miðvikudagur, mars 15, 2006

Fór út að hlaupa í gærkvöldi í fínu veðri. Allt eins og það á að sér að vera. Gott að vera búinn að ná undirtökunum aftur.

Er hægt að eiga vatn? Vatn er dálítið sérstætt fyrirbæri. Það kemur og fer eins og vindurinn og er ófyrirsjáanlegt og margbreytilegt. Það dettur niður úr himninum þegar minnst varir í einu eða öðru formi, oft í óþökk þeirra sem það fellur á, en einnig kemur fyrir að það láti á sér standa enda þótt þörf sé fyrir það. Það rennur til sjávar ef það getur og það gufar stundum upp. Stundum frýs það og fer ekki neitt þótt menn vilji að það fari en svo böðlast það burtu með ósköpum í óþökk nálægra þegar hlýnar. Maður getur sagt með nokkrum rétti að maður eigi vatn sem maður kaupir á flösku út í búð. Það vatn hefur verið hneppt í fjötra plastsins og kemur hvorki né fer annað en það sem maður vill sjálfur. Síðan fer málið að vandast þegar farið er að fjalla um hið frjálsa vatn. Afnotaréttur og nýtingarréttur er í eðli sínu annað en eignarréttur þótt framkvæmdin sé oft áþekk. Landeigendur hafa rétt til að nýta vatn í ám og lækjum sem renna um land þeirra. Menn hafa rétt til að nýta fiskivötn. En á maður vatnið, sjálft H20ið, sem kemur og fer eftir lögmálum náttúrunnar? Lögfræðingar sem ég tek mikið mark á eru ekki á eitt sáttir um þetta mál. Sumir segja að eignaréttur og nýtingaréttur sé eitt og hið sama en aðrir eru á öndverðum meiði. Ef ég hefði átt land að Kleifarvatni og einnig talið mig eiga vatnið í því, hvernig hefði þá staða mín verið eftir jarðskjálftana árið 2000 þegar myndaðist gat á botni vatnsins og það rann að miklu leyti eitthvað burt. Átti ég þá vatnið eftir að það rann burt og kom fram á nýjum stað eða átti ég það bara ef það var í þessari ákveðnu dæld sem kölluð er Kleifarvatn þegar hún er full af vatni. Afnotarétti og nýtingarrétti landeigenda fylgja margskonar kvaðir og ákvæði um meðferð og verndun vatns á meðan það dvelur innan landamerkja viðkomandi en svo hverfur það á braut. Á þá einhver annar vatnið þegar það er farið úr landareign minni eða er þetta einvörðungu spurning um afnota- og nýtingarrétt?

Góðir ræðumenn krydda oft mál sitt með góðum sögum eða snjöllum tilvitnunum til að undirstrika enn frekar það sem þeir vilja segja. Í slíkum tilvikum skiptir miklu máli að fara rétt með því ella getur tilvitnunin snúist í andhverfu sína. Mér fannst hinum góða ræðumanni og meitlaða pistlahöfundi Össuri Skarphéðinssyni alþingismanni aðeins förlast í þessum efnum í umræðum á alþingi í gær. Til að leggja áherslu á innihald ræðu sinnar sagði hann að málflutningur stjórnarsinna væri álíka eins og þegar kýr töluðu mannamál á Jónsmessunótt. Þar fór í verra Össur. Ég hef aldrei heyrt eða lesið um að kýr tali á Jónsmessunótt. Þær fá hins vegar málið á nýjársnótt og ræða þá um alla heima og geima svo sem um útilegur á komandi sumri sbr. kvæðið alkunna "Hvar á að tjalda?" segir hún Skjalda. "Suður við fossa" segir hún Krossa o.s.frv. Á Jónsmessunótt flytja hins vegar álfar búferlum. Ef maður vill kynnast því ferli öllu nánar þá skal maður að leggjast á krossgötur á Jónsmessunótt. Þá stoppar maður alla umferðina og getur séð hvaðan hver kemur og hvert hann ætlar. Það er hins vegar ekki alveg víst að maður lifi nóttina af. Sömuleiðis skyldi maður varast að dvelja of lengi í fjósinu á nýársnótt því margur hefur fundist ær að morgni eftir að hafa falið sig í tómum bás að áliðnu gamlárskveldi til að hlusta á kýrnar tala á nýársnótt.

Þetta er rifjað upp hér til að stilla kompásinn varðandi tilvitnanir alþingismanna í þetta efni.

Og svo er það baksíðufrétt í DV að Dóra Takefusa ætli að kaupa sér hjólhýsi. OMG.

Engin ummæli: