þriðjudagur, janúar 23, 2007

Það var mikill hávaði í Rauðagerðinu í gærkvöldi á meðan á leiknum við Frakka stóð. Maður varð þarna vitni að einu ótrúlegasta kombakki sem maður hefur séð í handboltanum. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt en svona er þetta samt. Flott.

Það var heldur dempaðri stemming í stofunni þegar leiknum var lokið. Ég horfði þá á þriðja þáttinn um Maó Tse Tung, fyrrum einræðisherra í Kína. Þetta eru frábærir þættir sem hafa dregið huluna frá ýmsu sem maður vissi ekki áður. Fyrsti þátturinn fjallaði um samfélagið fyrir valdatöku kommúnista, gönguna miklu og fleira. Næsti þáttur fjallaði um ruglið á fyrstu stjórnarárum Maós, baráttuna við að halda störrunum á flugi og stóra stökkið þar sem allir áttu að bræða járn og hvernig framleiðsla landsins féll saman í kjölfarið á þessu öllu saman. Þátturinn í gær kom inn á hungursneyðina á árunum um og fyrir 1960 þar sem talið er að um 38 milljónir manna hafi soltið til bana. Hundruð milljóna urðu fyrir ótölulegum hörmungum. Mannát var algengt. Eftir það var skömmtun matvæla fastur liður í stjórnartíð Maós. Síðan var komið inn á tímabil rauðu varðliðanna þegar Maó sigaði illa upplýstum og ómenntuðum unglingaskríl á samfélagið til að tryggja völd sín. Talið er að um ein milljón manna hafi verið drepin af skrílnum og ómældar hörmungar leiddar yfir fjöldann. Allir þeir sem höfðu samfélagslega ábyrgð, menntafólk, þeir sem áttu bækur féllu undir skilgreininguna borgaraleg gildi og skrílnum sigað á þá. Meðal þeirra voru nánstu samstarfsmenn Maós til áratuga. Tilgangurinn helgaði hins vegar meðalið. Gríðarleg menningarverðmæti frá fyrri öldum voru eyðilögð vegna þess að þau voru andsamfélagsleg og samræmdust ekki hinni hrinu hugsun. Ef einhver efaðist um ágæti Maós var hann í fyrsta lagi talinn vanheill á geði og yfirleitt drepinn. Útkoman úr þessu var hinn ótrúlegasti heilaþvottur á heilli þjóð sem maður hefur séð. Það sem gerðist í Kambódíu í tíð Rauðu kmeranna var svona næsti bær.
Síðasti þátturinn fjallar líklega um fjórmenningaklíkuna, fall hennar og Maós.

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það hafi verið nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að stjórnvöld í Kína tóku á stúdentaóeirðunum á Torgi hins himneska friðar í kringum 1990 og kláruðu það dæmi. Ef þeir hefðu misst tökin á þróuninni þá hefðu hörmungarnar sem leiddar hefðu verið yfir þjóðina verið svo miklu miklu meiri. Þeir hafa reynsluna af slíku.

Mæli með því að horfa síðasta þáttinn sem verður á mánudaginn kemur.

Að afloknu þessu sviptingasama kvöldi var farið út að hlaupa.

Engin ummæli: