekkert að finna í lungunum. Það eru hins vegar aðrir farnir að veikjast á heimilinu þannig að þetta er allt eftir bókinni. Ég verð að reyna að vinna það upp á næstu dögum sem ég tapaði í gær og fyrradag þannig að heildarmagnið í febrúar verði eins og ætlað var. Ég finn að álag síðustu vikna er þegar farið að skila sér þegar maður fær smáhvíld umfram það sem venjulegt er.

Ég er svolítið hugsi yfir þeirri ályktun sem Félags grunnskólakennara sendi frá sér nýlega um að leggja skyldi af samræmd próf í grunnskólum. Ég sé ekki almennilega ljósið. Í stað samræmdra prófa á að meta stöðu nemenda samkvæmt stöðuprófum skólans. Mér finnast samræmdu prófin hafa marga kosti enda þótt þau sé ekki alfullkomin. Ég þekki nefnilega dæmi þess, bæði frá þeim tíma þegar ég var sjálfur í unglingaskóla og eins eftir að krakkarnir mínir byrjuðu í skóla að heimatilbúin próf sögðu nákvæmlega ekki neitt um stöðu barnanna því prófin voru höfð svo létt til að foreldrarnir væru sáttir. Raunveruleikinn kom síðan í ljós annars vegar þegar krakkarnir komu í skóla þar sem gerðar voru meiri kröfur og hins vegar þegar samræmdu prófin voru lögð á. Þá hrundi spilaborgin. Mín skoðun er að það eigi ekki að umgangast grunnskólann sem slíkan eins og heilaga kú heldur eins og hverja aðra stofnun sem á að skila ákveðinni þjónustu af ákveðnum gæðum og þær eiga að skila ákveðnum árangri. Niðurstöðurnar verður aldrei hægt að meta svo óumdeilt sé en mitt mat er að samræmdu prófin séu töluvert skref í þá átt. Slíkar stofnanir verða að búa við það að það séu gerðar á þeim árangursmælingar og gæðamat af öðrum en starfsmönnum stofnunarinnar sjálfrar. Síðan er hinn handleggurinn. Það má ekki leggja samræmt mat á frammistöðu krakkanna því einhverjir fá hærri einkunnir og einhverjir aðrir fá lægri einkunnir. Þegar ég var í skóla þá varð þessi samanburður til að manni hljóp kapp í kinn og maður vildi verða í skárri hlutanum og lagði þá á sig meiri vinnu til að ná því markmiði. Nú hefur sænska stefnan náð yfirhöndinni þar sem ekkert má verða til þess að neinn skeri sig út úr meðalmennskunni. Einkunnir máttu ekki sjást þar því það er "så hemskt jobbigt för dom som får låga betyg och kan ha alvorliga effekter angående deras framtid". Ég held að ég þekki þetta. Mitt mat er að heilbrigð samkeppni sé öllum holl og krakkar eiga að fá að venjast því í eðlilegum skala. Hver væri tilgangurinn með því að æfa íþróttir ef aldrei væri keppt til sigurs? Það er aðalfjörið. Mín skoðun er að það sé rétt og skynsamlegt að hafa samræmd próf af einhverju tagi í grunnskólanum og það eigi að raða efri bekkjum grunnskóla í hægferð, miðferð og hraðferð.

Engin ummæli: