miðvikudagur, mars 01, 2006

Fór hverfishringinn í gærkvöldi. Febrúar gerði vel yfir 300 km sem er það lengsta sem ég hef hlaupið í þeim ágæta mánuði. Vikan var um 80 km. Hefði getað farið lengur en þegar maður vinnur eftir ákveðnu plani þá er planið sem blívur en ekki stundarsprettir. Mars á að gera yfir 400 km. Lögð verður aukin áersla á brekkuæfingar og hraðaæfingar mun fjölga. Sá í gærkvöldi að svifrykið á Bústaðaveginum var óhuggulega mikið enda þótt væri farið að halla í kl. 23. þegar ég kom heim.

Dagurinn í dag er nokkuð eftirminnilegur fyrir ýmsa hluti. Þetta er bjórdagurinn. Eftir margra áratuga bið var það gert löglegt að selja bjór á Íslandi. fram að þeim tíma hafði það verið ákveðið yfirstéttarsyndróm að geta boðið upp á björ. Publikum varð að gera sér að góðu að drekka brennívín í kók (eða þannig). Um tíma var mikill business að selja pilsner með tindavodka út í eftir að einhverjur hugvitssamir náungar höfðu fundið glufu í lögunum. Það vaknaði margur með vondan hausverk um helgar á þeim árum. Mér finnst að það ætti að vera skyldulesning að lesa rökstuðning þeirra þingmanna sem voru á móti því að aflétta bjórbanninu.

Þennan morgun árið 1986 vaknaði ég frekar snemma morguns og fór að horfa á God Morgon Sverige en þá bjó ég í Kaupmannahöfn. Það tók mig nokkuð langan tíma að átta mig á hvað fólkið í sjónvarpinu var að tala um en svo áttaði ég mig á umræðuefninu; Það var búið að skjóta Olof Palme. Það fer ennþá um mann hrollur við tilhugsunina þegar maður áttaði sig á alvörunni. Olof Palme var mikilvirtasti stjórnmálamaður Norðurlanda fyrr og síðar og nokkursskonar symbol í augmum fyrir margra hluta sakir. Hann var einnig hataður af öðrum. Það er með ólíkindum hvernig mörgum þáttum í rannsókn málsins var klúðrað eftir því sem seinni tíma heimildavinna hefur leitt í ljós. Það er meðal annars af þeim sökum sem menn eru ekki algerlega sannfærðir um að Christer Petterson, einn af Stokkhólmskrimmunum hafi skotið hann, kannski af misgáningi, enda þótt margt bendi til þess.

Sé mér til ánægju að það eru ýmsir sem fitja upp á nefið við glersúlunni í Viðey. Þetta er nú meira ruglið. Myndi maður fara sjálfur út í einhverja eyju ef maður væri í fríi á Krít eða á Spáni og troða miða í einhverja glersúlu í þeim tilgangi að stuðla að friði í heiminum? Afskaplega fáir myndu gera þetta, að ég tali ekki um ef það er bara veitt aðgengi að henni í nóvember. Ef menn vilja stuðla að auknum friði í heiminum held ég að vænlegra til árangurs væri að taka barn í fóstur í Afríku og sjá til þess að það fengi sæmilega að borða, hefði föt og heimili og fengi menntun. Þetta er kannski ekki sérstaklega frumlegt séð í gegnum sólgleraugu lélegs listamanns og enn lélegri söngkonu sem ferðast um í nafni fyrrverandi eiginmanns síns en ég er ekki frá því að árangurinn væri meiri en hennar aðferðafræði. Af hverju borgar hún ekki gimmikkið sjálf?

Engin ummæli: