miðvikudagur, mars 29, 2006

Bjó mig vel í gærkvöldi og fór í Elliðaárdalinn. Þar var náttúrulega fínt veður og rétt þægileg gola. Tók Ártúnsbrekkuna tvisvar frá beygju og upp að stíflu og skokkaði svo rólega niður til baka. Planið er að fjölga ferðunum upp í fimm á næstunni og halda því. Fór síðan hring í hólmanum og prufaði höfuðljósið sem ég keypti hjá Daníel Smára á útsölunni. Var ekki alveg ánægður með ljósmagnið en það kannski venst. Kom heim eftir klukkutímatúr.

Fjölskyldan hefur setið við undanfarin föstudagskvöld og horft á Idolið. Maður sér núorðið sárlega eftir hverjum sem verður að fara því þau eru öll það góð. Að mínu viti datt sú besta í hópnum, Ragnheiður Sara, út á síðasta föstudag. Það er magnað hvað ungir krakkar niður í sautján ára gamlir eru orðnir góðir og hafa náð miklu valdi á röddinni. Til samanburðar er aðeins kíkt á það bandaríska. Ég verð nú að segja að ég sé ekki ofboðslega mikinn mun á gæðum söngvaranna og sumir þeirra bandarísku eru frekar slakir þegar þeir eru bornir saman við íslensku krakkana.

Á ársþingi sænska frjálsíþróttasambandsins sem haldið var nýlega í Sollentuna var borin upp tillaga um að mynda fastanefnd innan sambandsins sem skal bera ábyrgð á að framkvæma, þróa og staðla sænsk ultrahlaup.

Tillagan sem lög var fram á þinginu hljóðar sem hér segir:
1. Nefnd skal starfa fram að næsta ársþingi sem skal skila skýrslu um á hvern hátt ultrahlaup í Svíþjóð skuli tengjast Frjálsíþróttasambandinu
2. Hlutverk nefndarinnar á árinu skal vera að vinna að framkvæmd, þróun og stöðlun sænskra ultrahlaupa á eftirfarandi hátt:
2.a. Stuðla að því að halda saman tölfræði um árangur í greininni og skrá sænsk met sem verði fastur liður í tölfræði frjálsíþróttasambandsins
2.b. Leggja fram tillögur um sænsk meistaramót (6 tíma, 100 km, 24 tíma hlaup)
2.c. Leggja fram tillögur um þátttöku í alþjóðlegum meistaramótum
2.d. Setja upp heimasíðu fyrir greinina
2.e. Styrkja norræna samvinnu í greininni fyrstu árin

Þingið samþykkt ekki að setja upp fastanefnd en samþykkti að setja starfshóp í málið. Það er sem sagt á ákveðinn hátt búið að viðurkenna ultrahlaup sem sérstaka íþróttagrein innan sænska frjálsíþróttasambandsins sem þurfi ákveðna umsýslu og þróun eins og aðrar íþróttagreinar.

Lítið skref í rétta átt eins og fyrsta skref í öllum hlaupum er!!

Kannski er þetta eitthvað fyrir okkur að hugsa um. Það hlupu nær 90 manns ultrahlaup hérlendis á sl. ári. Þeim mun fjölga enn frekar í ár. Æ fleiri fara að takast á við ultrahlaup hlaup erlendis. Það á ekki að hugsa um þessa íþróttagrein sem hobby sérvitringa og sjálfpyntara heldur sem alvöruinnlegg í íslenska íþróttaflóru. Baráttunni fyrir skráningu UMFR36 í ÍBR verður síðan haldið áfram.

Engin ummæli: