þriðjudagur, janúar 02, 2007

Ég komst ekki í Gamlárshlaup ÍR á gamlársdag. Það var gaman að sjá að þátttakan sló öll met. Þetta sýnir okkur hvað er að gerast í þessum geira. Kári og Íris Ósk sigruðuá góðum tímum og Kári setti hlaupsmet. Það fer að koma að því að hann smeygi sér undir 30 mín í 10 km. Það er kominn tími á að einhver slái Sigfús Jónsson út en hann á 30.10 að því mig minnir.

Hin mikla þáttaka í Gamlárshlaupi ÍR minnir mig á lista sem ég sá í Mogganum á milli hátíðanna þar sem kynntur var íþróttamaður og kona ársins í hinum fjölmörgu íþróttagreinum. Þetta var allt öflugt fólk sem er ástæða að óska til hamingju með góðan árangur á síðasta ári. Mér fannst hins vegar vanta fólk úr götuhlaupum þarna. Það þýðir ekki að segja að götuhlauparar og utanvegahlauparar falli undir frjálsar íþróttir og þar með sé málið afgreitt. Það er bara allt önnur deild. Ultrahlauparar eru síðan enn ein kategorían. Við eigum öfluga einstaklinga í þessum greinum sem er að standa sig vel og þátttaka fer vaxandi. Það væri gaman að taka það saman hve margir þátttakendur eru í öllum götu- og utanvegahlaupum hérlendis. Mér segir svo hugur um að það séu ekki margar íþróttagreinar sem hafa á að skipa fjölmennari hópi keppenda. Annað sem skiptir ekki síðra máli er að þeir sem taka þátt í þessari íþrótt er ekki síður fullorðið fólk en börn og ungt fólk, sem stundar aðrar íþróttir af hvað mestu kappi. Það er verkefni FM og annarra samtaka að halda fram málstað þessa hóps og fá hann formlega viðurkenndan af íþróttasamtökum landsins. Þar er við ramman reip að draga. Ég er búinn að reyna í þrjú ár að fá UMFR36 skráð í ÍBR en ekki tekist enn. Í UMFR36 hefur ekkert hlaup skráð í afrekaskrá sem er styttra en maraþon, svona til einföldunar. Það þykir kannski of langt. Ég sé engin rök fyrir þessari tregðu ÍBR en svona er lífið. Þetta tekst hins vegar á endanum, það er bara spurning um tíma. Langhlauparar hafa nóg af honum.

Engin ummæli: