laugardagur, mars 25, 2006

Marsmaraþon var í morgun. Það var aðeins kalt en sól og fínt veður. Golan var minni en maður ætlaði. Þáttakan var góð, yfir 100 manns í hálfu og heilu. Þriðjungur í heilu og tveir/þriðju í hálfu. Ég gerði mér engar vonir um neinn tíma sem í frásögur væri færandi heldur ætlaði ég að taka hlaupið sem langa æfingu. Lítil hlaup undanfarnar vikur hafa sitt að segja. Ég hélt sjó með Svan, Sigmundi og Halldóri framan af hlaupinu. Halldór dró frá okkur við markið í hálfu og var léttur í spori og ég dróst aftur úr Svan og Sigmundi við Nauthól þegar um 30 km voru búnir. Mig vantaði einhvern veginn grimmdina til að keyra af meiri krafti og þá er það bara þannig. Í kuldanum komu handbrúsinn og bakpokinn í góðar þarfir því ég hafði alltaf volgan drykk handbæran. Það báru sig ýmsir illa undan því að svolgra í sig kalda drykki þegar orkan var orðin lítil í tankinum. Maganum er ekkert voðalega vel við svona sjokkmeðferð. Ég kláraði á svipðuðum tíma og ég hafði gert ráð fyrir eða á rúmlega 3.50. Maður fær ákveðin skilaboð sem er bara að vinna úr. Framkvæmdaaðilum hlaupsins skal enn og aftur þakkað fyrir hlaupið. Þeir eiga miklar þakkir skilið sem leggja á sig ómælda vinnu við undirbúning og framkvæmd þess. Það er ekki síst fyrir tilverknað þeirra sem hlaupaflóran er orðin svo fjölbreytt hérna með margskonar vaxtarsprotum út um allt.

Engin ummæli: