mánudagur, janúar 15, 2007

Bakið er allt að skána og ég vonast til að geta farið að skokka í kvöld. Hvað ætli þursabit sé? þetta er einhver krampi eða eitthvað í þá áttina en ekki harðsperrur eða eitthvað sem kemur vegna of mikils álags eða rangrar vinnustöðu. Ég man eftir því einu sinni fyrir um 25 árum þá var ég heima yfir sumarið. Ég var dag einn að ganga rólegheitum frammi við á og ekkert að gerast. Þá finn ég allt í einu eins og risakrumla taki í bakið á mér upp við herðablað og herði að. Krampinn var svo harður að ég átti í erfiðleikum með að ná andanum á stundum. Ég komst þá heim alveg ómögulegur og lá fyrir það sem eftir var dagsins með hitapoka við bakið. Það var helst húsráða við svona löguðu. Daginn eftir fór ég að staulast um úti því það var betra en að liggja. Við hreyfinguna liðkaðist bakið upp og þetta hvarf eins og dögg fyirr sólu og hefur aldrei látið sjá sig síðan.

Íslendingar eru um 300.000 manns enda þótt stundum látum við eins og við séum þrjár milljónir eða þaðan af meira. Það er í sjálfu sér ágætt því ef menn væru sífellt að segja að við værum svo fáir og smáir að við gætum ekki neitt þá myndi ekkert gerast. Við getum t.d. séð hvernig samfélögin á austur strönd Kanada (Nýfundnaland, Prince Edward Island og Nova Scotia) hafa þróast og hafa þau þó á margan hátt betri aðstæður en við. Á hinn bóginn verða menn að ætla sér af. Gott er að setja sér háleit markmið en ákveðið raunsæi verður þó að vera fyrir hendi. Ég held að það sé dálítið langt í að Háskóli Íslands geti talið sig meðal 100 bestu háskóla í heimi. Á meðan það þykir enn svo fréttnæmt að einhver ljúki doktorsprófi hérlendis að þess er sérstaklega getið í Mogganum hverju sinni þá er nokkur ferð fyrir höndum. Í háskólanum í Berkley í Kaliforníu (svo dæmi sé tekið) eru svona 40.000 nemendur. Þeir einu í skólanum sem fá merkt bílastæði eru nóbelsverðlaunahafar. Svona háskólar eru í topp 100.

Engin ummæli: