mánudagur, janúar 01, 2007

Þegar ég bjó fyrir norðan þá var ég í nokkur misserri formaður stjórnar atvinnuþróunarfélagsins í Þingeyjarsýslum. Við stóðum tvisvar fyrir atvinnuvegasýningu á Húsavík þar sem fyrirtæki í S- og N Þing kynntu framleiðslu sína. Þegar einu stóru matvælafyrirtæki var boðið að vera með á sýningunni og kynna framleiðslu sína þá var svarað: "Þarf maður nú að fara að gefa þessu liði að éta?"

Mér hefur dagskrá sjónvarpsins yfir jól og áramót bera keim af þessu attitjúdi. Lélegar bíómyndir, auglýsingatrailerar og heimavídeó þjóðleikhússtjóra er það sem maður man helst eftir að hafa séð bregða fyrir á skjánum yfir hátíðarnar. Mér finnst metnaðarleysið vera yfirþyrmandi. Kunnugir segja að það sé oft svona hjá stofnunum sem eru áskrifendur að tekjum sem koma hvort menn standa sig vel eða illa. Áramótaskaupið var síðan eitt það allra leiðinlegasta sem ég hef séð. Það var verra en það sem Þórhildur Þorleifsdóttir stjórnaði hér um árið og hélt ég þó að þar væri botninum náð. Ég hef nokkuð mörg lýsingarorð tiltæk þegar skaupið ber á góma en ég ætla að sleppa því að skrifa þau niður. Það hefur ekki gerst áður að maður hafi hætt að horfa áður en skaupið tók enda en það gerðist í gærkvöldi. Nú vantar ekki að það séu til margir góðir leikarar, handritshöfundar og stjórnendur. Spaugstofan, Svínasúpan, Strákarnir og Stelpurnar eru ótvíræð vitni um það. Kannski er þá bara C deildin eftir. Það væri gaman að vita hvað þessi þáttur kostaði en miðað við hvað maður fékk fyrir peningana í gærkvöldi myndi ég leggja til að skaupið væri lagt niður.

Það þarf kannski ekki að taka það fram að matvælaframleiðslufyrirtækið áðurnefnda fór á hausinn.

Vaknaði á þokkalegum tíma í morgun og fór góðan rúnt í morgnbirtunni að taka myndir. Sólarupprás og sólarlag eru oft besti tíminn til að taka myndir, ekki síst þegar sól er lágt á lofti.

Skotið á bíl lögreglunnar á Blönduósi. Ráðist á lögreglumenn sem komu á vettvang vegna þess að kvartað var yfir hávaða vegna flugeldaskothríðar og þeir slasaðir. Ég er viss um að endalaus umfjöllun fjölmiðla í sumar um hið svokallaða harðræði og harkalega framkoma lögreglunnar fyrir austan hefur lagt sitt af mörkum til að auka virðingarleysi fyrir lögreglunni. Slík þróun getur ekki annað en endað með ósköpum. Fréttastjórar bera mikla ábyrgð á því að einstaklingar sem hafa fengið vinnu við fjölmiðla en eru ekki hæfir til þeirra starfa fái ekki að leika algerlega lausum hala. Sérstaklega finnst mér það eiga við hjá þeirri stofnun sem tekur peninga úr mínum vasa hvort sem ég vil eða ekki.

Engin ummæli: