laugardagur, mars 11, 2006

Maður sér stundum hve allt er afstætt. Í fréttum er oft fyrirferðarmikið hve hinn eða þessi hefur fengið margar milljónir í laun á mánuði eða í kaupauka eða ég veit ekki hvað. Samkvæmt flestum náttúrulögmálum ætti maður að vera svolítið öfundsjúkur þegar maður horfir á sín föstu mánuðarlaun sem hvorki eru með tengingu við kaupréttarsamninga eða gengishækkun hlutabréfa og ber þau saman við ofurlaun forsíðumanna. En allt er þetta afstætt. Ég las nýlega í Mogganum minningargreinar um þrjá menn sama daginn sem voru bæði aðeins eldri og aðeins yngri en ég. Ég get ekki sagt að ég hafi þekkt þá persónulega en vissi að þeir voru til og einn þeirra var reyndar gamall skólabróðir minn. Öllum þessum mönnum voru gefnir hæfileikar sem komu þeim í fremstu röð á landsvísu, hver á sinn hátt. Þeir uppskáru aðdáun og virðingu kunningja og félaga og almennings fyrir afrek sín og hæfileika. Engu að síður eru þeir allir látnir, saddir lífdaga.

Á fimmtudaginn hittist síðan þannig á að ég hitti einn gamlan félaga úr sveitinni að vestan og heyrði í öðrum í síma. Annar er aðeins yngri en ég en hinn aðeins eldri. Hvorugur þessara sveitunga minna eru vinnufærir í dag. Annar sagðist ekki hafa getað stundað vinnu í 5 - 6 ár vegna veikinda, bæði líkamlegra og andlegra. Nýlega kom í ljós að hann hafði allann þennan tíma verið með æxli á nýrnahettunum sem hafði sett öll efnaskipti líkamans í tómt rugl. Eftir að í ljós kom hver var ástæða allra þessara hörmunga var hann skorinn upp og sagðist nú sjá ljósið í fyrsta sinn um langan tíma. Hinn hafði ekki stundað vinnu vel á annað ár vegna hjartabilunar. Hann hafði orðið að selja ofan af sér húsið og koma sér fyrir í minna húsnæði til að halda fjármálum fjölskyldunnar í þokkalegu jafnvægi á meðan hann getur ekki unnið fyrir sér.

Þetta fær mann til að hugsa um í þvílíkum forréttindahóp maður er. Svo maður takmarki sig bara við sína eigin heilsu þá er það ekki sjálfgefið allt sé í lagi hvað þá að maður sé í jafngóðu eða jafnvel betra formi en þegar maður var tvítugur eða þrítugur. Það er nefnilega ekki alltaf svo auðvelt að segja til um það með vísindalegri nákvæmni hver er ríkastur.

Engin ummæli: