fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég er heldur framlágur nú í þess orðs fyllstu merkingu. Ég var farinn að hlaupa inni í Laugum á bretti og allt gott um það að segja. Í gær var ég kominn niður í klefa sat og beygði mig fram til að losa skóreimarnar eins og maður hefur gert þúsund sinnum áður. Þá heyrði ég brak og bresti í bakinu og munaði minnstu að ég lægi í keng á gólfinu. Ég veit ekki hver fjandinn þetta var, líklega hefur maður verið orðinn eins og spýta en þarna var akkúrat ekkert að gerast. Ég er heldur skárri nú en læt hlaupin bíða eitthað þar til eftir helgi. Maður þarf hins vegar að huga að því að halda bakinu liðugu ekkert síður en löppunum.

Skelfing fannst mér myndin af sendiboðum Alþingis í Sádí Arabíu vera álappaleg. Þarna voru þær strútvafðar í dúka svo sæist sem minnst í þær með kirtlakörlunum. Erindið; jú að óska eftir því að þarlendir myndu styðja Ísland til setu í öryggisráð'inu. Maður getur rétt ímyndað sér hvaða augum valdhafar í Sádí Arabíu líta á svona sendinefnd þar sem virðingarröðin er álíka og hún er í Kasakstan að sögn Borats; Karlar, hestar, hundar, konur, kakkalakkar. Ég hélt að ríkisstjórnin væri hætt að leggja áherslu á þessa vitleysu en svo er víst ekki. Alla vega eru þingmenn sendir út og suður í þeim erindagjörðum að leita liðsstyrks. Vafalaust er gaman að fara í skemmtiferðir til þessara landa en viðkomandi eiga þá bara að fara á eigin spýtur og borga ferðakostnaðinn sjálfir.

Gott hjá VÞV borgarstjóra að taka upp umræðuna um peningakassana. Það er alltaf auðveldast að kóa með og vera ekki að styggja neinn en þegar menn eru nógu hugrakkir þá geta menn breytt ýmsu, bara með því að taka upp umræðuna og horfa á hlutina eins og þeir eru. Spilafíkn er ekki betri fíkn en mörg önnur. Það muna flestir vonandi eftir örlögum efnilegs stráks úr Kópavogi sem sá engin sund fær úr ógöngum spilafíknarinnar. Ég sá í sænsku blöðunum í vikunni að foreldrar 22 ára stráks sem fargaði sér vegna splaskulda höfðu gengip fram fyrir skjöldu og reynt að vekja athygli þarlendra á þessum vanda sem aðgengi að þessum ógæfuvélum, eins og VÞV nefnir spilakassa, getur skapað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur og árið og allt það!

Ég vona að þú náir þér fljótt og vel af þessu þursabiti í bakinu.

Annars ætlaði ég að kommenta á þessu glæsulegu mynd hér fyrir neðan, hún á skilið að fara í almanak.

Kveðja Halli

Nafnlaus sagði...

Þegar ég kom úr hlaupunum í sundið var þar maður sem mikið vit hefur á málum sem vatt sér að mér og tilkynnti mér að ég yrði að styrkja á mér miðjuna (maga og mjóbak). Hann sagði að þetta væri veikur blettur á hlaupurum og ég er ekki frá því að það sé rétt hjá honum...